Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:40:18 (8005)

2001-05-17 17:40:18# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja vegna orða hv. þm. um að verið sé að standa fyrir því að einkavæða einokun, að ótti manna við það úti á markaðnum er nú ekki meiri en svo að þessa dagana er verið að undirbúa sölu á hlutabréfum í símafyrirtækjum hér á Íslandi, símafyrirtækjum sem ætla og eru komin í samkeppni við Landssímann. Það er kannski órækasti vottur þess að þeir sem best þekkja til í rekstri símafyrirtækja, þeir sem best þekkja til þessa markaðar, meta það svo að í skjóli fjarskiptalaganna séu góð færi til þess að ávaxta sitt pund í þessum rekstri.

Í annan stað vil ég segja vegna spurningar hv. þm. um að hann vildi fá skýr svör um tímasetningu sölu. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er gert ráð fyrir því að selja 49% af hlut í félaginu á þessu ári. Að öðru leyti er sú tímasetning ekki nákvæmari. Síðan verði gengið til sölu á því sem eftir er þegar talið er hentugt út frá sjónarhorni þess sem selur að sjálfsögðu. Þá þarf að meta markað og allar aðstæður. Ég tel að ekki sé skynsamlegt fyrir okkur í svo stóru verkefni að ganga lengra í nákvæmum tímasetningum því að við þurfum að líta vel um alla bekki í þessu efni, eins og fram kom hjá hv. þm., og þess vegna er árið undir og síðan framhaldið með restina.

Það er fjarri lagi að verið sé að efna til brunaútsölu eins og hv. þm. sagði. Fengnir eru bestu sérfræðingar til þess að meta verð. Ég tel að það sé alltaf spurning um hvenær sé hinn rétti tími. Ég get komið nánar að því á eftir í seinna andsvari.