Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 21:25:09 (8044)

2001-05-17 21:25:09# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum rætt í allan dag um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg þar sem ég átti sæti í hv. samgn. allt síðasta kjörtímabil. Þá var Síminn einmitt allmikið til umræðu vegna þess að þá var Pósti og síma breytt í hlutafélag. Varð allmikil umræða um það mál bæði í þingsal og í nefndinni. Þáverandi samgn. kynnti sér mjög ítarlega símamál hér og einnig á Norðurlöndum og í Evrópu í tengslum við þá breytingu alla. Ég verð að segja, herra forseti, að eitt fannst mér dálítið merkilegt þegar ég fór í umræðuna hér um hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þá var þáv. hæstv. samgrh. spurður að því í óundirbúinni fyrirspurn hvort til stæði að selja Símann. Sú sem hér stendur spurði hann að því. Og þá svaraði hv. þm. Halldór Blöndal, reyndar núverandi forseti Alþingis, því til úr þessum stóli að ekki stæði til að selja hlutafé í Símanum þegar það fyrirtæki væri orðið að hlutafélagi. Það eru ýmsir sem skipta um skoðun í þessu máli.

Eins og menn vita hefur umræðan um að selja hlutafé í Pósti og síma dregist langt fram á vorið á þessu þingi vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um málið. En eftir langa mæðu hafa þeir sem sagt ákveðið að nú skuli selja. Framsfl. hefur greinilega gefið eftir. Hann var á sömu skoðun og við í Samfylkingunni um að ekki skyldi selja fyrirtækið eða hluta í fyrirtækinu öðruvísi en að grunnnetið skyldi skilið frá.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst merkilegt að enginn framsóknarmaður skuli vera við umræðuna. Hér hefur farið fram umræða í nokkra klukkutíma án þess að nokkur framsóknarmaður sé viðstaddur. (Gripið fram í: Umræðan hefur gengið ágætlega.) Umræðan hefur reyndar gengið ágætlega. En ég velti fyrir mér hvort Framsfl. treysti sér ekki til að vera við umræðuna. Ég er búin að fylgjast með umræðunni síðan í morgun og ég hef ekki heyrt viðhlítandi svör við því hvers vegna hann féll frá fyrri skoðun sinni, þ.e. að skilja bæri grunnnetið frá.

Ég minnist ræðuhalda hv. þingmanna Framsfl. um þetta mál þar sem þeir vöruðu mjög við því að selja Símann í einu lagi, hér gæti komið upp ófremdarástand og það mundi Framsfl. aldrei sætta sig við, herra forseti, aldrei sætta sig við að Síminn yrði seldur í einu lagi, það yrði að skilja grunnnetið frá. Þess vegna væri fróðlegt að vita, herra forseti, hvort nokkrir framsóknarmenn séu í húsinu sem gætu þá kannski skýrt betur fyrir okkur hvernig standi á þessari vendingu flokksins í símamálinu. Eru hér einhverjir fulltrúar Framsfl. sem gætu tekið þátt í umræðunni og skýrt okkur frá því?

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta ganga úr skugga um það.)

Herra forseti. Helst vildi ég nú fá hingað hv. þm. Hjálmar Árnason sem hefur verið hér og á sæti í nefndinni. (Gripið fram í: Hann var hér í dag.) Umræðan stendur enn og full ástæða er til þess að nefndarmenn séu hér viðstaddir.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta athuga hvort hv. þm. Hjálmar Árnason getur mætt til fundar. )

(Gripið fram í: Gera bara fundarhlé.) (Samgrh.: Hann gerði mjög vel grein fyrir sínu máli í dag þegar hann flutti klukkutíma langa ræðu.)

Ég heyri að hæstv. ráðherra er farinn að bera í bætifláka fyrir Framsfl. og fjarveru hans í umræðunni. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra ætli líka að svara fyrir næstu spurningar og frekari spurningar til flokksmanna Framsfl. sem ég mun bera fram hér úr ræðustóli. (ÞKG: Hlustaðir þú ekki á ræðuna í dag?) Ég hlustaði á allar ræður í dag og ég tel að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi ekki svarað þessu fyllilega. Það var frekar lítið um svör frá þeim hv. þm.

[21:30]

Eins og fram hefur komið er Samfylkingin á þeirri skoðun að skilja beri grunnnetið frá áður en til sölu kemur. Við höfum verið á þeirri skoðun að selja beri samkeppnishlutann. Ríkið á ekki að vera í samkeppnisrekstri en aftur á móti, meðan ekki er samkeppni í rekstri grunnnets, þá beri að skilja það frá og ríkið sjái um þann rekstur. Aftur á móti gæti komið upp sú staða að hægt væri að selja þann hluta einnig.

Ég minnist þess frá umræðunni um hlutafélagavæðingu Símans á síðasta kjörtímabili, að þá voru ýmsar kenningar uppi um að fljótlega tækju við gervihnettir sem mundu sinna símaþjónustunni. Prófessorar úr háskólanum sem lýstu þeirri þróun, að þá yrði ekki þörf fyrir grunnnet. Aftur á móti er nú ljóst að það verður ekki í náinni framtíð. Það er því full ástæða til þess að ríkið sinni grunnnetinu, þjóðvegakerfinu eins og við höfum kallað það.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði um það í ræðu sinni á undan mér að það yrði töluverður kostnaður við að aðskilja grunnnetið frá annarri þjónustu. Hún taldi að sá kostnaður mundi bitna á neytendum. Ég velti því þá fyrir mér, í framhaldi af þeim orðum hv. þm., hvernig kostnaðurinn af fákeppninni muni bitna á neytendum, þ.e. ef við aðskiljum netið ekki. Hvernig mun sá kostnaður koma niður? Það er alveg ljóst að ríki ekki samkeppni þá má búast við því að það komi niður á neytendum. Menn hafa farið hér rækilega yfir það.

Í kvöld hefur verið rætt nokkuð um starfsmannafélag Símans. Menn hafa velt fyrir sér hvað menn geri á fundum starfsmannafélagsins. Eftir því sem ég hef fregnað í samgn. og vinnu hennar í aðdraganda 2. umr. þá skilst mér að fram hafi komið hjá starfsmönnum að þar hafi ekki verið rætt um aðskilnað grunnnetsins og heldur ekki hvort grunnnetið ætti að vera áfram með í Símanum. Starfsmenn hafa þannig ekki endilega verið að ræða þau mál. Aftur á móti er ekki óeðlilegt að starfsmannafélag ræði kjaramál. Hér kom fram að þeir hefðu rætt og mótað afstöðu til þess hvort starfsmenn ættu að fá að kaupa hlut í Símanum. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þeir taki afstöðu til þess. Aftur á móti tel ég að almenningi og starfsmönnum sé ætlaður of lítill hlutur í Símanum við söluna.

Ég fagna framsóknarmanni í salinn. Hér er mættur hv. þm. Magnús Stefánsson, stjórnarmaður í Símanum, sem ætti að geta svarað fyrir sína menn og þá vendingu sem orðið hefur í afstöðu Framsfl. í þessu máli.

Ég tel óeðlilegt að almenningur og starfsmenn fái ekki að kaupa meira en 14% í Símanum. Smærri og meðalstórum fyrirtækjum er síðan ætlað að fá að kaupa 10%, þ.e. 2--3% hverju fyrir sig. Ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því að almenningur á ekki að fá að kaupa stærri hlut.

Það er ljóst, miðað við þá umræðu sem verið hefur um verðgildi Símans í dag, að hann er metinn á mun lægra verði en t.d. fyrir ári. Fyrir ári var talað um 40--60 milljarða fyrirtæki. Maður heyrði jafnvel töluna 80 milljarða. Ég tel þó að það hafi verið helst til hátt metið. Nú tala menn um 20 milljarða. Ég spyr, herra forseti: Hvernig stendur á að almenningur á ekki að fá að kaupa núna þegar verð fyrirtækisins er í lágmarki? Hvers vegna eru aðeins 14% ætluð til starfsmanna og almennings meðan fyrirtækjum, smærri og meðalstórum fjárfestum, eru ætluð 10% þar á móti, þar sem hvert fyrirtæki á að fá 2--3%? Mér finnst vanta svör við þessu.

Ég kom aðeins inn á afstöðu okkar í Samfylkingunni. Hún hefur komið skýrt fram en fyrst að hér er viðstaddur fulltrúi úr stjórn Símans, hv. þm. Magnús Stefánsson, þingmaður Framsfl., furða ég mig á því að menn séu tilbúnir að víkja frá þeirri skoðun sinni að skilja grunnnetið frá gegn því að fjórir starfsmenn fáist til að sinna eftirlitshlutverki, annars vegar tveir hjá Samkeppnisstofnun og hins vegar tveir hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Ég velti fyrir mér hvort þeir telji það nægja til að tryggja eðlilega samkeppni. Ég minni á hversu stórt fyrirtæki Síminn er á markaði. Það þarf ekki að segja þeim sem fylgst hafa með umræðunni hver staðan er. Fyrirtækið hefur haft markaðsráðandi stöðu, notið einkaréttar og ríkisstyrkja, í ein 90 ár og hefur í ljósi þess yfirburðastöðu. Með því að selja fyrirtækið núna er verið að marka stefnu til framtíðar í fjarskiptamálum á Íslandi.

Í nál. 1. minni hluta samgn. er einmitt sýnt fram á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins. Það hefur 85% hlutdeild í tekjum á fjarskiptamarkaði og hefur mjög sterka fjárhagslega stöðu. Eigið fé fyrirtækisins er talið um 13 milljarðar og veltan á þessu ári er talin um 17 milljarðar. Landssíminn hefur yfirburðastöðu á GSM-markaði. Landssíminn rekur eina NMT-farsímakerfið hér á landi. Sömuleiðis er hann með einokunaraðstöðu í rekstri talsímaþjónustu. Auk þess má geta þess að Landssíminn hefur yfirburðastöðu í símtölum við útlönd. Landssíminn og dótturfyrirtæki hans hefur einnig markaðsráðandi stöðu á netmarkaðnum en eins og menn vita er sá markaður nátengdur fjarskiptamarkaðnum.

Menn hafa velt því aðeins fyrir sér hvort hagkvæmara hefði verið að selja Símann fyrir ári, þegar umræðan um að selja fyrirtækið hófst hér. Ég er sannfærð um að það hefði komið betur út. Þá var fyrirtækið mun hærra metið en í dag. Það hefði skilað sér betur til eigendanna ef það hefði verið selt fyrir ári. Auðvitað er alltaf erfitt að meta slíka hluti og margir þættir sem koma þar inn í.

Eins og við vitum hefur fjarskiptakerfið verið byggt upp á vegum Landssímans á kostnað skattgreiðenda. Fyrir vikið er fjarskiptakerfið sem við eigum eitt af fremstu kerfum í sinni röð, a.m.k. að mati fyrirtækisins sjálfs. Einnig er mjög öflugt sölukerfi á vegum Landssímans. Fyrirtækið hefur auk þess fjárfest í mörgum fyrirtækjum á fjarskipta- og hugbúnaðarsviði og hefur í gegnum það veruleg áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja.

Menn hafa líka velt því fyrir sér hvort fyrirtækið sé verðmætara í einu lagi eða niðurbútað. Ekki eru allir á einu máli um það enda snýst málið ekki um það. Meginverkefnið er að tryggja að eftir sölu fyrirtækisins ríki hér eðlileg samkeppni. Verði grunnnetið selt með þá er ljóst að svo verður ekki. Það verður þá fákeppni á markaðnum, þ.e. Síminn með yfirburðastöðu. Þegar önnur fyrirtæki sem eiga í samkeppni við Símann þurfa að fá aðgang að grunnnetinu og gefa upplýsingar um hvað þau hyggist fyrir í rekstri sínum þá gefur það Símanum, sem eiganda grunnnetsins, óeðlilegan aðgang að upplýsingum um rekstur þeirra fyrirtækja í samkeppni við Símann.

Það er alltaf hætta á því að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu misnoti þá aðstöðu sína. Þó ég ætli þeim það ekki fyrir fram þá er alltaf hætta á því þegar fyrirtæki er í slíkri stöðu. Það er alveg sama þó menn setji öflug eftirlitskerfi á og bæti við tveimur starfsmönnum hjá tveimur eftirlitsstofnunum. Það er mjög erfitt að sinna því eftirliti.

Menn hafa líka bent á að landsbyggðin muni líða fyrir sölu á núverandi einokunaraðstöðu í einu lagi. Menn hafa greitt margfalt fyrir þjónustuna á landsbyggðinni. Ítrekað hefur verið bent á það í umræðunni í dag að landsbyggðarfyrirtæki borgi t.d. tíu sinnum hærra verð fyrir leigulínur en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Það er furðulegt að menn skuli hafa getað rekið slík fyrirtæki úti á landi. Ég minnist þess að þingflokkur Samfylkingarinnar var á ferð um Vestfirði. Fyrirtæki sem við heimsóttum þar kvartaði sáran undan meðferðinni á sér hjá Símanum. Ég veit ekki hvort það fyrirtæki hefur lagt upp laupana en það var alla vega á brattann að sækja fyrir það vegna hins háa verðs sem það þurfti að greiða fyrir aðgang að leigulínum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í samgn. hafa líka bent á, eins og fram kemur í nál. þeirra, að þegar fyrirtæki eins og Síminn, sem er með yfirburðastöðu á markaðnum, færist úr höndum ríkisins og yfir til einkaaðila við söluna þá sé það jafnvel verri kostur þar sem einkaeinokun sé verri en ríkiseinokun.

[21:45]

Sömuleiðis benda þeir á að þessi aðferð við söluna leiði til hægari uppbyggingar hugbúnaðar- og fjarskiptageirans hér á landi en ella hefði verið. Auðvitað er það slæmt ef svo verður að þessi leið muni draga úr þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er í þessum geira.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir minntist einnig á að ef grunnnetið yrði skilið frá yrði til stórt ríkisfyrirtæki sem sneri að grunnnetinu og talaði um 450 starfsmenn. Aðrir í nefndinni hafa sagt um að þeir séu hátt í 400. Það skiptir svo sem ekki máli hvort starfsmenn eru 400 eða 450. Ef þörf er á því og nauðsynlegt að reka grunnnetið a.m.k. um nokkurn tíma sérstaklega í eigu ríkisins er það ekkert svo mikið þó starfsmenn séu 400 eða 450. Þetta er verulegur rekstur eins og komið hefur fram og er hann skilgreindur í nál. 1. minni hluta. Ég þó ætla ekki að lengja umræðuna með því að lesa það allt upp því ég tel að menn hafi farið yfir það fyrr í dag.

Aftur á móti hefur sú afstaða okkar komið fram, og ég verð að segja það sem mína afstöðu, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að einhvern tímann verði hægt að selja það fyrirtæki þegar sú staða verður komin upp í samkeppnismálum að unnt sé að selja og reka grunnnetið á samkeppnismarkaði.

Líka hefur verið bent á hvað hefur verið að gerast í fyrirtækjum annars staðar í heiminum þar sem menn hafa verið að brjóta fyrirtæki upp, þar sem stór símafyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki hafa skilið grunnnetin frá og menn talið fyrirtækin vera verðmeiri í smærri einingum. Það hefur verið að gerast víða. Það hefur verið að gerast í Bretlandi. Það hefur verið að gerast í Frakklandi og víðar. Í nál. 1. minni hluta er bent á France Télécom og British Telecom og AT&T-fyrirtækið sem er verið að skipta upp í allt að sex fyrirtæki.

Ég minntist á það áðan að það getur verið samkeppnishamlandi að grunnnetið sé áfram í eigu Símans því þá ræður Síminn ferðinni og hann getur stillt af sinn eigin rekstur miðað við hvað samkeppnisaðilarnir ætlast fyrir, bara í ljósi upplýsinga sem Síminn mundi fá frá þeim fyrirtækjum sem eru í samkeppni við hann, t.d. í því hvaða þjónustu þeir eru að óska eftir og hvenær og hvernig. Það er áhyggjuefni.

Ég talaði um að ef grunnnetið væri skilið frá væri möguleiki á því að síðar að selja það fyrirtæki þegar samkeppni væri komin á. En ljóst er að það er að hluta til samkeppni í þeirri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu þó alllangt sé í það.

Herra forseti. Ég vil segja, eins og kom fram í andsvari áðan hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að menn eru ekki að fá þjónustu hjá Símanum hér í nágrenninu, hvað þá úti á landi. Ég nefni ISDN-tengingu sem er ekki einu sinni hægt að fá upp í Mosfellssveit ef þeir staðir sem óska eftir ISDN-tengingu eru eitthvað aðeins fyrir utan eða of langt frá frá móðurstöð.

Það er því verulegt áhyggjuefni ef það ástand á eftir að vara áfram við þær aðstæður sem munu ríkja ef ríkisstjórnin hefur sitt fram, sem mér virðist að muni verða, því ekki virðist mikið hlustað á gild rök sem hafa komið fram fyrir því að skilja grunnnetið frá þó það verði ekki nema tímabundið eða í nokkur næstu ár.

Menn hafa farið yfir það líka hve erfitt er að keppa við Símann, t.d. í heimtaugakerfinu, því það er búið að afskrifa það kerfi að miklum hluta þannig að það er nánast ómögulegt fyrir önnur fyrirtæki að keppa við Símann við þær aðstæður.

Herra forseti. Ég held að ég sé ekki að hafa þetta mikið lengra. Að einu vil ég þó spyrja hæstv. ráðherra í lokin. Hvernig stendur á því, herra forseti, að landsbyggðin hefur þurft að borga svona miklu hærra gjald fyrir leigulínur en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu? Nú var ákveðið í þinginu á síðasta kjörtímabili að talsímakostnaður yrði sá sami fyrir landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Það var hægt að ákveða það með lagasetningu á þingi. Maður veltir fyrir sér hvernig standi á því að ekki er hægt að gera svipað gagnvart leigulínunum.

Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum barist fyrir því að þessi verðlagning verði jöfnuð og gerum í raun kröfu um það. Það kemur fram í áliti okkar manna í nefndinni. Við teljum að það verði að ríkja jafnræði milli fyrirtækja án tillits til þess hvar þau eru staðsett á landinu.

Herra forseti. Í tilefni þess hvernig ástandið hefur verið í byggðamálum hér á landi spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekki er fyrir löngu búið að setja lög um að verðið skuli vera hið sama alveg eins og gert var varðandi talsímaþjónustuna? Það væri fróðlegt að fá að heyra það.

Herra forseti. Ég ítreka í lokin að ég tel algjört grundvallaratriði við sölu á þessu stóra ríkisfyrirtæki að tryggt sé að samkeppni ríki á fjarskiptamarkaði. Ég óttast að svo verði ekki og er nánast viss um að svo verði ekki á meðan grunnnetið er ekki skilið frá.