Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:55:37 (8012)

2001-05-17 17:55:37# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hvet hv. þm. til að lesa álit samkeppnisráðs hvað varðar aðstæður þessara aðila á grundvelli viðskipta þó að reikisamningar og önnur ákvæði fjarskiptalaga taki til þeirra. Ég held að það sé ágætislýsing á þeim aðstæðum sem þar eru. Þegar annar aðilinn er algjörlega háður því að sækja undir hinn með sín viðskipti og verður að nota sér þjónustu hans þá koma auðvitað upp tilteknar aðstæður sem er afar hæpið að kalla hreinar samkeppnisforsendur. Ég held að menn hljóti a.m.k. að verða að setja gæsalappir utan um það.

Í Bretlandi, herra forseti, þ.e. samkvæmt bresku samkeppnislöggjöfinni, þá telst aðili markaðsráðandi ef hann hefur meira en 33% af viðskiptum á tilteknum markaði þar sem margir keppa. Það telst markaðsráðandi staða samkvæmt bresku samkeppnislöggjöfinni. Svo var a.m.k. fyrir fáeinum árum þegar ég var að grúska í henni. (ÞKG: Viltu tala um íslenska löggjöf.) Landssíminn er með milli 85 og 90% af viðskiptunum á þessu sviði, er það ekki, herra forseti? Jú, ég held það að það sé eitthvað u.þ.b., milli 85 og 90% af viðskiptunum.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja þingmenn um að gefa hljóð í salnum.)

Herra forseti. Ég legg til að við förum í apótek og kaupum svolítið af róandi handa þingmönnum Sjálfstfl. Þeir eiga mjög bágt, blessað fólkið, og á mjög erfitt við þessa umræðu. Það getur engan veginn hamið sig hérna.

Hvað heitir það á mæltu máli þegar einn aðili hefur efnislega einokunaraðstöðu, fýsíska einokunaraðstöðu að verulegu leyti, á allan koparinn inn í húsin, á ljósleiðarann, á öll samböndin og hefur milli 85 og 90% af viðskiptunum á viðkomandi markaði? Hvað heitir það á mannamáli? Er það skilningur Sjálfstfl. á frjálsri samkeppni að henni sé fullnægt við þessar aðstæður? Það er stórkostlegt að heyra það, þennan flokk sem er alltaf með munninn fullan af því hvað hann sé mikill talsmaður samkeppni, einkareksturs og frjálsra viðskipta. Honum verður ekki flökurt af því að kalla þetta fullnægjandi samkeppni á markaði.