Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:22:24 (8048)

2001-05-17 22:22:24# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. tekur undir sjónarmið mín. Ég var að vekja athygli á því að það væru fjárfestar fyrst og fremst sem rækju á eftir einkavæðingu og sölu Landssímans. (Gripið fram í.) Þeir óska eðlilega eftir því að komast yfir þennan gullmola sem skilað hefur ríkissjóði 20.000 millj. í ríkisfjárhirslur á síðustu tíu árum. Þetta ætlar hæstv. ráðherra að láta af hendi. Að sjálfsögðu vilja lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestingaraðilar komast yfir þennan gullmola.

En ríkið, þjóðin á annað og betra skilið vegna þess að þessi kostur er einnig góður fjárfestingarkostur fyrir hana. Og það er dapurlegt að hugsa til þess hve lélega hagsmunagæslumenn þjóðin á í þeirri ríkisstjórn sem nú fer með völd í þessu landi.