Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:33:37 (8020)

2001-05-17 20:33:37# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gefst ekki mikill tími til þess að fara efnislega ofan í það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir í löngu máli. En ég hlýt að koma með andsvar við ræðu hans þar sem hann talaði um pósthúsin í sambandi við sölu á Landssímanum.

Það er nefnilega rétt sem hv. þm. hafði grun um að væri því hann fór rangt með þegar hann segir að póstþjónustu sé lokað í Skagafirði. (ÖJ: Útibúum.) Póstþjónusta er áfram í Skagafirði. Hins vegar verður sú breyting að hún er ekki rekin úr húsnæði sem Íslandspóstur hefur með að gera heldur er gengið til samstarfs við aðra. Samið hefur verið við Kaupfélag Skagfirðinga um að kaupfélagið sinni póstþjónustunni. Þarna er grundvallaratriðið í þessu máli sem hv. þingmenn Vinstri grænna virðast ekki vilja vita um eða skilja, sem er að aðrir aðilar geti sinnt þessari þjónustu. Það var það sem Íslandspóstur valdi að gera, þ.e. að ganga til samninga m.a. við Kaupfélag Skagfirðinga, sem er sæmilega öflugt fyrirtæki, til þess að sinna þjónustunni sem hlýtur að vera aðalatriðið. Mér finnst það vera heldur kuldaleg kveðja sem þessu fólki er send norður til Skagafjarðar frá þingmönnum Vinstri grænna með því að vefengja getu þess og vilja til þess að sinna póstþjónustunni fyrir Íslandspóst. Aðalatriði málsins er að engri póstþjónustu hefur verið lokað heldur breytt um form, breytt um fyrirkomulag á þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Varðandi að öðru leyti hin sjö atriði sem hv. þm. fór síðast yfir þá er eðlilegt að hann komist að þeirri niðurstöðu sem hann komst vegna þess að hann gefur sér að ríkið fái ekkert fyrir þessa miklu eign sem verið er að undirbúa að selja.