Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 18:31:02 (8014)

2001-05-17 18:31:02# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og ekki síst það sem hún kom inn á hér í lokin um möguleika Landssímans á að eiga önnur fyrirtæki, eignarhald í öðrum fyrirtækjum. Það er reyndar staðreynd í dag með Landssímann að hann hefur eignast hlut í óskyldum fyrirtækjum. Að mínu mati ætti það að vera óheimilt fyrirtæki með svo markaðsráðandi stöðu sem hann er og jafnframt með svona þjónustukvöð og þjónustuskyldur. Almannaþjónustufyrirtæki ætti ekki að hafa heimild til þess. Ég tek því heils hugar undir það.

Það sem hvatti mig til að koma í ræðustól var að hv. þm. rifjaði upp hvernig háttaði til hér áður fyrr er hið opinbera kom að t.d. rekstri kúabúa, bæjarútgerða og annarra slíkra atvinnufyrirtækja eins og nauðsynlegt var á þeim tíma og við skulum vona að þeir tímar komi ekki aftur. En því miður verða sveitarfélög víða úti um land vegna erfiðra samkeppnisaðstæðna að taka þátt í atvinnurekstri og atvinnufyrirtækjum. Það er alveg afleitt og einmitt til komið vegna rangra stjórnvaldsaðgerða. Því miður, herra forseti, eru þessir tímar ekki liðnir.

En varðandi Landssímann þá er grunnþjónusta hans fyrir okkur svipuð og menntakerfið, svipuð og heilbrigðiskerfið. Við viljum þróa hana og styrkja og bæta. En við viljum að það sé áfram öruggt að allir landsmenn eigi þar jafnan aðgang að, þetta sé ein af grunnstoðum almannaþjónustunnar. Það má vel vera að einhverjir þættir Landssímans geti verið betur komnir á markaði. En þessir grunnþættir eru hluti almannaþjónustunnar.