Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:18:45 (8046)

2001-05-17 22:18:45# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég skal vera hraðmæltur því mér er mikið mál.

Hæstv. ráðherra segist fagna þeirri yfirlýsingu minni að menn hafi mátt vita að Síminn yrði seldur ef hann yrði gerður að hlutafélagi. Við þessi orð hæstv. samgrh. lék létt bros um varir núverandi forseta Alþingis, þáverandi samgrh., því það var hann sem sagði að ekki stæði til að selja Landssímann. Svo hann njóti sannmælis, þá sagði hann að hann gæti fullyrt það eitt að það yrði ekki gert á því kjörtímabili. Annað sagði hann ekki. Hins vegar var því haldið mjög á loft í umræðunni að einvörðungu væri verið að gera breytingu á rekstrarfyrirkomulagi, ekki stæði til að selja stofnunina.

Markaðsöflin eru býsna mikilvæg, sagði hæstv. samgrh. Við finnum fyrir þeim dag hvern. Það er mikið rétt. Við getum fundið fyrir markaðsöflunum á mismunandi vegu. Í sumum tilvikum, þegar þau raunverulega fá að njóta sín, geta þau fært niður vöruverð og bætt þjónustu. Í öðrum tilvikum finna menn fyrir markaðsöflunum.

Bandarískir hagfræðingar, Paul L. Joskow og Edward P. Kahn, sem gerðu úttekt á þróun raforkuverðs í Kaliforníu, töluðu um misbeitingu markaðsaflanna, ,,Exercise on Market Power``, kölluðu þeir það. Og fulltrúi samkeppnisaðila Símans sagði við samgn. þegar hann ræddi þessi mál þar að sú hætta væri fyrir hendi að menn mundu selja einokun og sú einokun sem væri þannig komin á markað væri varasamari en ríkisrekið fyrirtæki.

Er mikill áhugi fyrir þessu máli í samfélaginu? Já, á meðal fjárfesta, á meðal Verslunarráðsins, á meðal fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, en ekki á meðal almennings sem hafnar þessum áformum ríkisstjórnarinnar.