Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 21:16:13 (8036)

2001-05-17 21:16:13# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[21:16]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunntónninn í umræðunni hjá hv. þm. stjórnarflokkanna er samkeppni, heilbrigð samkeppni. Þannig hefur þetta verið orðað. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hún telji, miðað við þær markaðaðstæður sem við búum við, þ.e. markaðurinn er lítill, markaðurinn er dreifður og vissulega er hægt að tala um samkeppnisaðstæður á höfuðborgarsvæðinu þar sem þéttbýli er til staðar, hvort hún hafi trú á að samkeppni muni verða um að veita þjónustu í dreifbýli landsins þar sem um er að ræða mjög dýrar framkvæmdir, dýra þjónustu sem erfitt hefur verið að fá hingað til. Hefur hv. þm. trú á því að þegar ríkið hættir að fara með þetta fyrirtæki muni menn keppast sérstaklega við að að veita þjónustu í dreifbýli landsins?