Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 16:31:42 (8004)

2001-05-17 16:31:42# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með fyrirhugaðri einkavæðingu Landssímans má segja að kreddu- eða trúarbragðakennd vinnubrögð þeirra sem barist hafa fyrir einkavæðingu hér á landi komist á nýtt stig. Það er þá fyrst og fremst vegna þess að Landssíminn er, ef ekki beinlínis fyrsta, þá a.m.k. langstærsta og viðamesta einkavæðing á opinberu almenningsþjónustufyrirtæki í landinu.

Í öðru lagi er verið að einkavæða fyrirtæki í hreinni og klárri einokunaraðstöðu. Það er líka nýtt að fara út í einkavæðingu á starfsemi af þessu tagi sem lýtur lögmálum einokunar eða algjörlega markaðsráðandi drottnandi stöðu á markaði.

Í þriðja lagi lýsir ofstækið sér í því að þrátt fyrir þetta eru engar kvaðir eða skilmálar látnir fylgja með hinu einkavædda fyrirtæki. Ég rek a.m.k. ekki augun í það í þessu frv. Það sem vísað er til eru þá fjarskiptalög sem fullnægjandi trygging fyrir hlutum sem menn hafa mest rætt í tengslum við það sem varast þurfi í sambandi við þessa einkavæðingu fyrirtækis í einokunaraðstöðu eða algjörlega markaðsráðandi aðstöðu.

Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að mönnum verður ekkert flökurt gagnvart þessu ofan í þá umræðu sem geisar núna í landinu og hefur farið hátt um afleiðingar þess fyrir neytendur að einstakir aðilar á einstökum sviðum viðskipta nái slíkri stöðu. Hér linnir ekki umræðum um djöfulskap þeirra sem hafa náð markaðsráðandi stöðu í matvöruverslun, grænmetisverslun eða dreifingu. Ekki eiga tryggingarfélögin eða olíufélögin alltaf upp á pallborðið. Ég veit ekki betur en að ekki minni maður en sjálfur hæstv. forsrh. hafi sérstaklega gert þau að umfjöllunarefni og gagnrýnt þau harðlega vegna þess að þau nota ótæpilega markaðsráðandi eða fákeppnisstöðu sína. Það hefur hins vegar engin áhrif á það að menn skella sér út í að einkavæða gríðarlega mikilvægt almenningsþjónustufyrirtæki sem er í hreinni og klárri einokunaraðstöðu eins og ekkert sé. Eins og bara að drekka vatn og vísa til þess að kominn sé einhver vísir að samkeppni, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu og þar með sé réttlætingin fengin.

Hver er samkeppnin við Landssímann hf., t.d. á landsbyggðinni? Hver er hún? Getur hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir frætt mig um það? Er ekki næsta öruggt að samkvæmt öllum venjulegum skilgreiningum telst þetta ekki aðeins markaðsráðandi staða, þetta telst einokun? Í almennri símaþjónustu og einnig mörgum af sérhæfðari verkefnum Landssímans er um hreina einokun að ræða, enginn annar getur í dag keppt við fyrirtækið og í öðrum tilvikum hefur náttúrlega Landssíminn þvílíka yfirburðarstöðu að það má mikið deila um hvort það er samkeppni nema að nafninu til sem er í raun og veru þar á ferðinni.

Herra forseti. Í fjórða lagi má segja að ofstækið í þessu birtist okkur í því, trúin, hin trúarbragðakennda nálgun að einkavæðingin, einkavæðingar vegna, skuli blífa hvað sem í hlut á, að nú er það orðið að markmiði í sjálfu sér að selja þetta fyrirtæki til útlanda. Það er að vísu réttlætt kannski meira með tilteknum tímabundnum efnahagslegum nauðungaraðstæðum en að ég hafi beinlínis skilið það svo að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. ráðherra, eigi sér það orðið sem hugsjón að koma verðmætum fyrirtækjum og aðstöðu í íslensku viðskiptalífi úr landi. Vel getur verið að svo sé en ég hef svo sem ekki heyrt þá segja það beint. Ég hef hins vegar heyrt menn segja að það verði að selja þetta úr landi til að fá gjaldeyri inn í landið á móti og styrkja þannig gengi krónunnar o.s.frv.

Herra forseti. Það er líka nýtt eða nýlegt að það sé orðið beinlínis markmið í sjálfu sér að selja úr landi fyrirtæki af þessu tagi.

Af hverju er maður að ræða þetta? Skiptir nokkru máli hvort Landssíminn, ef hann verður einkavæddur á annað borð, er í eigu útlendinga eða Íslendinga? Jú, ég tel svo vera. Ég held að það sé auðvelt að færa rök fyrir því að það væri þá nær mönnum að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar kunna að verða í framtíðinni í þessu einkavædda fyrirtæki ef um er að ræða innlent eignarhald og innlent forræði fyrirtækisins.

Menn gætu átt eftir að sjá, ef útlendingar fá þarna ráðandi hlut, eða komast í meirihlutaaðstöðu á komandi árum gegnum kaup á eftirmarkaði o.s.frv., að hagsmunir þeirra, þó eigendur séu að fyrirtækinu og menn mundu ætla að þeir mundu þá gæta sín á því að það þjónaði eigendahagsmunum þeirra að láta fyrirtækið blómgast hér í landinu. Gott og vel. En aðrar ástæður geta legið að baki ákvörðunum um hluti sem skaða íslenska hagsmuni þó það skaði kannski ekki rekstur fyrirtækisins svo sem eins og þeir hvar framtíðaruppbygging ýmissar þjónustu á þess vegum verður og hvert arðurinn flyst, hvar arðinum af starfsemi þess verður í komandi framtíð ráðstafað.

Það er alveg augljóst mál að um leið og útlendingar eiga verulega hluti eða ráðandi hluti í fyrirtækinu opnast sá möguleiki að arðurinn flytjist árlega úr landi og að menn taki meiri arð út úr fyrirtækinu af þeim sökum og ráðstafi minnu til uppbyggingar hér inni í landinu.

Um þetta eru dæmin alveg skýr, herra forseti. Af einhverjum ástæðum hafa mjög margar þjóðir þó reynt að tryggja með einhverjum hætti forræði sitt í fyrirtækjum jafnvel af þessum toga þó þau hafi verið einkavædd.

Herra forseti. Ég ætla að víkja aðeins betur að þessum atriðum þegar ég síðar í máli mínu ræði svolítið um reynslu annarra þjóða af sambærilegri einkavæðingu.

Mér sýnist nú að menn hafi ekki unnið merkilega heimavinnuna sína í þessu máli. Það er verið að hæla mönnum fyrir merkilega vinnu í þessum nefndum öllum o.s.frv. Ég gef henni ekki endilega mjög háa einkunn. Mér finnst enn þá margt vera óljóst í sambandi við afgreiðslu þessa máls sem hefði átt að vera miklu skýrara, herra forseti.

Ég nefni sem dæmi afar rýrt veganesti hvað varðar líklega framtíðarþróun í tæknilegum efnum sem varða miklu um þýðingu og mikilvægi grunnnetsins annars vegar og hins vegar samkeppni við aðra möguleika, eins og gervihnattasambönd.

Svipað mætti segja um svar við fyrirspurn sem ég lagði fram í vetur og gleymdist í samgrn. og dróst mjög að svara. Þess þá heldur kom mér á óvart að svarið var jafnrýrt og raun bar vitni. Ég var með beinum spurningum að biðja um úttekt á því hvað tilteknar aðgerðir í sambandi við ljósleiðaravæðingu landsins kostuðu og fékk við því svo sem engin svör. Ég verð því að gefa ráðuneytinu og/eða þeim sem hafa unnið svarið fyrir ráðuneytið falleinkunn hvað það varðar.

Ég var ekki að spyrja um kostnaðinn við það pr. km að leggja annan ljósleiðara hring um landið svo dæmi sé tekið en fékk um það svar, óbeðið. Ég var að spyrja beint um það hvað kostar t.d. að tengja alla þéttbýlisstaði með 100 eða þess vegna 150 eða 200 íbúum ef menn vilja velja þar aðra viðmiðun. Beint með ljósleiðara, ekki með örbylgjusamböndum, sem þvælast fyrir mönnum í þeim tilvikum. Hvað mundi það kosta að hafa tengipunkt, hnútstöðu eða hvað það nú heitir á hverjum slíkum stað? Opna öllum beinan aðgang inn að ljósleiðaranum? Þá er náttúrlega á meðan a.m.k. hann heldur gildi sínu ekki um það að deila að menn eru jafnsettir að því leyti til. Og svörin voru eins og engin.

Þegar kemur að undirbúningsvinnu af því tagi að menn kortleggi með einhverju móti reynslu annarra þjóða af einkavæðingu sambærilegra fjarskiptafyrirtækja er það nú rýr uppskera, verð ég að segja. Óskaplega rýr. Mér finnst það vera heldur litað það litla sem fjallað er um slíka kosti í þessum pappírum. Kannski er varla von á öðru því við vitum að þetta hefur verið unnið þannig að settir eru heittrúaðir menn í nefnd, svonefnda einkavæðingarnefnd, og síðan er hún látin stjórna öllu verklagi í þessum efnum og til hennar vísað þegar einhver óleyst vandamál eru eftir, þá er það bara einkavæðingarnefndin sem á að sjá um það eins og við heyrðum t.d. varðandi álitamál sem tengjast sölu bankanna, tímasetningum í því og öðru slíku. Þegar menn rak í vörðurnar eða vildu ekki svara var sagt: Ja, það verður bara einkavæðingarnefndin sem sér um þetta.

Herra forseti. Framsfl. hefur borið svolítið á góma, hann er ekki fjölmennur í augnablikinu í þinginu, hann er ekki einu sinni það fjölmennur að það samsvari fylgi hans samkvæmt skoðanakönnunum um þessar mundir því hann er bara núll hér á staðnum. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur fengið það öfundsverða hlutskipti eða hitt þó heldur að vera sérstakur talsmaður framsóknarmanna í einkavæðingu Landssímans. Það er eitthvert mesta þrælshlutverk sem hefur verið lagt á nokkurn mann lengi, að ætla sér að eiga að standa fyrir þeim ósköpum að útskýra kúvendingar og uppgjöf framsóknarmanna í þessum símamálum.

En það hefði verið fróðlegt að heyra kappana, hæstv. landbrh. Guðna Ágústsson, eða hæstv. félmrh. Pál Pétursson, sem hafa á köflum í gegnum tíðina þóst vera talsmenn annarra sjónarmiða en þeirra, að hjóla beint í sjálfan Landssímann og einkavæða hann.

Eins er það, herra forseti, að það er auðvitað mikill bagi að hæstv. utanrrh. skuli ekki koma og gera grein fyrir því hvað felst í svokölluðu samkomulagi stjórnarflokkanna um það hvernig farið verði með eignarhlutinn. Getur hæstv. samgrh. gefið algjörlega skýr svör við því hvað bollaleggingar hæstv. utanrrh. þýða um það að ríkisstjórnin muni ekki á næstu mánuðum eða missirum selja meiri hluta í fyrirtækinu? Með vísan til þess að skynsamlegt sé að taka þetta í einhverjum skrefum og byrja rólega. Hvað þýðir þetta á mannamáli?

Þetta er haft eins loðið og kostur er með því að grauta saman bæði mánuðum og missirum og eru nú ekki alveg sambærilegar einingar, önnur svolítið stærri en hin, líklega u.þ.b. sex sinnum. Er ekki hægt að tala skýrar? Er ekki eftirspurn eftir því líka á markaðnum, ef á að fara út í þetta á annað borð, að talað sé skýrar? Ég hefði haldið það. Þetta er dálítið þokukennt. Við hverju eiga menn að búast? Að þeir verði meðeigendur á móti ríkinu í nokkur ár eða að það kunni bara að vera spurning um mánuði þangað til ríkið selur restina? Og þá hvernig? Þetta er eins vitlaust og nokkuð getur verið. Þetta væri hvergi gert svona nema á Íslandi. Hvergi.

[16:45]

Tökum Noreg sem dæmi, þar hafa menn verið að selja hlut úr stórum öflugum ríkisfyrirtækjum eins og Statoil og símanum o.fl. Hvernig fara menn að? Menn kortleggja nákvæmlega hvernig skuli gera það. Það er gert á grundvelli þáltill. þar sem línurnar eru markaðar, stundum með pólitískri samstöðu og stundum ekki. Það er látið reyna á það í Noregi hvort mögulegt sé að ná sæmilegri samstöðu um hlutina, t.d. var lögð mikil vinna í að ná sem víðtækastri samstöðu í norska Stórþinginu um byrjunina á einkavæðingu Statoil og það tókst nokkuð vel. Í aðalatriðum er samstaða um að fara þar mjög rólegan, í áfanga þar sem seldur er lítill eignarhlutur. Það liggur alveg fyrir að þar er ekki á dagskrá, það er yfirlýst og klárt, að selja meiri hluta í fyrirtækinu, ekki einu sinni ráðandi hlut á næstu árum. Þetta liggur fyrir samkvæmt ályktunum norska þingsins og að þessu ganga allir. Stjórnmálaheimurinn, markaðurinn og allir sem þetta þurfa að vita geta gengið að þessu vísu og þessu treysta menn. Þar er sá siður hafður á að menn standa við það sem þeir setja á prent og kemur frá þeim í formlegum þingskjölum á norska Stórþinginu. Slíku er ekki að heilsa hér. Hér hafa menn margsvikið fyrirheit og yfirlýsingar í greinargerðum stjórnarfrumvarpa eins og frægt er, t.d. um sölu bankanna.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að hafa þetta? Ég óska eftir því, herra forseti, og mun fylgja því eftir að við fáum skýr svör áður en umræðunni lýkur. Það er óþolandi að hafa þetta svona grautarlegt. Ég bið um það, herra forseti, að utanrrh. verði gert viðvart um að það sé mikil eftirspurn eftir því að hann komi hér til umræðunnar áður en henni lýkur og geri grein fyrir því hvað hann hafi átt við með orðum sem hann lét falla, m.a. í viðtölum við fjölmiðla 26. apríl sl. Hvað er í vændum? Getur hæstv. ráðherra greint frá því á mannamáli og um hvað hafa stjórnarflokkarnir samið eða ekki samið hvað þetta varðar?

Frv. er einfalt, herra forseti. Það heimilar ósköp einfaldlega að selja allt hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands. Þar er engin 49% viðmiðun eða annað slíkt. Það skiptir máli, úr því þetta er svona úr garði gert, að eitthvað liggi fyrir um hvað í vændum er að þessu leyti.

Ég nenni ekki, herra forseti, enda hafa aðrir orðið til þess hér á undan mér, að draga fram uppgjöf og viðsnúning framsóknarmanna í þessu máli. Það er ekki ástæða til að bæta þar neinu við, það er eiginlega ekki sanngjarnt, þegar menn liggja jafnflatir og þeir framsóknarmenn í þessu máli. Það verður að taka tillit til þess og sparka ekki í menn við slíkar aðstæður.

Það var reyndar athyglisvert og dálítið hlálegt að heyra hv. þm. Hjálmar Árnason kvarta undan því áðan að honum fyndist afstaða Samfylkingarinnar óskýr. Hann var aðallega að velta sér upp úr prentvillum, að því er virðist, eða gamna sér við slíkt. Það þykir ekki merkilegt, mönnum getur orðið á að mismæla sig og það geta slæðst prentvillur inn í þingskjöl. Ég man varla eftir því að menn legðust svo lágt að gera sér mat úr því, að ætla að fara að gera það að einhverri pólitík hér. En það má þá segja að allt sé hey í harðindum. Þetta er enn kostulegra í ljósi þess að einmitt sami þingmaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, hefur sannanlega verið staðinn að því að hringsnúast svoleiðis í þessu máli, (Gripið fram í.) eins og fleiri framsóknarmenn, að ég sæmdi hann hér nafnbótinni Hjálmar snarsnúningur við 1. umr. málsins. Ég kenndi hann þar við mann á Ísafirði sem fékk það uppnefni af vissum ástæðum á hinni öldinni. Það er eiginlega það sem helst er hægt að segja um Framsókn. Þeir hafa snúist eins og skopparakringla í þessu máli og þannig að með ólíkindum hefur verið upp á að horfa.

Herra forseti. Ég held að því verði ekki í móti mælt að hér er verið að einkavæða einokunarstarfsemi. Þá vakna náttúrlega spurningar um það vegna þess að hér eru á ferðinni nýmæli á Íslandi. Menn hafa einkavætt fyrirtæki sem eru í fákeppnisaðstöðu og það hefur nú gefist svona og svona en það er nýmæli að einkavæða hreint og klárt einokunarfyrirtæki hér. Þá veltir maður því náttúrlega fyrir sér hvernig það hefur gefist annars staðar og hvernig leggst það í menn. Það leggst illa í menn. Og það hefur gefist illa annars staðar. Mjög illa. Mesta ofstækið á byggðu bóli, næst á eftir því að selja ömmu sína, í þessum frjálshyggjumálum er að ganga svo langt. Það þykir hástig frjálshyggjunnar að færa rök fyrir því að allt eigi að vera falt ef hægt er að fá fyrir það peninga. Hvorki siðræn né pólitísk eða félagsleg viðhorf teljast þar hafa áhrif.

Það er meira að segja svo, herra forseti, að viðurkennt er í Bretlandi af íhaldsmönnum sjálfum að þar hafi thatcherisminn leitt þá út í mestar ógöngur, þegar þeir ruku til á níunda áratugnum og einkavæddu talsvert af einokunarstarfsemi, veitur, vatnsveitur og orkuveitur, hófu að einkavæða í fjarskiptaþjónustunni og fleira í þeim dúr. Þar ber enginn maður á móti því að það hafi gefist illa.

Svipaða sögu segja menn frá Bandaríkjunum. Þar hafa menn meira að segja gengið svo langt að þjóðnýta á nýjan leik hluta af slíkum fyrirtækjum af því þeir voru komnir í þvílíkar ógöngur með þau. Í New York fylki hafa menn gripið til þess ráðs, fylkinu utan um New York borg, að þjóðnýta á nýjan leik ákveðin orkufyrirtæki. Í Kaliforníu er orkufyrirtækjunum og veitunum haldið á floti með opinberum fjárstuðningi um þessar mundir, annars mundi kerfið bara hrynja saman og notendur ekki fá vatn, rafmagn o.s.frv.

Það verður ekki sagt að Samkeppnisstofnun sé beinlínis jákvæð í umsögn sinni um þessa einkavæðingu. Hún varar auðvitað mjög sterklega við henni. Ég hygg að það sé búið að vitna í umsögn hennar. Þar má þó benda á nokkur atriði, herra forseti. Í umsögn Samkeppnisstofnunar frá 10. maí segir t.d. að Samkeppnisstofnun hafi fengið tæpa tvo sólarhringa til að skila áliti sínu. Það eru þessi vönduðu vinnubrögð sem menn eru alltaf að hæla sér hér af, álíka vönduð og vinnubrögðin við lagasetningu sjómanna sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hældi sér mikið af, af því hvað þar væri allt faglegt og vandað. Þjóðin horfði upp á þau ósköp.

Þegar stjórnarflokkarnir voru loksins búnir að hnoða saman niðurstöðu í þessu máli, hnoða hver á öðrum í marga mánuði og höfðu loksins komið sér saman, --- þó er vart rétt að segja að þeir hafi komið sér saman --- þegar Framsókn gafst loksins endanlega upp, þá er þessu hent hérna inn og aðilar, t.d. Samkeppnisstofnun fær tæpa tvo sólarhringa til að skila áliti um einn allra vandasamasta þátt þessa máls. Ef menn vilja taka þetta alvarlega og hlusta á einhver rök í þessu yfir höfuð, þá hljóta menn að líta til líklegrar stöðu í viðskiptum á þessu sviði, þar sem veltan er tugir milljarða króna sem koma beint úr vösum notenda. Það skiptir nú ekki litlu máli fyrir aðstæður hér í landinu og lífskjör fólks. Menn eru uppteknir af kostnaði grænmetiskörfunnar hjá vísitölufjölskyldunni. En hvað með símann og fjarskiptin? Það getur orðið drjúgur skattur sem menn geta náð sér í þar ef menn fá frjálsar hendur til að okra í einkavæddu fyrirtæki í einokunaraðstöðu. Samkeppnisstofnun varar við þessu. Hún segir t.d. að eins og áður hafi komið fram af hálfu Samkeppnisstofnunar sé Landssíminn í einstakri yfirburðastöðu á íslenska fjarskiptamarkaðnum og að verulegur hluti þessa forskots felist í eignarhaldi Landssímans á grunnfjarskiptakerfinu.

Þeir sem í grófum dráttum vita hvernig þetta gengur vita að Landssíminn á ljósleiðarana. Hann á heimtaugarnar og allan búnað sem þeim tengist annan en notendabúnaðinn sem húseigendur eiga sjálfir. Landssíminn á tengistöðvarnar. Landssíminn á örbylgjusamböndin. Landssíminn á jarðstöðvarnar, þannig að Landssíminn á varaleiðirnar fyrir fjarskipti til og frá landinu. Landssíminn á í sæstrengjunum. Landssíminn á hlut í Inmarsat og það á að afhenda hinu einkavædda fyrirtæki hlut Íslands í því kerfi, svo dæmi sé tekið. Öryggisfjarskiptakerfi fyrir skip. Landssíminn á þetta allt og hann á að fá þetta allt. Hann á GSM-kerfið, eina GSM-kerfið sem tekur nokkurn veginn allt landið. Hann á NMT-kerfið o.s.frv.

Í áliti Samkeppnisstofnunar segir:

,,Við núverandi aðstæður á fjarskiptamarkaði eru keppinautar Landssímans háðir aðgangi að grunnfjarskiptanetinu í meira eða minna mæli og því óhjákvæmilegir viðskiptavinir Landssímans, einkum varðandi aðgang að heimtaugum einstaklinga og smærri fyrirtækja. Þá er innbyggð í þetta fyrirkomulag hætta á samkeppnishömlum, t.d. mismunun keppinauta, eða að upplýsingar varðandi viðkvæma viðskiptahagsmuni og fyrirætlanir keppinauta berist þeim einingum Landssímans sem standa í beinni samkeppni við þessa aðila. Traust keppinauta á rekstraraðila grunnnetsins, sem að sínu leyti stuðlar að aukinni skilvirkni markaðarins, yrði því betur tryggt ef sá þáttur yrði skilinn frá Landssímanum.``

Svo kemur að einu atriði enn, herra forseti, sem er algjörlega úti í vindinum í þessu máli. Allt blaðrið um fjarskiptalögin skiptir engu máli gagnvart því, þ.e. að Landssíminn sem áfram mun eiga grunnnetið mun taka ákvarðanir um uppbyggingu þess nets og hvernig áherslum verður háttað í því sambandi. Þá segir Samkeppnisstofnun:

,,Í því sambandi skiptir máli að með eignarhaldi Landssímans á grunnkerfinu er líklegt að frekari uppbygging kerfisins taki mið af þörfum og viðskiptaáætlunum þess fyrirtækis.`` --- Nema hvað? Auðvitað.

,,Með eignarhaldi sínu á grunnkerfinu hefur Landssíminn í raun í hendi sér hvenær viðskiptavinir fyrirtækisins, sem jafnframt eru keppinautar þess, geta boðið nýja þjónustu. Það má því leiða að því rök að óbreytt eignarhald á grunnkerfinu viðhaldi ekki aðeins núverandi yfirburðastöðu Landssímans á markaðnum, heldur beinlínis styrki hana enn frekar.``

Samkeppnisstofnun telur að óbreytt eignarhald á grunnkerfinu styrki stöðu Landssímans enn frekar. Þetta er nú býsna mikið sagt, herra forseti, og er ansi alvarlegt. Samkeppnisstofnun leiðir að því rök að þetta gæti verkað þannig að Landssíminn komist í aðstöðu til að styrkja stöðu sína enn frekar en ella væri. Það er auðvitað hárrétt. Þegar þetta fyrirtæki verður einkavætt og hefur pólitískt og á allan hátt sterkari stöðu til að segja: við verðum bara að reka þetta fyrirtæki á viðskiptalegum forsendum, tökum ekki við neinum fyrirmælum að gera þetta eða hitt frekar en eitthvað annað, þetta er bisness. Þórarinn Viðar Þórarinsson, forstjóri Landssímans, hefur svo sem sagt það nú þegar. Þá þarf eitthvað mikið til að menn grípi inn í það hvernig þetta fyrirtæki hagar fjárfestingum sínum o.s.frv.

Herra forseti. Þetta er auðvitað alveg grafalvarlegt mál. Það er það því miður. Þó maður hafi verið óánægður með ýmislegt í þessu einkavæðingarbrölti ríkisstjórna gegnum tíðina, þá ekki síst hversu illa hefur verið staðið að því, hversu vinnubrögðin hafa verið óvönduð allt frá æfingum af því tagi sem einkavæðingin á SR-mjöli var, af því tagi sem einkavæðingin á tryggingastarfsemi og fleiru, upp í gegnum bankafarsann allan þar sem þetta var spilað af fingrum fram og eitt gert svona og annað hinsegin, aldrei sama formúlan að nokkuru einasta útboði eða sölu.

Nú erum við komin að hlutum sem skipta, herra forseti, miklu meira máli en hvort ríkið fékk í sjálfu sér meira eða minna fyrir Síldarbræðslu ríkisins og jafnvel hvort ríkið fær meira eða minna fyrir bankana, sem eru þó í ákveðinni samkeppni við aðila sem fyrir eru á markaðnum. Ég segi það alveg hispurslaust, herra forseti, að fyrir mér er þetta miklu alvarlegra mál og meira tilfinningamál, þegar menn eru komnir að Landssímanum, en t.d. sala bankana og hef ég þó mælt hér nokkuð kröftuglega á móti því.

Hér er víglínan komin mikið innar, nær lífskjörum eða þáttum sem hafa áhrif á daglegt líf alls almennings með beinum hætti. Málið snýst um einokunarfyrirtæki sem hefur veitt mjög mikilvæga grunnþjónustu, almannaþjónustu hér í landinu og mun gera áfram um langt árabil. Sala mun ekki breyta í einni svipan þeirri stöðu sem Landssíminn er í. Það er fjarstæða að halda því fram að þótt hér séu komin til sögunnar fyrirtæki sem bjóði samkeppni á tilteknum svæðum landsins á mjög afmörkuðum sviðum, af veikum burðum, þá breyti það í grundvallaratriðum nokkru um þá yfirburðastöðu sem Landssíminn hefur og mun hafa á komandi árum miðað við það sem nokkur leið er að sjá fyrir.

Hver hefur orðið niðurstaðan annars staðar þar sem slík fyrirtæki hafa verið einkavædd? Þau hafa meira og minna haldið stöðu sinni og mörg hver styrkt hana, rutt úr vegi litlum aðilum sem voru jafnvel komnir til sögunnar í skjóli ákveðinnar verndar vegna þess að ríkið átti í grunnfyrirtækjunum og gat í gegnum eignarhald sitt og forræði fyrirtækjanna tryggt að þau beittu ekki óhefluðum aðferðum við að ryðja úr vegi samkeppni sem var að skjóta upp kollinum. Sá möguleiki hverfur þegar ríkið hættir að hafa ítök í þessu fyrirtæki.

[17:00]

Hvert hafa þeir litlu aðilar sem hafa verið að reyna að koma upp viðskiptum á afmörkuðum sviðum leitað með klögumál sín gagnvart sambúðinni við Landssímann? Þeir hafa getað leitað til stjórnvalda, ekki bara samkeppnisyfirvalda heldur líka ráðherra og stjórnmálamanna og sagt: Nú verðið þið að koma og taka í lurginn á Landssímanum af því að þetta er óheiðarlegt. Pínt þá til að breyta gjaldskrám og grípa til ráðstafana sem opnuðu möguleika á samkeppni. Þetta getur snúist við um leið og fyrirtækið hefur verið einkavætt. Ekki dugir að vísa í fjarskiptalögin, herra forseti. Það er of einfeldningslegt gagnvart þeim aðstæðum sem blasa við hverjum manni.

Herra forseti. Ég ætla að vippa mér aðeins út fyrir landsteinana og ræða aðeins um það hvernig mönnum hefum reitt af annars staðar þar sem svona einkavæðing hefur farið fram. Auðvitað væri freistandi að taka Norðurlöndin en ég ætla að leggja upp í langferð af því að auðvitað eru aðstæður um sumt líkari okkur hér annars staðar á Norðurlöndunum, það mætti þá kannski helst nefna Noreg og svæðin í norðanverðum Noregi, Svíþjóð og Finnlandi þar sem landfræðilegar aðstæður eru sumpart svipaðar okkar. En ég ætla að fara suður um til Eyjaálfu, herra forseti, og ræða aðeins um reynslu Ástrala og þó sérstaklega Nýsjálendinga af því að hafa einkavætt símafyrirtæki sín.

Í ágætu nál. 2. minni hluta, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, er einmitt vitnað í Ástralíu og sagt aðeins frá því hversu hamingjusamir menn eru með hinn einkavædda stórsíma Ástrala í sveitum landsins. Ég vísa til þess og þarf ekki í sjálfu sér að segja meira um það, það talar mjög sterkt fyrir sig sjálft. Þar er bullandi óánægja með það hvernig þjónustan, sérstaklega á landsbyggðinni, hefur hríðversnað. Þó að menn hafi selt þetta símafyrirtæki, Telstra, fyrir feitan pening þá er það skammgóður vermir ef afleiðingarnar af því fyrir landsmenn eru þessar: annars vegar okrar fyrirtækið á aðstöðu sinni og hins vegar fer það að gera breytingar í rekstri og áherslum og fjárfestingum sem bitna á landsbyggðinni. Þar versnar þjónustan og þetta er réttlætt með því að fyrirtækið þurfi að verja stöðu sína á mörkuðum í Sydney, Perth, Canberra o.s.frv.

En er þá ekkert að marka þetta, herra forseti? Getum við ekkert lært af þessu? Jú, ég held það ef einhver vilji er til þess. Þetta snýst um það. Þetta snýst vonandi ekki um það að menn þurfi að deila um staðreyndir. Þetta snýst bara um það hvort einhver pólitískur vilji er til að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og munu verða því engin ástæða er til að ætla að útkoman úr þessu verði öðruvísi hér en hún hefur orðið þar sem menn hafa farið alveg sambærilegar leiðir og við sambærilegar aðstæður.

Hvað segir hæstv. samgrh. um reynslu Ástrala af einkavæðingu stærsta símafyrirtækisins þar? Hefur hæstv. samgrh. kynnt sér hvernig þjónustan hefur versnað í hinu gríðarlega víðáttumikla strjálbýli í Ástralíu og hefur hann engar áhyggjur af því að svipað gæti orðið upp á teningnum hér?

Þá ætla ég að vippa mér yfir sundið til Nýja-Sjálands, lands hins langa, hvíta skýs, og ræða aðeins um það, herra forseti, hvernig þeir hafa farið út úr hlutunum. Þá er rétt að byrja á því að segja að á þessu sviði eins og mörgum fleirum varð Nýja-Sjáland eiginlega tilraunastofa. Þeir voru svo ógæfusamir þar á níunda áratugnum að það komst til valda verkamannaflokkur sem var helsýktur af frjálshyggjuhugmyndum. Hann sprakk síðan í tætlur og er meira og minna horfinn núna. Þessi blairíski-schröderíski flokkur, sem var að mörgu leyti forveri hinnar svokölluðu þriðju leiðar í Evrópu --- því að heilmikið var sótt hugmyndafræðilega í smiðju nýsjálenska verkamannaflokksins þegar verið var að koma svipaðri hreyfingu af stað --- gekk út á að þetta ætti bara að vera markaðshyggja og frjálshyggja með pínulitlu félagslegu ívafi. Að vísu vantaði eiginlega alveg þetta félagslega ívaf í Nýja-Sjálandi.

En þeir breyttu Nýja-Sjálandi í heilmikið tilraunabúr, tilraunastofu nýfrjálshyggjunnar á níunda áratugnum og varð frægt um lönd og álfur. Það komu meira að segja trúboðar til Íslands og héldu fundi, Verslunarráðið og gott ef ekki Heimdallur og svona merkar stofnanir ... (Gripið fram í: BSRB.) Það var nú úr annarri átt, það voru þeir sem voru að reyna að uppfræða heiminn um afleiðingarnar. BSRB fékk mjög góða konu sem er í alþjóðlegum baráttuhópi sem var stofnaður til að hrekja allar lygarnar um þá paradís sem hefði þarna orðið til og koma réttum upplýsingum á framfæri um hrikalegar afleiðingar nýfrjálshyggjutilraunarinnar fyrir lífskjör almennings, ekki síst í sveitum landsins. Þar hafa lífskjör hríðversnað og allar aðstæður mjög eðlilega því með því að markaðsvæða algjörlega alla hluti og þar með talið félagslega þjónustu og undirstöðuþjónustu landsmanna, eins og þar var gert, getur það auðvitað ekki farið á annan veg. Samdráttur í opinberri þjónustu var með ólíkindum. Þorp og smákaupstaðir sem voru áður myndarlegar miðstöðvar þjónustu í sveitum landsins eru eins og draugabæir, þar er búið að loka öllum sköpuðum hlutum. Það er verra en hægt er að finna nokkur dæmi um á Íslandi og er þá býsna langt til jafnað. Því miður hefur orðið harkalegur samdráttur víða í svona þjónustu hér á landi, búið að loka bönkum, pósthúsum, símstöðvum o.s.frv., eins og kunnugt er. En það er hátíð hjá því sem gerðist í Nýja-Sjálandi á síðari hluta níunda og framan af tíunda áratugnum.

Nýsjálendingar voru sem sagt framarlega og í raun og veru í fremstu röð hvað varðar það að einkavæða símann. Þeir áttu stórt og mikið fyrirtæki sem ber nú nafnið Telecom og var áður ríkisfyrirtæki og með einkaleyfi og í einokunaraðstöðu þar af leiðandi þegar það var fellt niður. Þeir seldu núna fyrir allnokkrum árum. Þetta var undir lokin á nýfrjálshyggjufylliríinu þannig að þeir gerðu þetta með stæl, seldu þetta meira og minna á einu bretti og kaupendurnir voru fyrst og fremst tvö amerísk stórfyrirtæki á þessu sviði sem hafa sérhæft sig í því að fara um heiminn og þefa uppi aðstæður af þessu tagi þar sem hægt er að kaupa fyrirtæki í fjarskiptaþjónustu sem er í álitlegri einokunaraðstöðu eða hafa drottnandi stöðu á markaði. Það var nákvæmlega það sem gerðist í Nýja-Sjálandi. Þeir seldu fyrirtækið og aðaleigendurnir eru tvö amerísk fyrirtæki. Þeir settu að vísu pínulitlar kvaðir inn í söluskilmálana. Meira að segja nýfrjálshyggjuvitleysingarnir á Nýja-Sjálandi settu skilmála og kvaðir inn í sölu símans sem á ekki að gera hér. Hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson gengur enn þá lengra en frjálshyggjupostularnir á Nýja-Sjálandi vegna þess að hann setur engar einustu kvaðir eða skilmála af einu eða neinu tagi eða gengur neitt frá þeim í lögum þar sem verið er að afla heimilda til sölu fyrirtækisins. Það er bara vísað í fjarskiptalög.

Nýsjálendingarnir gengu þannig frá málum að í fyrirtækinu Telecom er eitt hlutabréf og því hlutabréfi fylgir tiltekið vald. Það er ekki eiginlegt eignarhlutabréf en það er það sem þeir kalla ,,Kiwi share``, þ.e. kíví-hlutabréfið. Við gætum með sama hætti kallað svona hlutabréf ,,Íslandshlutabréfið`` eða ,,þjóðarhlutabréfið``. Þetta hlutabréf væri sem sagt til staðar eins og hver önnur hlutabréf, því gæti fylgt 0,1% eign, það er nóg, en hlutabréfinu fylgir vald sem er ekki hægt að upphefja. Hvaða kvöð fylgir þessu kíví-hlutabréfi í Telecom? Jú, t.d. það að einn erlendur aðili má ekki eiga meira en 49,9% í fyrirtækinu. Það er útilokað að einn erlendur aðili geti átt meiri hluta í fyrirtækinu. Þeir voru þó með þeim böggum hildar þegar þeir voru að undirbúa söluna og vissu að í vændum var að líklegast var að þessi amerísku fyrirtæki mundu koma og gleypa hann að þeir settu þessa girðingu. Í öðru lagi verður minnst helmingurinn af stjórnarmönnum í Telecom að vera nýsjálenskir ríkisborgarar. Ekki er hægt að skipa stjórn fyrirtækisins að meiri hluta erlendum ríkisborgurum.

Eru svoleiðis hlutir settir hér inn í lögin svona upp á mögulega framtíð að menn hafi þó einhverja tryggingu af þessu tagi að allt þeirra ráð verði ekki í hendi útlendinga? Svarið er nei. Framsfl., sem þykist hafa verið eitthvað að spyrna við fótum í þessu máli, hefur ekki einu sinni haft döngun í sér til að sýna lit af því tagi sem var þó gert á Nýja-Sjálandi þegar nýfrjálshyggjuliðið þar var að selja símann. Nokkur fleiri atriði, herra forseti, tengjast þessu kíví-hlutabréfi sem er þarna til staðar í fyrirtækinu.

Síðan seldu þeir, blessaðir mennirnir. Hvernig hefur gengið síðan? Hvernig hefur andrúmsloftið verið í kringum hinn einkavædda síma Nýsjálendinga í amerískri eigu? (Samgrh.: Virkaði bréfið?) Það hefur nú ekki reynt á bréfið enn þá en væntanlega --- jú, bréfið virkar vegna þess t.d. að Kanarnir geta ekki haft meiri hluta í stjórn fyrirtækisins, það verða að vera nýsjálenskir ríkisborgarar, a.m.k. að helmingi. Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið deilur. Þó að deilt hafi verið um flest þá er mér nú ekki kunnugt um að það hafi orðið deilur um að þetta bréf hafi verið brotið.

En það hafa orðið logandi illdeilur um nánast allt annað. Ég hef verið að safna saman, herra forseti, gögnum um þetta mál frá Nýja-Sjálandi. Ég er með þykkar möppur af gögnum um þær deilur, þau átök og þá gagnrýni, þau málaferli og allt hvað það nú er sem hafa risið á undanförnum árum vegna framgöngu hins einkavædda síma Nýsjálendinga, logandi deilur um það hvernig Telecom er að okra í krafti einokunaraðstöðu sinnar, hvernig Telecom er að flytja arð úr landi, hvernig Telecom kemur fram við starfsmenn sína á Nýja-Sjálandi og hvernig --- eins og við mátti búast --- Telecom hefur dregið saman þjónustu á landsbyggðinni og lætur þá greiða hærra verð til að geta notað peningana í samkeppni á markaði í stórborgunum. Algjörlega eftir uppskriftinni sem blasir við í forsendum þessarar einkavæðingar hér á landi hefur þetta farið á Nýja-Sjálandi. Ef menn vilja fara í gegnum kennslubókardæmi um það hvernig þetta getur farið á versta veg fari menn þangað og skoði það.

Hvað hefur verið deilt um, herra forseti, svo nokkur dæmi séu tekin? Jú, það er t.d. gaman að nefna að ekki stóð á því að bandarísk starfsmannastefna var innleidd í fyrirtækinu. Þeir borga forstjóranum 15.460 nýsjálenska dollara á viku í kaup og svo margfalda menn með 42 ísl. kr. og þá fá menn út myndarlega upphæð, er það ekki? Þetta eru vikulaunin. En þeir hafa jafnframt staðið í linnulausum illdeilum við starfsmenn sína m.a. um launamál vegna þess að þeir ganga þar fram af dæmafárri hörku, þ.e. þá starfsmenn sem þeir hafa þá ekki rekið, en þeir eru allmargir og ég skal koma að því síðar.

Nokkrar hlutlausar úttektir nýsjálenskra háskóla og fræðimanna, evrópskar úttektir á útkomunni í Nýja-Sjálandi hafa verið gerðar. Opinberar ástralskar stofnanir gerðu m.a. úttektir á því hvernig þetta hefði komið út í Nýja-Sjálandi vegna þess að Ástralir voru seinna á ferðinni með einkavæðingu símans hjá sér, fóru til Nýja-Sjálands og skoðuðu hvernig hafði gengið og þeim brá svo mikið við það sem þeir sáu að þeir slógu á frest einkavæðingu ástralska símans í nokkur ár. Rökin voru: Reynslan frá Nýja-Sjálandi var svo slæm að við ætlum að hugsa okkar gang áður en við önum út í sama fenið. Svo gerðu þeir það að vísu, því miður, það var knúið fram með pólitísku valdi að láta sig hafa það engu að síður.

[17:15]

Þessar kannanir, herra forseti, --- ég treysti því að menn vefengi ekki að þar sé hlutlægt að málum staðið þar sem í hlut eiga mjög virtir og viðurkenndir opinberir aðilar --- hafa sýnt svart á hvítu að Telecom notar markaðsaðstöðu sína til hirða til sín mikinn gróða. Þær hafa leitt í ljós að öfugt við það sem menn halda fram, að einkavæðingin og hin svokallaða samkeppni muni leiða til lægra verðs, hefur síminn orðið dýrari á Nýja-Sjálandi og er núna einn sá dýrasti í heimi. Nýsjálendingar voru vel í meðallagi eftir því sem ég man best fyrir svona 10--15 árum hvað varðaði símkostnað. Síminn var að vísu dálítið frumstæður á köflum í sveitum landsins, þeir voru seinir til með að koma á stafrænu kerfi um allt. (Gripið fram í.) Já, en verðið var nokkuð gott. Þá ber auðvitað að hafa í huga að svipað og hér er um stórt og strjálbýlt land að ræða.

Nú er staðan hins vegar sú, samkvæmt könnun ástralska rannsóknarráðsins, sem ég kýs að þýða Australia´s Productivity Commission, að verðið á símaþjónustu, að meðaltali þegar allt er lagt saman og þá er verið að tala um einkasíma, er það næsthæsta sem þekkist í heiminum á eftir Japan. Það er hinn glæsilegi árangur í verði hjá þjóð sem reið á vaðið og hefur prufukeyrt þetta einkavædda einokunarfyrirtæki lengst, þeir hafa farið úr því að vera um miðju upp í að vera í næstefsta sæti hvað varðar verð á eftir Japan. Væntanlega skýrist hið gríðarlega háa verð í Japan á því að þar er verðlag hátt, Tókíó er dýrasta borg í heimi og kemur væntanlega engum á óvart að þar séu tölur háar, en vel að merkja, kaupmáttur almennings er þar líka hár.

Þetta segja Ástralarnir. Sama segja tvær kannanir frá Todd-rannsóknarfyrirtækinu, sama segir evrópsk könnun og margar óháðar nýsjálenskar kannanir frá háskólum og fleiri aðilum.

Hvað hefur komið út úr þessu hvað varðar verð? Hvernig hafa Ameríkanarnir komið út úr dæminu? Jú, gróði hins einkavædda nýsjálenska símafyrirtækis er fáheyrður. Hvað græða þeir? Þeir græða 33 nýsjálenska dollara á hvern síma í landinu í hverjum mánuði. Þetta eru opinberar tölur staðfestar af opinberum aðilum. Það mun vera gróði ársins 1999 að vísu. Miðað við afkomuna á árinu 2000, sem ég hef líka hér, hefur það væntanlega verið mjög sambærilegt. Margföldum þetta með 42. Þá fáum við út rétt tæpar 1.400 ísl. kr. á mánuði á hvern einasta síma í landinu. Þetta er hagnaðurinn af venjulegum símum á hverjum mánuði. Tæpar 17 þús. kr. á ári í gróða fyrirtækisins af þessari starfsemi, umreiknað með þessum hætti. Það er ágætt. Hvað ætli símarnir séu margir á Íslandi? Væntanlega hátt á annað hundrað þúsund, heimilin eru 110--120 þúsund og flest með síma og svo fyrirtæki o.s.frv. Þá erum við fljót að fá myndarlegar tölur.

Notum aðra aðferð, tökum heildarhagnað fyrirtækisins eins og hann hefur verið tvö ár í röð, 1999 og 2000. Hver var hann? Hann var tæpar 800 milljónir nýsjálenskra dollara, umreiknað á ársgrundvelli. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2000 var hann 199 milljónir nýsjálenskra dollara og fór í 800 milljónir, sem er nokkurn veginn fjórum sinnum sú tala, á reikningsárinu. Það kemur ekki fram hvort það er jafnframt almanaksárið en það skiptir ekki öllu máli.

Hvaða upphæð er hér á ferðinni? Hvað eru 800 milljónir nýsjálenskra dala? (ÁJ: Hvað var þetta mikið á hvern íbúa?) Jú, sinnum 42. Við skulum fara yfir það, líka hv. þm. Árni Johnsen formaður samgn., sem er hér glottandi eins og auli úti í salnum og ætti nú frekar að reyna að hlusta. Hins vegar er fagnaðarefni að hafa hv. þm. hér meðal oss --- (Gripið fram í.) sjaldséðir hvítir hrafnar.

800 milljónir nýsjálenskra dala eru 33 milljarðar ísl. kr. --- 33 milljarða ísl. kr. höfðu þessir amerísku eigendur upp úr krafsinu í nettóhagnað af Telecom. Þeir hafa væntanlega flutt það yfir til Bandaríkjanna svona að megninu.

Nú vill svo til, af því að hv. þm. Árni Johnsen hefur áhuga á lýðfræði... (ÁJ: Hver segir það?) Ja, það kom hér fram í frammíkalli áðan. Það má deila með 12 í Nýja-Sjáland til þess að fá út Ísland. (ÁJ: Það er nú ekki lýðfræði í því.) Þar búa u.þ.b. þrjár og hálf milljón manna og ef við segjum að við Íslendingar séum að slefa í svona 300 þús. þá má deila með 12 eða svo til að fá út samanburðarhæfar tölur. Það eru þá 2,5--3 milljarðar ísl. kr. sem er býsna kunnugleg tala. (Gripið fram í.) Það mundi þýða að Landssíminn gæti reiknað með því, ef hann kæmi sér í sambærilegar aðstæður og Telecom hið nýsjálenska, að auka hagnað sinn um 1--1,5 milljarða umfram það sem verið hefur. Gróðinn gæti farið í 3 milljarða í staðinn fyrir að hafa verið 1,5--2 milljarðar að undanförnu. Þetta yrði nettóhagnaður sem menn kræktu sér í með aðstöðu af þessu tagi. Það er býsna myndarlegt.

Hvers vegna er ástæða til að ætla að þetta gæti gengið eftir hér? Jú, af því að aðstæðurnar eru nánast algerlega sambærilegar. Nokkurn veginn sama munstur hefur verið verið á þessum málum í Nýja-Sjálandi síðustu árin og hér, eða álíka og er í vændum hér. Ef við gefum okkur að á komist eitthvað sem nær næstum því að geta kallast raunhæf samkeppni hér á höfuðborgarsvæðinu, kannski á Akureyri, þá verða aðstæðurnar mjög svipaðar og þær eru núna eða hafa verið í Nýja-Sjálandi. Fyrirtækið hefur yfirburðastöðu á öllum markaðnum. Það er auðvitað algerlega markaðsráðandi að öðru leyti en því að því er veitt svolítil samkeppni í Oakland, Wellington og nokkrum öðrum stærri borgum landsins. Að öðru leyti er fyrirtækið á sviðinu og enginn hefur komist hið minnsta áleiðis í að veita þeim samkeppni í dreifðari byggðum og á minni stöðum, ósköp einfaldlega vegna þess að það er enginn viðskiptalegur grundvöllur fyrir því hjá (Gripið fram í.) öðrum aðilum.

Herra forseti. Ég er nú ekki uppnæmur fyrir frammíköllum en ef þau eru jafnleiðinleg og heimskuleg og hér hjá hv. formanni samgn. þá endar með því að þau þreyta mann. Það er gaman af velheppnuðum og hnyttnum frammíköllum (Gripið fram í.) en svona jarm frá þingmanni sem verður hér sér reglubundið til skammar með þvílíkum þvæluræðum að það hálfa væri nóg, verður leiðigjarnt, herra forseti.

Ég er hins vegar eindreginn talsmaður þess að hv. þm. Árni Johnsen biðji um orðið og tali hér sem mest. Þannig leggur hann okkur andstæðingum Sjálfstfl. best lið. Ég held t.d. að ræða hv. þm. Árna Johnsens í umræðunum um lög á sjómenn hafi verið þvílíkt innlegg hér fyrir stjórnarandstöðuna að það hálfa væri nóg. Ég hef hugsað mér að sjá til þess að koma þessari ræðu dálítið á framfæri. Mér fyndist fara vel á því að hún yrði gefin út í svona snotru riti, það mætti jafnvel taka útdrætti úr ræðum hv. þm. Kristjáns Pálssonar með og dreifa þessu sem víðast, hvetja t.d. sjómenn um land allt til að lesa þessa speki. (Gripið fram í.) Það held ég að væri virkilega þarft framtak, herra forseti. Ég býð hv. þm. Árna Johnsen fram aðstoð mína við að koma þessu hugverki á framfæri.

Herra forseti. Þessar tölur liggja fyrir. Þær eru ekki áróður eða litaðar af því að reynt sé að tína til einhverja neikvæða hluti sem komi þessu máli illa. Þær eru bara einfaldlega staðreyndir. (KPál: Hvað var athugavert við mínar ræður?) Ég var að vísa í ræðuhöld hv. þm. Sjálfstfl. í frv. um lagasetningu á sjómenn. (ÁJ: Hvað er til umræðu núna?) (KPál: Voru þær eitthvað verri en aðrar ræður?) Þær voru vondar. Þær voru ekki góðar, þ.e. fyrir ykkur.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna þingmenn um að vera ekki með frammíköll.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir en ég skal reyna að glíma við hv. þingmenn. Ég held ég ráði alveg við það. Ef þeir hafa áhuga á að halda þessum leik áfram þá komi þeir bara. Ég hef skammt runnið fyrir þeim, a.m.k. hingað til. Ég held að mönnum væri sæmara að reyna að ræða um þessa hluti af einhverri lágmarksyfirvegun og talast eitthvað við með rökum. Ég ætlaði mér að reyna að gera það, herra forseti. Mér er að vísu nokkuð ljóst að þessir menn eru rökheldir. Ég ætlast ekki til þess að hv. þm. Árni Johnsen hafi skoðun á þessu máli, hún er mér einskis virði. En ég hef t.d. bundið vonir við að hæstv. samgrh., svona fram undir það síðasta, væri þeirrar gerðar að hann væri a.m.k. ekki rökheldur.

Nú veit ég vel að hæstv. samgrh. ræður ekki einn ferð í þessu máli. Það eru kannski aðrir sem hafa knúið á um og endanlega ákveðið að Landssíminn skuli seldur hvað sem tautar og raular. Það er auðvitað einkavæðingarofstækisliðið í Sjálfstfl., sem ég er ekkert viss um að hæstv. samgrh. tilheyri í hjarta sínu. Þeir ætla sér auðvitað að hremma Símann. Þeir eru að ná sínu fram og nota m.a. sem rök að nú sé að verða lítið bensín á tanknum hjá þeim og þeir verði að fá fleiri rétti á silfurbakkann, það sé orðið mjög brýnt því annars verði hér efnahagslegur samdráttur, niðursveifla o.s.frv.

Nei, herra forseti, ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir menn, þá sem á annað borð vilja leggja sig eftir því að kynna sér þessi mál og hvernig þetta hefur gengið fyrir sig annars staðar, að fara hlutlægt og vandlega gegnum dæmi af þessu tagi. Þau blasa við mönnum og er hægt að reiða þau fram með tölum og gögnum sem ekki verða hrakin, t.d. frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu. (ÁJ: Tælandi.) Menn hafa svipaða sögu (ÁJ: Tælandi.) að segja af ... (Gripið fram í.) Ég heyri það, herra forseti, að hv. þm. Árni Johnsen er mikill áhugamaður um Tæland (ÁJ: Mjög merkilegt land.) og það er vel. Mér þykir það bara hið besta mál að hv. þm. Árni Johnsen gjammar hér fram í Tæland, Tæland, Tæland, aftur og aftur. Vill ekki hv. þm. bara fara til Tælands og þess vegna bara með ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill taka fram að það er óviðunandi að ekki sé hægt að halda þingfundi áfram á eðlilegum nótum vegna frammíkalla. Ef þessu heldur fram sem horfir mun forseti gera hlé og freista þess að fá þingmenn til þess að fylgja þeim reglum sem hér eiga að ríkja.)

Herra forseti. Við skulum vænta þess að það komist svona sæmileg ró á í salnum. Ég ætla því ekki að ræða frekar um Tæland en gæti auðvitað gert það. Svo vill til að ég þekki pínulítið til þar þó ég geri það ekki eins vel og í Nýja-Sjálandi, þar sem ég hef dvalið og held ágætum samböndum. Ég tel mig sæmilegan færan um að upplýsa hvernig málin hafa gengið þar fyrir sig. Það er að vísu nokkuð um liðið síðan ég var þar búsettur um skeið en engu að síður, sumt hefur ekki breyst eins og þær landfræðilegu aðstæður sem menn búa þar við. Þær eru að mörgu leyti býsna sambærilegar við Ísland ef maður notar deilingu, deili maður svo sem eins og með tíu eða tólf þá fær maður út svipaðar tölur og eiga við hér. Þetta er stórt land, frekar strjálbýlt, stór hluti íbúanna býr í fáeinum borgum og afgangurinn eru fyrst og fremst sveitir þar sem menn búa dreift á stóru landsvæði. Það hefði alveg örugglega, herra forseti, verið gagnlegt fyrir menn að kynna sér hluti af þessu tagi. Ég efast hins vegar mjög um viljann til þess.

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er, að það fer dálítið í taugarnar á mér hvernig hv. þm. Árni Johnsen lætur hér gjörsamlega eins og fífl. Það fer dálítið í taugarnar á mér. Það er ekki nokkur leið að reyna að halda uppi einhverri efnislegri umræðu um mál og fá ekki frið til þess fyrir manni, sem ég hef að vísu engan áhuga á að ræða við af því að ég veit að það er tilgangslaust. En gagnvart öðrum sem eru hér í salnum og manni sjálfum þá fer ég vinsamlegast fram á það að þessi maður, sem plagar okkur nú ekki mikið með nærveru sinni hérna hvunndags, sé til friðs þá sjaldan að hann er hérna. Ég fer fram á það að hv. þm. sé nokkurn veginn til friðs þá sjaldan að hann er hérna á vinnustaðnum. (Gripið fram í.) Já, nú er nóg komið, hv. þm. Nú er nóg komið. Nú bið ég hv. þm. að hætta þessum fíflalátum (ÁJ: Ég bið bara þingmanninn að horfa í spegil.) því að þetta eru fíflalæti og ekkert annað.

[17:30]

Herra forseti. Það má sjálfsagt hugsa sér líka að reyna að glíma við hv. þm. Árna Johnsen utan þingfundar. Ég beini því til forseta þingsins að eiga við það mál. Það er stundum haft þannig í skólunum þegar er ekki lengur vinnufriður í bekknum að tossarnir eru kallaðir afsíðis og skólastjórinn eða aðrir slíkir reyna þá að sjá um að hlutirnir geti gengið sæmilega skikkanlega fyrir sig. Mér sýnist þetta vera mjög svipað tilfelli sem við eigum hér við að glíma þannig að ég legg til að hóað verði í sérkennarann og skólastjórinn láti vita af því að hérna sé nemandi sem þurfi á sérstakri aðstoð að halda. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég hef rakið hér að reynsla annarra þjóða af þessu er slæm, þjóða sem hafa anað út í þetta fen, blindaðar af trúnni á réttmæti þess að einkavæða bara einkavæðingar vegna og í raun án þess að velta því mikið fyrir sér hvað ætti í hlut. Þetta á við um Nýsjálendinga og Ástrali. Svipaða sögu heyrir maður þegar kemur til norðursvæðanna sums staðar í Evrópu, og í Ameríku þekkja menn þetta náttúrlega frá langri sambúð við einkarekin símafyrirtæki og er nú þjónustan sisvona og alla vega þegar kemur t.d. út í strjálbýlið í Bandaríkjunum.

Herra forseti. Það sem ég gagnrýni svo hér undir lokin er að ekki einasta ætla menn að vaða í þessa einkavæðingu þó að starfsemi þessarar gerðar eigi í hlut heldur er þetta rekið áfram með útsöluhugsunarhætti. Þetta er rekið áfram eins og hálfgerð brunaútsala. Það blasir við öllum mönnum að þetta er ekki mjög heppilegur tími til þess að fara út í þessa hluti. Það viðurkenna allir. Hvort heldur í hlut eiga bankarnir eða nú Síminn þá er þetta mjög vitlaus tími til þess að fara að hræra í hlutunum. En það á að gera það engu að síður af því að nauðsyn brýtur lög. Það verður bara að hafa það þó að þetta sé gert þegar verðgildi fyrirtækisins er sannarlega lítið. Þegar mikil óvissa er uppi á markaðnum, þegar mjög margt er á fleygiferð í þessum fjarskiptamálum væri þá ekki frekar tilefni til að draga andann djúpt og halda að sér höndum og sjá hvernig málin þróast á allra næstu missirum? Þó ekki væri beðið um meira þá er það ekki gert.

Herra forseti. Niðurstaða okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er alveg afdráttarlaus í þessu máli. Við teljum þetta óskynsamlegt, rangt og við erum á móti því. Við viljum að Landssíminn sé í aðalatriðum, a.m.k. hvað undirstöðustarfsemina snertir, rekinn áfram í óbreyttri mynd a.m.k. enn um nokkurt skeið.

Auðvitað geta ýmsar breytingar komið til greina og gætu gert það út af fyrir sig í dag eða á næstu árum. Það er t.d. alveg ljóst að ef fram heldur sem horfir þá verður hluti starfsemi Landssímans kominn í talsverða samkeppni, t.d. GSM-kerfi og ef þar væru komin tvö eða segjum þrjú kerfi sem dekkuðu allt landið þá er myndin orðin allt önnur. En það er bara ekki það sem þetta snýst um. Það er afmarkaður hlutur sem hægt er að taka fyrir og ræða sérstaklega. En það á bara ekkert að gera slíkt. Samkvæmt þessum áformum á að þjösna þessu öllu saman í höfn í einu lagi og bíða svo bara og sjá. Því miður er það þannig, herra forseti, að þetta er svona, að því er a.m.k. sagan segir okkur, í raun óafturkræf ákvörðun. Mönnum hefur ekki heppnast það mikið og það jafnvel ekki verið mikið reynt að kalla til baka breytingar af þessu tagi ef menn fara út í þær á annað borð enda ekki auðvelt mál. Það skal viðurkennt. Það er þá helst í þeim tilvikum að menn hafa neyðst til þess vegna þess að þvílíkur ófarnaður hefur verið samfara svona einkavæðingu að menn hafa farið eiginlega út í einhvers konar þjóðnýtingu eða afturhverfa einkavæðingu á veitum eða orkufyrirtækjum til þess að afstýra meiri háttar skakkaföllum og neyð.

Herra forseti. Það sem blasir við að ætti að gera er að skoða þá þætti varðandi óbreytta starfsemi eða í aðalatriðum óbreyttan rekstur Landssímans sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum og mögulegum árekstrum vegna samkeppni á þeim sviðum þar sem hún er komin til sögunnar. Þar geta ýmsar leiðir komið til greina, eins og t.d. þær að gera Landssímanum að ganga lengra en að uppfylla skilyrði um bókhaldslegan og fjárhagslegan aðskilnað. Það er hægt að gera það skylt að reka slíka starfsemi í algerlega sjálfstæðum dótturfélögum. Og það kæmi auðvitað til greina að hinn opinberi Landssími léti frá sér eitthvað af slíkri starfsemi ef menn teldu það betri kost í samkeppnislegu tilliti og til þess að forðast árekstra eða deilur á einhverjum jaðarsvæðum. En fyrirtækið héldi áfram rekstri hinnar almennu símaþjónustu og rekstri grunnnetsins og ríkið hefði þar áfram hönd í bagga. Síðast en ekki síst, og það sem er auðvitað mikilvægast, yrði fyrirtækinu áfram beitt og styrk þess til þess að byggja upp fjarskiptakerfið til þess að tryggja öllum landsmönnum jafna og góða þjónustu og til þess að vera tæki í höndum stjórnvalda til að ná fram þeim pólitísku markmiðum sem menn vildu á þessu sviði. Það er hægt á meðan um opinbert þjónustufyrirtæki er að ræða en ekki ef það er selt. Það er orðin löng leiðin héðan frá Alþingi eða úr Stjórnarráðinu ef eignarhaldið verður nú t.d. orðið amerískt og viðhorfin svipuð og menn hafa kynnst í þeim efnum á Nýja-Sjálandi.

Eitt af því síðasta sem þar olli stórfelldum deilum var uppsögn nýsjálenska símans Telecom á 630 starfsmönnum. Og hvers vegna var það nú? Var það af því að þeir væru að vinna algjörlega óþörf og fánýt störf í Nýja-Sjálandi? Nei, ástæðan var sú að mestöll sú starfsemi var flutt til Bandaríkjanna. Móðurfyrirtækið taldi hagkvæmara að koma henni fyrir allri saman á einum stað í nágrenni við höfuðstöðvar fyrirtækisins ITEL í Bandaríkjunum. Þá sáu nú Nýsjálendingar á eftir atvinnu 650 fyrirvinna út yfir hafið. Og þá fór nú reyndar ekki hjá því að það færu að renna tvær grímur á mann og annan þar. Meira að segja forsvarsmenn einkavæðingarinnar á sínum tíma sögðu að ef þeir hefðu séð jafnvel þessa hluti fyrir þá hefðu þeir kannski hugsað sig um tvisvar. Það fór meira að segja að votta fyrir efasemdum hjá hörðustu trúboðunum.

Herra forseti. Ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar ef menn ætla að láta þetta ganga eftir. Ég geri það vegna þess að ég hef því miður svo sterka sannfæringu fyrir því að þetta sé óskynsamlegt og þetta muni ekki verða okkur til góðs. Ég ætla ekki að segja hér og ég er ekki að halda því fram að nokkur maður hér sé gegn betri vitund að standa að þessum áformum. En það verð ég að segja hins vegar að ansi finnst mér nú sumir hafa látið sannfæra sig auðveldlega um að þeirra fyrri efasemdir og áhyggjur væru ástæðulausar, að þetta yrði í fínu lagi, því að það er svo fjarri því, herra forseti, að nokkur rök verði sótt í kringumstæður málsins, í álit aðila eins og Samkeppnisstofnunar og Byggðastofnunar, í reynslu annarra þjóða til þess að halda slíku fram. Það er allt því miður meira og minna byggt á sandi og langlíklegast er að sagan endurtaki sig hér svipað og hún hefur gert annars staðar, þ.e. að hið einkavædda einokunarfyrirtæki verði fyrst og fremst tæki í höndum eigenda sinna til að ná sér í auðveldan og skjótfenginn gróða. Nýsjálendingarnir líkja því við það að þetta fyrirtæki, Tele\-com, hafi fengið skattlagningarvald, það hafi fengið vald til að leggja nefskatt á landsmenn því að það er það sem það er. Og talað er um að sá nefskattur sé fimm dollarar á mann í mánuði hverjum, fimm nýsjálenskir dalir á hvert mannsbarn í landinu í hverjum mánuði. Það er nefskatturinn sem fyrirtækið hefur fengið að komast í aðstöðu til að leggja á menn og mönnum eru allar varnir bannaðir. Menn neyðast til að greiða hann eða neita sér um símþjónustu ella.

Þetta er niðurstaðan eins og hún liggur fyrir þar. Og er það þetta sem menn vilja? Eru menn svo heillum horfnir, eru kreddan og trúarbrögðin svona sterk að þau ýti öllum skynsemisrökum til hliðar og menn láti sig bara hafa það að stinga sér til sunds í tóma laugina, herra forseti, í þessum efnum eins og fleirum?