Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:48:30 (8027)

2001-05-17 20:48:30# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég tek undir það með hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur að Síminn er góður fjárfestingarkostur fyrir íslenska þjóð. Hann hefur skilað Íslendingum miklum hagnaði og góðri þjónustu um áratuga skeið. Við vörum hins vegar við fljótræðislegum ákvörðunum um að selja þessa dýrmætu eign frá okkur, afhenda hana öðrum. Ég er að vara við því. Það er hlutverk okkar sem sitjum á Alþingi og hlutverk ríkisstjórnarinnar að standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við vitum að að þessum hagmunum er sótt. Það er krafa fjárfesta, t.d. Verslunarráðsins, þeirra sem hafa fjármagn á hendi og vilja hagnast á því, að fá eignir þjóðarinnar afhentar.

Í sumar var gerð krafa um það, á frægum morgunarverðarfundi hjá Verslunarráðinu, að sjúkrahúsin yrðu einkavædd. Menn eru byrjaðir á elliheimilunum. Menn ætla að taka þessar eignir okkar og setja þær á markað vegna þess að þeir vita að í þeim eru mikil verðmæti. Þarna er á ferðinni þjónusta sem þarf að sinna og þessir aðilar vilja komast yfir hana.

Síminn skilaði á síðasta ári 6.500 millj. í hagnað. Að sjálfsögðu vilja menn komast yfir þessa eign, yfir þennan gullmola. Það er dapurlegt að búa við ríkisstjórn sem kann ekki betur að passa upp á hagsmuni þessarar þjóðar.