Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 21:14:51 (8035)

2001-05-17 21:14:51# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[21:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Sannarlega er gott að við skulum hafa Landssímann upp á að hlaupa núna til þess að hressa við efnahag landsins. Ekki veitir af eftir þær miklu efnahagskollsteypur sem við höfum verið að taka upp á síðkastið eða nánast heljarstökk, 20--25% gengisfall frá áramótum. Jú, það eykur áhuga erlendra aðila að koma til fjárfestinga á Íslandi og það þarf sannarlega innflæði gjaldeyris til Íslands. Við skulum vona að þetta gengisfellingardæmi komi ekki upp aftur að ári vegna þess að þá höfum við ekki Landssímann upp á að hlaupa til að selja.

Ég vil svo aðeins geta þess af því vitnað var í ágætan Hafnfirðing sem kom fyrir fund nefndarinnar, Ingvar Kristinsson, formann hugbúnaðarfyrirtækja, en hann er jafnframt með starfsemi á Akureyri, hann á í fyrirtæki þar, að þar komu fram þessi tvö sjónarmið. Hann taldi að ekki þyrfti að halda grunnnetinu aðskildu vegna samkeppni á höfuðborgarsvæðinu en þegar hann var spurður út í fyrirtækið á Akureyri taldi hann leikinn mjög ójafnan eins og hann orðaði það. Þar sitja menn ekki saman við sama borð og hann taldi nauðsynlegt að breyta miklu meira áður en að sölu kemur.