Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:02:15 (8019)

2001-05-17 20:02:15# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:02]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. er ekki í þingsalnum. Ég óska eftir nærveru hans hér við umræðuna.

(Forseti (ÁSJ): Hæstv. samgrh. mun vera rétt ókominn í þingsal. --- Forseti leggur til að gert verði hlé á fundinum í tvær mínútur.)

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég vildi að hæstv. samgrh. væri viðstaddur umræðuna er sú að ég hafði af því áhyggjur þegar hlé var gert á fundinum fyrr í kvöld að mér hefði orðið á í messunni, að ég hefði farið með rangt mál þegar ég fullyrti að pósthúsunum í Varmahlíð og Hofsósi hefði verið lokað og fólki sagt upp störfum. Svo var að skilja á frammíköllum hæstv. samgrh. að það væri misskilningur. Ég aflaði mér gagna í málinu og hef fengið staðfest að þessum pósthúsum var lokað. Í öðru tilviki var póstafgreiðslan, þ.e. hreyturnar af þeirri afgreiðslu, sett inn í sjoppu og í hinu tilvikinu í verslun. Með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem þar starfar þá er það eftir sem áður staðreynd að pósthúsunum á þessum stöðum var lokað. Sú hótun vofir yfir víðar á landinu. Ég heyrði t.d. að til hefði staðið að loka pósthúsinu í Búðardal en því hefði sem betur fer verið afstýrt, a.m.k. um stundarsakir.

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu hér er hlutur eftirlitsaðilans. Eftirlitsaðilinn er Póst- og fjarskiptastofnun, sú stofnun sem á að hafa eftirlit með hinum einkavædda síma þegar þar að kemur og reyndar með hlutafélaginu eins og málum er háttað. Byggðaráð eða sveitarfélagsstjórn í Skagafirði sneri sér til þessarar stofnunar til að grennslast fyrir um hvort lokun pósthúsanna og uppsagnir starfsmanna, samdráttur í þjónustu, stæðist lög. Stofnuninni var skrifað bréf hinn 14. mars sl. og óskað eftir svari.

Í bréfinu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Byggðaráð samþykkti að óska eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin úrskurði hvort breyting sú sem orðið hefur á póstafgreiðslu í Varmahlíð og Hofsósi samrýmdist lögum og reglum sem varða póstþjónustu í landinu.``

Svarið barst, ekki meðan á þessum deilum stóð heldur eftir að mestu deilurnar voru um garð gengnar. Hinn 2. maí barst svar frá þessum eftirlitsaðila, Póst- og fjarskiptastofnun.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Af þessu tilefni vill stofnunin upplýsa yður um að nú stendur yfir heildarúttekt á þeim pósthúsum úti á landi þar sem afgreiðslufyrirkomulagi hefur verið breytt, m.a. vegna samninga við fyrirtæki um rekstur þeirra auk þess sem unnið er að setningu reglna sem taka munu m.a. á atriðum eins og hvernig og hvar afgreiðslustaðir eiga að vera, póstleynd, öryggismálum og aðgengi almennings að þjónustunni o.fl. Stefnt er að að úttektinni verði lokið í september nk.``

Þetta er svarið. Það er verið að loka pósthúsum í byggðarlaginu, segja upp starfsfólki og rýra þjónustuna. Fjöldi manns, 200--300 manns, skrifar undir undirskriftalista, beiðni til hæstv. samgrh. að fara í málið, skoða það. Það er ekki einu sinni virt svars. Fulltrúar ganga á hans fund að vísu en fá það eitt í veganesti, að fundinum loknum, að ráðherra muni svara síðar. Ég veit ekki til þess að það svar hafi borist. Þetta eru viðbrögð eftirlitsaðilans.

Ég spyr: Hvert eiga menn að snúa sér þegar þeir ætla að kæra Símann, hinn einkavædda, ef hann skerðir þjónustuna? Fá þá menn þau svör að samin verði skýrsla, gerð úttekt og svarað eftir svona hálft ár? Eru það svörin? Þetta er fyrirkomulagið sem hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin ætla að þröngva upp á þjóðina. Það er ekki nóg með að það eigi að láta frá sér þennan gullmola, þessa gullkistu. Það er hún og hefur gefið af sér 20 þús. millj. í ríkissjóð á síðasta áratug. Enn er fyrirtækið aflögufært. Þetta ætla menn að láta frá sér. Síðan segjast þeir hafa lög og lagaheimildir til að taka að sér allt það sem er óarðbært.

Hvers konar hagsmunagæsla er þetta fyrir þjóðina, fyrir skattborgarann? Hvers konar bisnessmenn eru þetta, leyfi ég mér að segja? Ég spyr. Er einfaldlega verið að þjóna fjármagninu á kostnað þjóðarinnar? Svo geta menn ekki einu sinni fært rök fyrir því eða sýnt fram á það á sannfærandi hátt að samkeppnin, hin rómaða samkeppni, muni færa notendum betri þjónustu á lægra verði.

Það deilir enginn um að þegar arðsemiskrafan og arðsemissjónarmiðin hafa verið leidd til vegs og virðingar þá breytast áherslur í fyrirtækinu. Það deilir enginn um það. Menn hafa áhyggjur af því að dreifðar byggðir, fámenn byggðarlög, muni ekki njóta sömu þjónustu og þéttbýlið. Hið sama gildir um fyrirtækin. Menn óttast að stærri viðskiptavinir mundu hafa forgang. Þetta gerist þegar arðsemissjónarmiðin eru leidd til vegs og virðingar. Reynslan sýnir okkur það. Það hefur verið vísað í reynslu annarra þjóða, Nýsjálendinga, Breta og annarra þjóða. Þetta eru staðreyndir. Ef menn telja þær ekki standast óska ég eftir nánari upplýsingum.

Þetta er sem sagt fyrirkomulagið sem á að reyna að þröngva upp á okkur til þess að ná, eins og segir í áliti meiri hluta samgn., að fullnægja pólitískum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Fyrirhuguð sala er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Skyldu vera færð fyrir þessu einhver nánari rök? Ja, að vísu ekki rök en ekki vantar staðhæfingarnar og fullyrðingarnar.

Markmiðin eru t.d. sett fram í skýrslu einkavæðingarnefndar, í sjö liðum. Það hefði farið betur á því að hafa liðina tíu, boðorðin tíu. Einu sinni bauð Verslunarráð manni hingað til lands, sérfræðingi í einkavæðingu, dr. Piri hét hann. Tímarit Verslunarráðsins birti það sem það kallaði ,,hin tíu boðorð dr. Piris``, um hvernig menn ættu að bera sig að við einkavæðingu. Þar var lagt til að menn færu hægt í sakirnar, segjast aðeins vera að breyta rekstrarfyrirkomulagi og selja síðan smám saman. Helst að kaupa starfsmenn til fylgis við hugmyndina með því að bjóða þeim hlutabréf á vildarkjörum. Þetta er allt samkvæmt formúlunni. Menn lærðu boðorðin tíu af dr. Piri á sínum tíma.

En hvað skyldi segja í þessum sjö liðum sem einkavæðingarnefnd setur fram til að undirbyggja pólitíska stefnu ríkisstjórnarinnar? Fyrsti liðurinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu. Markaðsöflin eru allajafna betri trygging fyrir skynsamlegri nýtingu framleiðsluþáttanna en ríkisafskipti.``

Eru menn að hugsa um Baug? Eru það olíufélögin eða eru það tryggingafélögin? Hvað eru menn að hugsa um? Skyldi það vera staðreyndin að alhæfing af þessu tagi dugi ekki vegna þess að markaðslögmálin eigi að sönnu víða við og koma að góðum notum en annars staðar ekki? Menn deildu á sínum tíma um hvort gera ætti Strætisvagna Reykjavíkur að hlutafélagi, það var horfið frá þeirri ákvörðun og snúið til baka. Þá kom fram gagnrýni og m.a. frá frjálshyggjumönnum ýmsum, alvöru markaðssinnum, sem vildu sjá einhvern árangur af slíkum kerfisbreytingum. Þeir sögðu sem svo: Hér munu markaðslögmálin engin áhrif hafa. Þetta er einokun og dæmt til þess. Menn sögðu: Værum við í stóru landi þar sem væru burðugir aðilar með mikla flota bíla má vel vera að hægt væri að setja slíka þjónustu á markað. Ég væri ekki ginnkeyptur fyrir slíku en það er alla vega sjónarmið. Þegar um er að ræða einn aðila þá verður engin samkeppni. Það er sú gagnrýni sem við setjum fram varðandi Símann. Það verður engin samkeppni. Reyndar eru menn að tala um líkurnar á því að stórar alþjóðlegar samsteypur gleypi þessi litlu fyrirtæki. Þannig er þróunin. Það leið ekki langur tími frá því að danski síminn var gerður að hlutafélagi og settur á markað að til leiks mætti ameríska fyrirtækið Ameritec, minnir mig að það hafi heitið, með heimilisfang í Chicago. Þeir áttu líka í ungverska símanum og gott ef ekki í símafyrirtæki í Argentínu. Þróunin er sú að slíkar fjölþjóðlegar samsteypur gleypi litlu fyrirtækin. Þess vegna auglýsi ég eftir því hvað býr að baki og réttlæti pólitíska kreddutrú hæstv. samgrh., sem segir það alveg berum orðum að það eitt vaki fyrir honum að fullnægja pólitískri trú sinni.

[20:15]

Annar liðurinn, með leyfi forseta:

,,Að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum. Reynslan sýnir að meiri faglegar kröfur eru gerðar til stjórnenda og þeir fá meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðingu.``

Hvað eru menn að tala um hér? Eru menn ekki pólitískir í fyrirtækjum í landinu, hvernig er það? Hafa menn enga pólitík t.d. hjá Shell eða tryggingafyrirtækjunum? Baugur, ætli engin pólitík sé þar á ferðinni heldur eða í Íslandsbanka? Allir ópólitískir þar?

Skyldi ekki hitt vera nær sanni að menn eru allir af sama pólitíska sauðahúsinu í þessum fyrirtækjum? Þetta er allt frjálshyggjuliðið. Og það sem er tryggt þegar fulltrúar almannavaldsins koma að stjórnun stofnana, og hér er ég fyrst og fremst að tala um þjónustustofnanir við almenning og samfélagið, stoðþjónustuna í samfélaginu, er að mismunandi sjónarmið komist að og menn misbeiti ekki pólitísku valdi sínu.

Þriðji liðurinn:

,,Að efla hlutabréfamarkað. Öflugur innlendur hlutabréfamarkaður er mjög þýðingarmikill fyrir alla efnahagsstarfsemi. Slá má á þenslu með því að hvetja almenning til þátttöku í atvinnurekstri með hlutafjárkaupum.``

Öflugur hlutabréfamarkaður er mjög þýðingarmikill fyrir alla efnahagsstarfsemi. Er það rétt? Fyrir alla efnahagsstarfsemi? Hafa menn ekki heyrt um vangaveltur bandarískra hagfræðinga um hlutafélagsformið, að það geti verið varasamt í starfsemi sem þjóðfélagið þarf að reiða sig á? Hvers vegna? Vegna þess að það er munur á fyrirtækjum þar sem eigandinn er nátengdur starfseminni, það er munur á þeim annars vegar og fyrirtækjum þar sem hluthafinn, eigandinn er fjarri og hugsar um það eitt að hámarka gróða sinn. Þá getur það nefnilega gerst að gangi illa í fyrirtækinu leggi þeir á flótta og haldi á gjöfulli mið og þannig er grafið undan starfsemi fyrirtækisins og stofnunarinnar.

Menn hafa sagt í sambandi við fyrirtæki og stofnanir sem gegna mikilvægu þjónustuhlutverki í samfélaginu að vafasamt sé að hlutafélagsformið henti þar. Þetta er a.m.k. skoðun, en það er ekkert pláss fyrir hana í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar. Þar er bara fullyrt að það henti allri efnahagsstarfsemi undantekningarlaust. Hvers konar rugl er þetta?

Fjórði liðurinn:

,,Að bæta stöðu ríkissjóðs. Með sölu á hlutabréfum ríkisins er unnt að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni.``

Var ég ekki að rekja það hver gullkýr Síminn hefur reynst ríkissjóði? Hefur hann ekki borgað 20 þús. millj. inn í almannahirslur á síðustu árum? Var ekki hagnaðurinn á síðasta ári 6.500 millj. fyrir afskriftir og fjármagnsliði? Og hverjar eru þær að hluta? Það eru peningar sem voru greiddir inn í ríkissjóð. Þetta er staðreyndin.

En menn eru að bæta hag ríkissjóðs, segja þeir, á sama tíma og fram kemur í nál. að það eitt á eftir að verða hjá ríkinu sem er óarðbært. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda svona rugli fram? Hvernig fara menn að því? Ég held að menn hljóti að hafa bara eitt auga og það í miðju enni. Það er bara eitt sem sést beint af augum. Hin pólitísku markmið hæstv. samgrh.

Fimmti liður:

,,Að bæta hag neytenda. Með þeirri hagræðingu sem hlýst af einkavæðingu eru líkur á því að samkeppni á markaði aukist sem skilar sér í bættum hag neytenda.``

Stundum, jú. Stundum getur þetta gerst. Það er alveg rétt. Sum starfsemi er þess eðlis að rétt er að hafa hana á markaði. Það er alveg rétt.

Fyrir nokkrum áratugum var hér jafnvel enn verri einokun í ferðaiðnaði en nú er. Við þekkjum að Flugleiðir hafa ráðandi stöðu. Og menn vildu bæta stöðu neytandans með því að örva samkeppni. Verkalýðshreyfingin kom að því, samvinnuhreyfingin kom að því að stofna Samvinnuferðir/Landsýn til að skapa samkeppni neytendum í hag.

Síðan styrkjast þessi fyrirtæki, fleiri koma til sögunnar og samkeppni verður til. Þá draga þessir aðilar sig til baka. En markmiðið var að skapa þessa samkeppni og hún á vissulega víða við. Það er alveg rétt. Ríkið rak á sínum tíma Ferðaskrifstofu ríkisins. Hún var seld. Ekki fannst mér það óráðleg ráðstöfun. Prentsmiðjan Gutenberg var í eigu ríkisins. Hún var seld. Ekki fannst mér það óráðleg ráðstöfun.

En mér fyndist óráðleg ráðstöfun að selja vatnsveituna í Reykjavík eða orkuveiturnar. Það er óráðlegt. Og það er líka óráðlegt að selja Landssíma Íslands vegna þess að sú breyting mun ekki stuðla að þeim markmiðum sem hér er gumað af.

Í sjötta lagi segir:

,,Að styrkja stöðu starfsmanna. Einkavædd fyrirtæki hafa meiri möguleika en ríkisfyrirtæki til að greiða góðu starfsfólki há laun, m.a. með árangurstengdum launakerfum ásamt því að tryggja atvinnu til langframa.``

Heyr á endemi! Að styrkja stöðu starfsmanna. Ekki þeirra sem er sagt upp störfum væntanlega vegna þess að breytingarnar sem fylgja þessu þegar arðsemiskrafan er sett á oddinn hefur iðulega leitt til þess að starfsfólki er fækkað. (Samgrh.: Starfsmenn fagna þessu.) Starfsmenn fagna þessu? Það leyfi ég mér stórlega að efast um, hæstv. samgrh. Ég hugsa að í hópi starfsmanna séu mjög mismunandi sjónarmið uppi.

Ég varð ekki var við það í upplestri formanns samgn., hv. þm. Árna Johnsens, hverjir hefðu komið á fund nefnarinnar. Ég heyrði ekki talað um Félag íslenskra símamanna. Eða er mönnum ekki kunnugt um að það er enn við lýði? Það er hagsmunafélag starfsmanna Símans. Mætti Einar Gústafsson á fundinn, formaður þess félags? Ég bara spyr.

Starfsmenn fagna þessu, segir hæstv. samgrh. Ég hef miklar efasemdir um það. Það kunna að vera einhverjir starfsmenn og efast ekkert um það. Sumir gera það án efa og aðrir ekki.

En þegar Síminn var gerður að hlutafélagi á sínum tíma var það gegn mjög harðri andstöðu starfsmanna, heildarsamtaka og félagsins, Félags íslenskra símamanna, sem gagnrýndu þá ráðstöfun mjög harkalega. Síðan var farið inn á þá braut að reyna að ná eins tryggum kjörum fyrir starfsmenn og unnt var. Þá fóru menn inn á þá braut á sama hátt og samtök bankamanna hafa reynt að ná eins tryggum kjörum og þeir mögulega hafa getað. Og af þeim sökum hafa menn, þegar þeir vissu að ákvörðun lá fyrir um hlutafélagsvæðingu bankanna og pólitísk ákvörðun lá fyrir og henni yrði ekki hnekkt, farið inn á þessa braut. Hið sama gerðist hjá Símanum. Ég þekki þetta mál mjög vel.

Þá sögðu stjórnvöld eða fulltrúar stjórnvalda: Hafið þið engar áhyggjur. Það er bara verið að breyta rekstrarformi. Það á ekkert að selja og engin kjör verða skert. Það er náttúrlega rangt. Þetta var ekki svona. Kjörin voru skert vegna þess einfaldlega að kerfisbreytingin leiddi sjálfkrafa til þess, t.d. varðandi lífeyrisréttindin. En starfsmenn og samtök þeirra unnu mjög gott starf að reyna að hnýta alla hnúta þannig að skaðinn yrði sem minnstur.

En góðu starfsmennirnir eiga að fá vel borgað, takið eftir því. Góðir starfsmenn, hverjir eru það? Hverjir eru góðir starfsmenn? Jú, eru þá ekki fyrirmyndirnar á einkamarkaðnum? Þar er allt góða fólkið, er það ekki?

Hverjir skyldu fá best borgað í þeim fyrirtækjum sem ég var að vísa til á markaði, hverjir skyldu það vera? Skyldi það vera afgreiðslufólkið á kössunum í Baugi, skyldi það vera það? Skúringafólkið? Bílstjórar? Nei. Ætli það séu ekki forstjórarnir? Ætli það séu ekki forstjórarnir og stuðningslið þeirra? Ég hefði haldið það.

Þetta er sú þróun sem við erum að finna fyrir í samfélaginu með þessari markaðsvæðingu og markaðshyggju, að launamunur er að aukast alveg stórlega. Góða fólkið, atgervisfólkið, atgervismennirnir, þurfa helst að fá um milljón á mánuði, er það ekki? Það er lágmark fyrir góða fólkið. En hitt fólkið þarf að heyja oft langa og stranga baráttu til að tryggja laun í kringum hundrað þús. kr. á mánuði. Þetta er bara staðreyndin. Þetta var um góða fólkið.

Síðan var sjöundi liðurinn:

,,Að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr möguleikum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir.``

Já, já. Skagfirðingarnir? Sérhagsmunahópurinn í Skagafirði. Hópurinn sem hæstv. samgrh. hirðir ekki um að svara. Fólkið sem var að mótmæla því að pósthúsunum væri lokað á Hofsósi og í Varmahlíð og skrifaði undir skjal til ríkisstjórnarinnar, bað ríkisstjórnina um að endurskoða ákvörðun sína og draga hana til baka. Þetta er sérhagsmunafólkið, sérhagsmunahóparnir, eða hvað? Hverja er verið að tala um?

Og það er athyglisvert niðurlagið í þessari setningu þar sem segir að þessir hópar kunni ,,að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir``. Hvað er óhagkvæmt? Það er það sem er ekki arðbært. Það er það sem ekki gefur möguleika að ná þeirri arðsemiskröfu sem forstjóri Símans hefur dregið að húni, 15%. Allt annað er óhagkvæmt og á að víkja.

[20:30]

Þetta eru nú röksemdirnar sem einkavæðingarnefnd setur fram til að undirbyggja skoðun hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar og eiga að sannfæra okkur hin, þjóðina, um að pólitíkin sem hér er höfð að leiðarljósi sé rétt. Ég hef sýnt fram á að þær fullyrðingar sem hér eru settar fram standast ekki. Að mínum dómi standast þær ekki. Þær standast ekki rökræðu. Ef þær gera það þá óska ég eftir að fá að heyra rök hæstv. samgrh. eða annarra fulltrúa stjórnarmeirihlutans um hið gagnstæða. Hvað er það í mínu máli, þegar ég hef gagnrýnt þessa sjö punkta, sem er rangt? Hvar fer ég villur vegar? Ég hlýt að gera það að þeirra mati. Ég hlýt að gera það.

Hlutabréfaformið hlýtur allt að vera gott. Það hlýtur allt að vera gott. Það hlýtur alltaf að vera gott að útrýma sérhagsmunum, líka sérhagsmunum fólks sem er að missa vinnuna eða býr í byggðarlögum þar sem verið er að skerða þjónustuna. Þetta eru sérhagsmunahópar að mati ríkisstjórnarinnar. Er ekki kominn tími til að við heyrum einhver rök, að við heyrum einhver alvöru rök fyrir því að ríkisstjórnin setji frá okkur þessa gullgerðarvél, afsali okkur valdi og yfirráðum yfir stofnun sem á að tryggja þjónustustarfsemi fyrir landsmenn alla, að hún sýni fram á að hún sé að gera þjóðinni gott. Ég hef mjög miklar efasemdir um að þessi ríkisstjórn og þessir ráðherrar standi vaktina fyrir þjóðina, kunni að standa í fæturna gagnvart þeim öflum sem að þeim sækja í Verslunarráðinu, Samtökum atvinnulífsins og frá fjárfestum á markaði sem krefjast þess að fá þessar eignir þjóðarinnar í hendur refjalaust.