Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:52:04 (8010)

2001-05-17 17:52:04# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég nenni nú bara ekki að fara að ræða við hv. þm. í einhverjum sovétkommúnismastælum. Ég bara nenni því ekki, það er tímasóun. (Gripið fram í.) Ég heyri að þorpskóngurinn er mættur hérna áfram, hv. þm. Árni Johnsen. Hann hefur lítið lært. Ætli skólastjórinn sé búinn að tala við hann, þorpskónginn?

Í fyrsta lagi, herra forseti, er þetta náttúrlega ekki samkeppnisrekstur. Það er rangt að segja að þetta sé sambærilegt við einkavæðingu einhverrar venjulegrar samkeppnisstarfsemi í atvinnulífinu. Ég hef engar sérstakar hugsjónir í sambandi við það að ríkið reki venjuleg iðnfyrirtæki eða atvinnulíf almennt, í því umhverfi sem við erum hvort sem er varðandi það. Ég hef ekki lagst gegn því á undanförnum árum, t.d. að menn seldu ferðaskrifstofur eða eitthvað slíkt sem ríkið átti, arf frá gamalli tíð, prentsmiðjur eða eitthvað því um líkt. Það snýst um allt annað og kemur ekkert við þetta mál. Þarf endilega að ræða þetta á þeim nótum, herra forseti, að þetta snúist endilega um slíkt?

Ég var að vonast til að menn gætu rætt þetta raunsætt og út frá því sem reynslan segir okkur og aðstæðum í þessum málum, landfræðilegum, efnislegum og tæknilegum aðstæðum. Þær eru þannig að þetta fyrirtæki er að verulegu leyti í einokunaraðstöðu, fýsískri, efnislegri einokunaraðstöðu, bara eins og vatnsveita sem á einu vatnslögnina inn í húsið hjá þér, ef hv. þm. skilur hvers konar aðstöðu það skapar manni sem þarf að fá vatn á hverjum degi. Hitt er þá svona fákeppnisstaða sem menn eru í. Þetta blasir bara við.

Það er ekki rétt að nokkuð sé í sjónmáli sem líklegt er til að breyta þessu í grundvallaratriðum á næstu árum, það er rangt. Það er reynt að gera eins mikið úr því og hægt er að í vændum sé þetta og hitt, GSM sé að koma o.s.frv., en það er bara rangt. Helstu sérfræðingar í fjarskiptum á Norðurlöndunum, hjá Nokia og Ericsson t.d., segja: GSM-kerfið mun ekki keppa við breiðbandið á allra næstu árum, það er ekki tæknilega mögulegt.