Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:58:25 (8013)

2001-05-17 17:58:25# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er alveg dæmalaus umræða sem fram hefur farið í dag um heimild til ríkisstjórnarinnar til að selja Landssímann. Það skortir allan sannfæringarkraft í stjórnarmeirihlutann, fullkomlega. Það er varla nokkur stjórnarliði viðstaddur og kemur okkur ekki á óvart í sjálfu sér. Það er svo algengt að hér séu rædd stór mál án þess að þeir séu viðstaddir. Það er verið að sækja heimild til að selja stærsta og öflugasta ríkisfyrirtækið í landinu og menn eru ekki einu sinni á staðnum. Þetta er bara eins og smámál, væntanlega allir farnir út í sólina eða heim eða guð veit hvað.

Það kemur hins vegar á óvart að í þessu máli skuli ræðumenn stjórnarmeirihlutans vera í vörn. Ég hélt það að þegar þetta mál kæmi til okkar til 2. umr. þá yrði málið sterklega rökstutt, að fyrir lægju miklar upplýsingar um hvað stæði til að gera og að meiri hlutinn yrði í sókn og djarfhuga. Svo er ekki, það er aldeilis ekki. Hins vegar er látið eins og við þessa einkavæðingu, þegar fyrirtækið er komið á markað, verði samt allt eins og það var þegar fyrirtækið var ríkisfyrirtæki. Því er haldið fram að allt verði jafnmikið í þágu notenda Símans eins og verið hefur, meðan fyrirtækið var rekið sem ríkisfyrirtæki og byggði númer eitt, tvö og þrjú, á þjónustu við landsmenn.

[18:00]

Þegar við stöldrum við hvað er verið að selja þá kemur í ljós að menn hafa það heldur ekki alveg á hreinu, a.m.k. ekki hvers virði það er. Það veit enginn hvers virði fyrirtækið er, það er verið að selja fyrirtæki þar sem á að viðhalda einokun á markaði og fyrst og fremst byggir sú einokun á þeirri miklu hlutdeild sem fjarskiptamarkaðurinn hefur í landinu, eða eins og hér kom fram í skoðanaskiptum fyrir nokkrum mínútum, að Landssíminn er með 85% hlutdeild á fjarskiptamarkaði og þegar meiri hlutinn talar um að þetta verði fyrirtæki í samkeppni þá sér það hvert barn að 85% hlutdeild er ekki eitthvað sem fellur undir samkeppnishugsunina.

Ég vil staldra örlítið við það hvað við erum að selja. Í Dagblaðinu í dag er greinarkorn þar sem verið er að vitna í mat Viðskiptastofu Hafnarfjarðar og þar segir að Landssíminn, brúttó væntanlega, sé 41--47 milljarða virði. Það er sagt að Landssíminn sé án vafa eitt arðbærasta fyrirtæki landsins, og undir það tökum við, það vitum við, og einnig er sagt að þetta mikla verðmæti, 41--47 milljarðar, byggi á samanburði á nokkrum kennitölum fjarskiptafyrirtækja og sjóðstreymisgreiningu á rekstri Landssímans. Matið hjá Viðskiptastofunni byggir á samanburði á nokkrum kennitölum fjarskiptafyrirtækja og stjóðstreymisgreiningu á rekstri Landssímans, þannig að það má gefa sér að þetta geti staðist að einhverju leyti.

En meiri hlutinn hefur ekki getað gefið upp hvers virði það sé sem á að selja, það er verið að skoða það, kanna það og meta það.

Einnig er sagt í þessu greinarkorni að umræðan um sölu Landssímans hafi ekki verið í samræmi við ástandið á íslenskum fjármagnsmarkaði og þess vegna verði samanburður á milli landa varhugaverður. Og af hverju segja þeir þetta hjá Viðskiptastofu Hafnarfjarðar? Jú, af því að vextir á Íslandi eru mun hærri en á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum og af því leiðir að Landssíminn hlýtur að seljast á lægra verði en ef vextir hér á landi væru í samræmi við það sem er í nágrannalöndunum því það verður að gera hærri ávöxtunarkröfu til Landssímans.

Þar fer að koma skýringin á því af hverju mönnum gengur illa að meta hlutinn sem á að selja. Það er vegna þess, eins og við vitum, að þannig hefur verið haldið á þróun efnahagsmála að hlutir hér í eigu ríkisins halda t.d. ekki verðgildi sínu þegar farið er með þá út á markað, a.m.k. ekki þegar er skoðaður samanburður á milli landa vegna vaxtamunarins og þess hve háir vextir eru hér.

En þarna kemur einnig fram að líklegt sé að hærra verð fáist fyrir hluti ríkisins í Landssímanum þegar seinni sölur fari fram og þá sé bara betra að horfa þangað. Sem sagt, við erum að fara að selja Landssímann, verið er að sækja heimild til að selja allt saman og fá heimildina á einu bretti og menn verða að átta sig á því að ef farið verður að selja strax þá fáist ekkert mjög mikið, en það sé hugsanlegt að það fáist meira seinna, og horfum þá bara þangað. Þannig má lesa úr þessari frétt í Dagblaðinu í dag, sem virðist vera nokkuð raunsætt mat á því hver staðan er, a.m.k. er þetta mat virtrar viðskiptastofu.

Herra forseti. Í þessu innleggi mínu í umræðunni um sölu Landssímans ætla ég að taka undir öll þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá talsmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli, sem eru þeir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Kristján L. Möller. Þeir hafa sett fram mjög skýrt og viðurhlutamikið nál. sem segir allt sem segja þarf í þessu máli og þeir hafa fylgt því eftir hér í góðum ræðum í dag og í sjálfu sér þarf ekki miklu við það að bæta þó að okkur liggi auðvitað á hjarta í þessu máli og komi þess vegna fleiri upp til að skjóta að orði í umræðunni.

Það hefur komið skýrt fram að stefna Samfylkingarinnar er að skipta fyrirtækinu upp, að eiga áfram grunnnetið, þennan bagga sem einkavæðingarnefnd telur að verði á nýja einkavædda fyrirtækinu, sem þýðir væntanlega að hún metur það svo að ef nýja einkavædda fyrirtækið eigi að bera þær skyldur sem ríkið hefur borið á fjarskiptanetinu, þá geti þessi hluti fyrirtækisins, sem sjálfsagt er samt uppistaðan í verðinu og verðmætinu, orðið baggi á einkavæddu fyrirtæki. Þetta er setning sem í raun og veru segir mjög mikið um hugsunarhátt stjórnvalda varðandi það að selja fyrirtækið.

Stjórnarandstaðan hefur ólíkar skoðanir í þessu máli. Eins og fram hefur komið vill flokkur Vinstri grænna alls ekki selja neitt en Samfylkingin styður það efnislega að samkeppnisþættir Landssímans séu seldir og lítur ekki á, herra forseti, að þar undir geti grunnnetið fallið, enda höfum við fært rækilega rök fyrir því.

Í umræðunni vekur það mesta athygli hversu fátækleg viðbrögðin hjá stjórnarmeirihlutanum eru og má benda á í því samhengi að hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið og gert prentvillu í nál. að stórmáli og reynt að láta það líta þannig út að Samfylkingin sé í einhverju óstandi í þessu máli, sem er afskaplega barnalegt vegna þess að málflutningurinn hefur verið einhuga, hann hefur verið sterkur og afdráttarlaus frá fyrstu stundu og ljóst öllum sem mundu lesa slíkt nál. í samhengi að þarna var prentvillupúkinn á ferð. En það er frekar gaman að verða vitni að því að litlu verður Vöggur feginn. Hér hefur hver af öðrum hlaupið upp til þess að nefna þetta og reyna að gera Samfylkinguna ótrúverðuga. Stefna Samfylkingarinnar er alveg skýr, hún vill halda grunnnetinu eftir.

Hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir kom upp í andsvari fyrr í dag. Hún nefndi að það að halda eftir grunnnetinu sem ríkisreknu fyrirtæki yrði nátttröll í samfélaginu vegna þess að þetta væri ekki lítið fyrirtæki, þetta væri 450 manna fyrirtæki sem þá stæði eftir hjá ríkinu.

Ég legg ekkert mat á hvort það er rétt, en þarna birtist afstaða sem skilur hægri öflin frá jafnaðarmönnum. Markmiðið á nefnilega aldrei að vera það að hér megi ekki starfa opinber geiri eða að opinber rekstur sé af hinu illa. Það er fráleit afstaða. En hún hefur komið fram í öllum löndum hjá hægri öflunum. Hægri öflin miða að því að losa um allan opinberan rekstur og að einkavæða sem allra mest, allar þjónustustofnanir, heilbrigðisstofnanir og skóla, og við erum þegar farin að fá nasasjón af því hér á Íslandi þegar menn hafa komið út úr skápnum með stefnu sína eins og gerst hefur núna tvö síðustu árin hjá Sjálfstfl.

En það er jafnfráleitt, herra forseti, að ríghalda í opinberan rekstur þar sem það á við að starfsemi sé betur komin á markaði. Svo einfalt er það, herra forseti. Það á ekki að ríghalda í opinberan rekstur þar sem starfsemin er betur komin á markaði og markmiðið á aldrei að vera það að hér megi ekki starfa öflugur opinber geiri í þeim þáttum sem skiptir máli að séu hjá ríkinu.

Menn hafa verið að velta því upp hvað Landssíminn sé, og auðvitað liggur það fyrir að Landssíminn er ofurfyrirtæki í eigu ríkisins. Fyrirtækið teygir anga sína út á öll annes og inn á öll heimili í landinu, eins og hér hefur komið fram. Þetta fyrirtæki er að mínu mati mjög mikilvægt í huga almennings. Það hefur í gegnum árin verið sú þjónustustofnun sem fyrir utan heilbrigðis- og menntastofnanir hefur skipt fólk mestu. Þetta hefur verið öryggisstofnun, þetta er stofnunin sem kemur til fólks með símanum, ritsímanum, seinna GSM-fyrirtækinu, internetinu, alla þessa ómissandi samskiptaþætti sem nú er að finna á hverju heimili.

En í dagsins önn tel ég að það séu ekki miklar vangaveltur um það hjá fólki hvað liggi að baki víðfeðmu neti Landssímans. Og þegar ég spyr, herra forseti, hvað er Landssíminn? þá ætla ég að leyfa mér að vísa í skýrslu einkavæðingarnefndar, með leyfi forseta, um hvað Landssíminn er. Þeir benda að sjálfsögðu á að Landssíminn hafi sterka fjárhagslega stöðu og síðan kemur upptalning:

,,GSM-markaðnum er best lýst sem tvíkeppnismarkaði, Tal er með yfir 50.000 áskrifendur og Landssíminn með um 125.000 áskrifendur. Útlit er fyrir að þessi staða breytist nokkuð á næstunni þar sem úthlutað hefur verið 4 nýjum leyfum.

Landssíminn rekur eina NMT-farsímakerfið hér á landi.

Landssíminn hefur verið markaðsráðandi í rekstri innlendrar talsímaþjónustu og hefur þar með viðskiptatengsl við nær öll heimili og fyrirtæki í landinu.

Landssíminn hefur yfirburðastöðu í útlandasímtölum.

Landssíminn hefur umtalsverða markaðshlutdeild á internetmarkaðnum.

Í skjóli áratuga einkaréttar hefur fyrirtækið byggt upp víðfeðmt fjarskiptakerfi.

Fyrirtækið hefur lagt í mikla fjárfestingu í nýjustu tækni og er framarlega varðandi ýmsa þjónustu og tæknilausnir.

Landssíminn hefur byggt upp víðtækt sölukerfi fyrir þjónustu sína.

Í alþjóðlegum samanburði er verð á þjónustu Landssímans lágt.

Þetta styrkir stöðu fyrirtækisins.``

Herra forseti. Þetta er stutt upptalning undir liðnum Samkeppni á bls. 60 í skýrslu einkavæðingarnefndar og segir nokkuð til um það hvaða fyrirtæki Landssíminn er og ég ætla engu við það að bæta.

Það er hiti í umræðunni um sölu Landssímans og spyrja má hvort sterkar tilfinningar séu í þessu máli. Svar mitt er já. Ég hef bent á að þetta er fyrirtæki sem tengist hverju einasta heimili í landinu, þetta er fyrirtæki sem er sterka fyrirtækið í hverju einasta bæjarfélagi hringinn í kringum landið og sem fólk hefur vaxið upp með og er mjög ríkur þáttur og hefur sérstaklega verið ríkur þáttur í heimatilverunni. Ég ber sterkar tilfinningar til Landssímans. Þetta er fyrirtækið þar sem ég byrjaði að starfa að lokinni skólagöngu, fyrirtæki þar sem ég starfaði í mörg ár við talsímaþjónustu og ritsímaþjónustu. Mér fannst gaman að vinna hjá þessu fyrirtæki, ég skynjaði mikilvægi þess en ég geri mér líka grein fyrir hvaða þættir þess eru nú komnir á svið samkeppninnar.

[18:15]

Ég vil líka víkja örlítið að því hvernig tilfinningar fólk hefur gagnvart því að vera með ríkisfyrirtæki. Það var gott að vaxa upp í samfélagi jafnaðarmanna vestur á fjörðum sem lagði mjög mikla áherslu á samfélagsþjónustu og samhjálp. Þetta var gott líf. Byggt var á því að tryggja allar nauðsynlegar þarfir íbúanna. Á þeim tíma, á fyrri hluta síðustu aldar, voru t.d. sett á laggirnar kúabú á Ísafirði. Dytti okkur nokkurn tíma í hug að bær eða ríki ætti að fara að reka kúabú í dag? Aldeilis ekki. Af hverju voru menn að því þá? Jú, vegna þess að á þeim tíma var það eina leiðin til að öll börnin í bænum gætu fengið mjólk. Kúabúið á Ísafirði var barn síns tíma. Það voru líka settar á laggirnar bæjarútgerðir í samfélögum jafnaðarmanna. Þær voru settar á laggir til þess að útvega atvinnu og tryggja að aflinn yrði unninn heima. Þannig var þetta gert í kreppunni á Ísafirði að heimamenn settu á laggirnar samvinnubátana í samvinnu bæjaryfirvalda og sjómannanna á staðnum. Það þýddi samheldni og samhjálp og það skoraði kreppuna á hólm. Af hverju var það gert? Af því að það þurfti að gera það þá til að búa þeim þáttum sem ég er að lýsa hér umhverfi.

Núna dytti engum í hug að hlaupa til og fara í slíkar aðgerðir. Það er af því að bæjarútgerðir og samvinnubátar voru barn síns tíma. Ég er ekki í nokkrum vafa um það og veit t.d. til þess að þegar Bæjarútgerðin í Hafnarfirði, í jafnaðarmannasamfélaginu þar, var seld var það mjög erfitt mörgum vegna þessara sterku tilfinninga. Það var umdeild ákvörðun, ekki bara til fyrirtækisins heldur tilfinninganna til fortíðarinnar og þess sem þetta fyrirtæki stóð fyrir á þeim tíma, það var mikilvægt að samfélagið sjálft sæi til þess að fyrirtækið yrði til.

Þess vegna eru sterkar tilfinningar þegar breyta á um rekstrargrundvöll í fyrirtæki sem hefur verið mikilvægt að ríki eða bæjarfélög stæðu vörð um og tryggðu mikilvæga þjónustu sem íbúarnir þurfa á að halda, hvort sem það er í atvinnumálum, velferðarmálum eða í þjónustu af því tagi sem við erum að ræða hér í dag.

Afar þýðingarmikið er að við sem tökum ákvarðanir og setjum lög um þessa hluti gerum okkur grein fyrir því hvenær stofnun eða fyrirtæki hefur verið barn síns tíma og hvenær sá tími er liðinn. Ég veit að oft langar okkur, við breytingar, að hrópa upp: Stoppa hér. Ekki breyta svona hratt. Reynum að hafa hlutina eins og þeir voru. Það var allt svo gott einu sinni eða áður.

En framþróunin er á vissan hátt eins og það að eldast og það að hrópa: Stoppa hér. Ekki leyfa breytingum að gerast. Það er á vissan hátt eins og að horfa í spegil og krefjast þess að æskublóminn verði kyrr. Við í Samfylkingunni höfum skoðað þessi mál út frá slíkri hugmyndafræði og við erum ósammála stjórnarmeirihlutanum um að selja allt hlutaféð. Í málflutningi okkar hefur komið fram, og ég undirstrika það, að við viljum undanskilja grunnnetið.

Upphaf þeirrar ákvörðunar sem við stöndum núna frammi fyrir á Alþingi varð til fyrir löngu. Upphafið að ákvörðuninni varð til þegar löggjafinn opnaði á samkeppni á fjölmörgum þeirra þátta sem er að finna í starfsemi Landssímans í dag, þátta sem áður voru allir ríkisreknir. Þess vegna er það svo að í þessu þjóðfélagi í dag finnast núna mjög margir þættir annars staðar sem voru áður eingöngu hjá Símanum.

Það er alveg ljóst að GSM-svið Landssímans býr við samkeppni frá öðrum fyrirtækjum í landinu sem eru með GSM-fyrirtæki, að internetfyrirtæki Landssímans eru í samkeppni við önnur fyrirtæki í landinu sem reka internetþjónustu. Þannig mætti lengi upp telja og það er órökrétt að viðhalda slíkri starfsemi, sem er þegar komin í samkeppni, eftir að búið er að aflétta einokuninni með lögum eins og gert var á sínum tíma gagnvart þessum þáttum. Það er jafnórökrétt að viðhalda þeim þáttum sem eru þegar komnir í samkeppni af þessu tagi eins og það var órökrétt að halda áfram með bæjarútgerðir eða kúabú. Það er staðreyndin sem blasir við. Það er hinn einfaldi veruleiki þó að hann sé óþægilegur og þó að marga langi til að segja: Stoppa hér, stoppa hér, höfum allt eins og það var. Það var allt svo gott í gamla dag. Þannig er þetta ekki.

Nál. þeirra þingmanna Samfylkingarinnar, Lúðvíks Bergvinssonar og Kristjáns L. Möllers, dregur mjög fram yfirburðastöðu Landssímans í þeim þætti sem snýr að grunnnetinu og fjarskiptamálum. Það dregur það líka fram að Landssíminn allur mun alltaf verða stórt og öflugt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, sérstaklega í einu lagi en jafnvel þó því verði skipt upp. Þess vegna hefðum við viljað haga sölunni þannig að ekki væri nokkur hætta á misnotkun í kjölfarið vegna markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins. Við teljum að það sé ekki í þágu neytenda að selja grunnnetið og selja fyrirtækið allt eins og hér liggur fyrir. Í þeim efnum verður um enga virka samkeppni að ræða.

Í nál. okkar á bls. 2 og 3 er farið yfir það hvað við teljum að heyri undir grunnnetið og Lúðvík Bergvinsson fór yfir það í framsögu sinni fyrr í dag og það hvarflar ekki að mér að fara yfir það aftur enda ætla ég ekki að flytja neina maraþonræðu.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill minna hv. þm. á að þegar við nefnum nöfn þingmanna þá segjum við háttvirtur á undan.)

Já, herra forseti, það er mér ekki erfitt að segja hv. þm. um hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Herra forseti. Ég hef eingöngu stiklað á örfáum þáttum sem mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á í ræðu minni en ég ætla sérstaklega að benda á 24. lið á dagskrá þessa fundar, hvort sem við komum til með að ræða hann í kvöld eða síðar. Það er samningur um alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum og heitir INMARSAT. Þetta er till. til þál. sem utanrmn. hefur afgreitt út úr utanrmn. þar sem ég hef tekið þátt í að afgreiða þetta mál með fyrirvara. Ég ætla að fara örfáum orðum um það mál, með leyfi forseta, af því að það tengist því sem við erum að afgreiða í dag og það tengist fyrirvara mínum og mér finnst vera réttara að það komi fram hér í þessari umræðu en þá og þegar við ræðum tillöguna um INMARSAT.

Málið er að það er beðið um að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir okkar hönd samning alþjóðastofnunar um notkun gervitungla í siglingum, INMARSAT, sem gerður var 1998. Ég vek athygli á því að samningurinn var gerður 1998 en hann er að koma inn núna enda ekki seinna vænna miðað við stöðuna sem hann skapar Landssímanum.

Þannig er að árið 1990 gerðist Ísland aðili að samningi um alþjóðastofnun um notkun gervitungla og það var samningur sem var stofnað til árið 1976 þó að við kæmum ekki að honum fyrr en 1990. Það var sem sagt einn rekstraraðili frá hverju aðildarríki sem lagði fram hlutafé til INMARSAT sem hefur haft æðsta vald í daglegum rekstri gervitunglanna.

Mér skilst að hlutur Íslands í INMARSAT hafi verið um 40 millj. kr. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvers virði þessi hlutur er í dag.

INMARSAT veitir fjarskiptaþjónustu víðs vegar um heim, þar með talið talsíma-, telex- og gagnaflutningaþjónustu, en fyrst og fremst til skipa og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í alheimsneyðar- og öryggiskerfi sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur komið á fót.

Nú er það svo að stjórnendur INMARSAT, sem er samstarf mjög margra ríkja, hafa ákveðið að breyta rekstrarformi þessu í nýtt fyrirtæki með einkavæðingu og stofna nýtt fyrirtæki sem heitir Inmarsat Ltd. Því fyrirtæki verður heimilt að afla fjármagns og stunda viðskipti. Við þessa einkakvæðingu á þessu fjarskiptaneti sem gervitunglakerfið er ætla menn samt að reyna að gæta hagsmuna neytenda og almennings í löndum sínum. Þess vegna mun fyrirtækið Inmarsat Ltd. gefa út til INMARSAT sérstakt hlutabréf sem veitir stofnuninni neitunarvald gegn ákveðnum tegundum breytinga á samþykktum fyrirtækisins. Hlutabréfið gefur stofnuninni íhlutunarrétt um innri málefni einkavædda fyrirtækisins. Það heimilar stofnuninni að krefjast þess að kallaður verði saman stjórnar- eða hluthafafundur svo hún geti komið á framfæri áhyggjum sínum af frammistöðu hins einkavædda fyrirtækis á sviði almennrar þjónustu ef fyrirtækið stendur sig ekki vel.

Þessu sérstaka hlutabréfi tengjast þrjár heimildir sem mér finnst mikilvægt að nefna hér af því að við erum að fara að selja fjarskiptakerfi okkar án þess að vera með neina fyrirvara, ekki með neitt hlutabréf sem gefur íhlutunarrétt, ekki með neinar heimildir sem tryggja neytandann í landinu. En hinar þrjár heimildir hjá INMARSAT eru: Heimild til að beita neitunarvaldi vegna breytinga á samþykktum fyrirtækisins sem kynnu að hafa neikvæð áhrif á grunnreglur. Heimild til að krefjast fundar, eins og ég hef áður nefnt, og heimild til að kveða sér hljóðs á ársfundi og leggja til ályktanir í sambandi við ákvarðanir yfirstjórnar af því tagi sem ég hef þegar getið um.

Hér erum við að tala um fjarskiptanet þar sem alþjóðasamfélagið, ekki allir að vísu en fjölmörg lönd, hafa gert með sér samning um að tryggja aðkomu sem tryggir neytendur í þessum löndum. Þegar það einkavæðir þetta fjarskiptanet þá er það gert með kvöð. Því er skipt í tvennt, stofnun sem hefur sterkt hlutverk og hið einkavædda fyrirtæki. Það sem skiptir máli í þessari umræðu, fyrir utan það að benda á að ólíkt hafast menn að, herra forseti, er að Landssímanum var á sínum tíma falið að annast reksturinn, hann innti af hendi fé sem skapaði Íslandi 0,5% eign. Aðild ríkjanna að gamla kerfinu verður óbreytt og verður þjónað í gegnum utanrrn., en hið nýja einkavædda fyrirtæki mun fylgja hlut Landssímans við sölu. Sá hlutur verður seldur með óskiptum Landssímanum eins og allt annað.

Þess vegna er ég með fyrirvara við þetta mál, sem er nr. 24 á dagskrá fundarins, vegna þess að út af fyrir sig tel ég að vel sé staðið að málum hjá þessu alþjóðasamstarfi hvernig þeir ætla að gera þetta. En það sem skiptir máli og snýr að þessu máli og ætti að vera rætt hér er að inneign landsins liggur hjá Landssímanum. Þegar búið er að fallast á þessa tillögu, sem verður væntanlega í kvöld eða nótt eða á morgun, þá er búið að tryggja hlut hins einkavædda Landssíma í INMARSAT einkavædda fyrirtækinu, sem mér skilst að hafi verið á sínum tíma 40 milljónir og guð veit hvers virði er við sölu.

Herra forseti. Má segja að ég hafi fyrst og fremst komið hingað upp til að greina frá þessum þætti. Hann skiptir máli, þetta er eitt af því sem mun fylgja Landssímanum út á markað, verða hluti af hinu einkavædda fyrirtæki, sem er stöðugt haldið fram að muni verða jafngott, jafnneytendavænt og hið gamla fyrirtæki. Þessi þáttur undirstrikar það sem við höfum haft áhyggjur af hjá Samfylkingunni: Það fer allt út á markaðinn, það verður einokunarstaða á fjarskiptamarkaðnum, einokunarstaða hjá fyrirtæki sem er ekki í nokkurri samkeppni miðað við hlutfallið 85% á þeim markaði.

Herra forseti. Að lokum þetta: Við viljum fylgja þróuninni og ekki berja höfði við steininn. Við getum ekki staðið að þessari sölu eins og lagt er til enda hefur það komið fram í máli allra okkar sem hér höfum talað.