Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 23:22:06 (8060)

2001-05-17 23:22:06# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[23:22]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Í umræðum um þetta mál í dag hefur komið rækilega fram að það eru í sjálfu sér engar tæknilegar forsendur sem krefjast þess að Landssíminn sé seldur, miklu frekar hins að hann sé ekki seldur. Það hefur komið fram að þjónusta Landssímans er misgóð og aðgengi að henni misjafnt eftir landshlutum. Þar er mikil mismunur á eftir búsetu, svo mikil að talið er nauðsynlegt --- einmitt núna uppgötvaðist það --- að gera stórátak til að samkeppnisástand geti skapast. Þetta hefur nú allt í einu uppgötvast.

Það hefur komið fram, herra forseti, að fyrir þá sem hafa áhuga á að selja eigur sínar og fá gott verð fyrir er þetta einn versti tíminn. Sama gildir um að selja hlutabréf í Landssímanum. Verðið er nú að líkindum í lágmarki, það getur þó kannski lækkað samt. Það verð sem þjóðin mundi fá fyrir sölu þessa fyrirtækis mun núna vera nærri lágmarki. Jafnframt hefur komið fram að til þess að líklegt væri að bréfin seldust og þau gegndu því hlutverki á verðbréfamarkaði sem nauðsynlegt þykir þá þyrfti að selja þau með töluverðum afslætti. Það þyrfti að selja þau með afslætti þannig að þeir sem hugsanlega hefðu ráð á að kaupa þau geti grætt. Ef þau yrðu seld á sannvirði, raunvirði, mundi það ekki ganga. Þá mundi enginn kaupa. Nei, ríkið verður að selja sitt á afsláttarkjörum. Það er krafa hlutabréfamarkaðarins sem er horaður og illa fram genginn nú á vordögum og stendur illa, að því er sagt er, á sumum sviðum. Þess vegna er nauðsynlegt að ríkið komi þar til og hjálpi til með því að gefa á tombóluverði fjölskyldusilfur landsmanna.

Herra forseti. Eitt fannst mér afar athyglisvert í dag í þeim umræðum og gögnum sem lögð voru fram. Það var það sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann rifjaði það upp að á síðasta þingi, fyrir um ári, var samþykkt þáltill. á hinu háa Alþingi sem fjallaði um að gera skyldi úttekt á því hvernig almannaþjónustan hefði reynst og hvernig einkavæðing og einkaframkvæmd hefði farið. Þetta var till. til þál., herra forseti, um skipan nefndar um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila þar sem flutningsmenn voru hv. þm. Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman.

Upprunalega hljóðaði þáltill. svo:

,,Alþingi ályktar að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem athugi hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar til nefndin hefur skilað álitsgerð verði öllum frekari áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og einkaframkvæmd slegið á frest.``

Í greinargerð með þessari tillögu segir, með leyfi hæstv.:

,,Á liðnu sumri hafa glögglega komið í ljós alvarlegar brotalamir á einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta á við um þætti sem lúta að rekstri og þjónustu stofnana sem hafa verið einkavæddar og ekki síður á þetta við um sjálfa framkvæmd einkavæðingarinnar. Á verðbréfamarkaði skortir aðhald og eftirlit en einnig hefur komið í ljós við sölu og undirbúning á frekari sölu fjármálastofnana að mjög skortir á að sett séu lög og reglur sem komi í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi í samræmi við yfirlýstan vilja stjórnvalda.``

Herra forseti. Þessi till. til þál. fór til efh.- og viðskn. og fékk þar afgreiðslu sem ég vil leyfa mér að gera grein fyrir, með leyfi forseta. Í nál. um þáltill. um skipan nefndar um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila frá efh.- og viðskn. segir:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir frá Verslunarráði Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Samtökum iðnaðarins.

Tillögugreinin gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem athugi hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila og að slegið verði á frest öllum frekari áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og einkaframkvæmd þar til nefndin hefur skilað álitsgerð.

Nefndin leggur til breytingu á tillögugreininni. Leggur hún til að umræddri nefnd verði falið að gera samanburð á þróun og reynslu af breytingum í tengslum við einkavæðingu og einkaframkvæmd. Telur nefndin eðlilegt að við þá vinnu verði m.a. könnuð reynsla af einkavæðingu og einkaframkvæmd í almannaþjónustu hér á landi og í þeim ríkjum sem gengið hafa lengst í einkavæðingu, svo sem Bretlandi og Nýja-Sjálandi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd, sem í verði m.a. fulltrúar allra þingflokka, sem geri samanburð á þróun og reynslu af breytingum í tengslum við einkavæðingu og einkaframkvæmd og fjalli um framtíðarkosti í þeim efnum.``

Herra forseti. Þessi þáltill. var samþykkt á 125. löggjafarþingi 1999--2000.

[23:30]

Mér finnst þetta afar athyglisvert. Ég óska einnig eftir að forseti upplýsi hvar sú vinna er á vegi stödd sem gert var ráð fyrir að þessi þáltill. setti í gang. Ég held að það sé afar mikilvægt að við fáum það upplýst áður en umræðunni lýkur hér um þetta stóra mál um einkavæðingu og sölu á almannaþjónustufyrirtækinu Landssíma Íslands hf., að við fáum skýrslu um hvernig þessi nefnd hefur unnið og að hvaða niðurstöðum hún hefur komist varðandi einkavæðingu eins og ég hef tilgreint að tillagan fjallar um því að einmitt í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í dag lýsti hann því afar ítarlega hvernig farið hefur á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu. (Samgrh.: Við heyrðum þá ræðu.) Já, hæstv. samgrh. heyrði einmitt þá ræðu og það var afar gott að hann skyldi heyra hana. (Samgrh.: Alveg óþarfi að endurtaka hana.) Nei, ég ætlaði ekki að gera það, herra forseti, en ég ætlaði einmitt að ítreka að hún undirstrikaði mikilvægi þeirrar þáltill. sem ég var að vitna í. Vonandi getur hæstv. samgrh. einmitt beitt áhrifum sínum til þess að þessi nefnd kynni álit sitt fyrir Alþingi.

Herra forseti. Ég bendi á að greinilegt er að í umsögn meiri hluta samgn. skín í gegn að meiri hlutanum kom á óvart hvernig staðan var í dag í fjarskiptamálum á landinu, hversu þar var í raun lítil samkeppni og hversu mikil mismunun var á milli einstakra landshluta og eftir búsetu fólks í aðgengi að þessari þjónustu. Hv. samgn. reynir aðeins að klóra yfir hina lélegu vinnu sem liggur að baki þessu frv. um mat á þeirri stöðu sem er nú þegar og hvernig hún verður óhjákvæmilega í næstu framtíð því að meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að átak þurfi að gera til að bæta þarna úr, svo slæmt sé ástandið, og lætur í það skína að í rauninni sé ekki að vænta neins samkeppnisástands fyrr en gert hafi verið stórátak í að jafna þau skilyrði sem eru nú þegar ójöfn á landinu. Þó er gott til þess að vita að það hafi þó aðeins síast inn.

Varðandi þá vinnu sem meiri hlutinn er að leggja til að þurfi að ráðast í og þurfi að knýja samgrn. til, að vinna að tillögum og raunhæfum tillögum og staðfestum úrbótum á þessum vettvangi, þá skal ekki skorta að ég styðji þar að eftir því sem mögulegt er, ekki nokkur vafi á því, og vona að sú vinna fari strax í gang og þetta sé ekki glamuryrði heldur raunhæft.

Herra forseti. Ekki höfðu margir sem tök á því að skila skriflegum álitum til samgn. um þetta mál. Ég vil þó vitna örstutt í álit þróunarsviðs Byggðastofnunar sem skilaði áliti, aðeins til að undirstrika mikilvægi þess sem hér er um að ræða, með leyfi forseta:

,,Ljóst er því að ein af meginforsendum byggðaaðgerða í nútímasamfélagi er að landsmönnum öllum sé tryggður jafn aðgangur að fjarskipta- og gagnaflutningakerfum og á sambærilegum kjörum. Byggðastofnun hefur átt viðræður við forsvarsmenn Landssíma Íslands hf. um þetta málefni. Átt hefur sér stað mikil uppbygging á dreifikerfi Landssímans um landið mestallt, og má þar nefna uppbyggingu ljósleiðara og ATM-kerfisins. Jafnframt hefur Landssíminn lækkað gjaldskrá sína á þessari þjónustu. Þessar breytingar og þau markmið sem fyrirtækið hefur sett sér um uppbyggingu fjarskiptakerfisins og þjónustuframboð hafa stórlega bætt samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem aðgengi og möguleikar almennings hefur batnað. Aðstaða er þó enn ekki jöfn um allt land. Ljósleiðarinn og ATM-kerfið nær nú einungis til nokkurra tengipunkta í stærri þéttbýliskjörnum, en áætlun um uppbyggingu kerfisins gerir ráð fyrir öllu þéttbýli með >150 íbúa (63 staðir) og 3 skólasetur. Önnur byggðarlög verða síðan að tengjast þessum tengipunktum með leigulínum. Nefna má að einingaverð (km-gjald) á leigulínum er enn óeðlilega hátt og töluvert úr samræmi við nágrannalönd okkar. Þetta kemur sérstaklega að sök á stærri línum sem eru 30 km og lengri.``

Herra forseti. Þarna er mjög hógværlega greint frá en þó alveg ljóst að þarna er verið að undirstrika þá miklu mismunun sem hér er á ferðinni.

Og áfram, með leyfi forseta:

,,Eitt af því sem getur staðið í vegi fyrir uppbyggingu þróaðra fjarskiptaneta í dreifbýli er krafa um hagnað.``

Hógværlega sagt, en engu að síður alveg tæpitungulaust.

,,Vegna lægri kostnaðar við flutning gagna og stærri markaðar er hagnaður mestur á þéttbýlustu svæðunum. Fjarskiptafyrirtæki velja því oftast að þjóna þessum markaði fyrst og auka þannig ójöfnuð svæða.

Það er því mat Byggðastofnunar að verði samþykkt að selja hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands, sé nauðsynlegt að tryggð verði áframhaldandi uppbygging og viðhald dreifikerfis Landssímans á landsbyggðinni í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda, og að fyrirtækjum og almenningi og verði tryggt jafnt aðgengi að gagnaflutninga- og fjarskiptakerfi Landssímans óháð staðsetningu og búsetu.``

Herra forseti. Það er alveg skýrt dregið þarna fram að aðstaðan sé ójöfn og þetta sé forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu hvar sem er á landinu og á það leggur þróunarsvið Byggðastofnunar ríka áherslu.

Herra forseti. Ekkert krefst þess að Landssími Íslands hf. sé seldur. Hann er ekki í neinu sérstöku fjársvelti eða neinum vandamálum hvað rekstur varðar þannig að ekki rekur það á eftir. Það er ljóst að hann er öflugt fyrirtæki. Það hefur komið fram hér að hann skilar ríkum tekjuafgangi sem mætti þess vegna nýta beint eða óbeint til að byggja og efla dreifikerfið og þjónustuna um land allt. Því er afar rangt að taka nú þetta þjónustufyrirtæki, þessa almannaþjónustu og setja hana á torg markaðsins, á torg mammons, þegar hún hefur miklu mikilvægara hlutverki að gegna fyrir landsmenn alla hvarvetna á landinu. Það á að nýta og beita styrk Landssíma Íslands til að koma á raunverulegum jöfnuði í fjarskiptum um allt land og efla það starf til framtíðar. Til þess eigum við að beita Landssíma Íslands en ekki til þess að búta hann í sundur og senda hann á torg mammons.

Herra forseti. Ég hef vakið athygli á að undirbúningur á þessu frv. um sölu á hlutafé í Landssíma Íslands er afar slæmur. Ekki aðeins er vinna sem einkavæðingarnefnd hefur skilað til ríkisstjórnarinnar og hæstv. ríkisstjórn síðan unnið úr afar léleg og illa rökstudd heldur og var vinna í samgn. líka unnin í miklu flaustri. Það var fjarri því að samgn. og þingið hafi fengið þann nauðsynlega tíma sem þurfti til að taka á svona stóru og miklu máli sem hér er um að ræða. Ég vek athygli á því að það var nánast engin umfjöllun í nefndinni, enda hún ekki tækninefnd, um efnahag, viðskipti og áhrif sölu Landssímans í peningamálum. Þess vegna óskaði ég eftir því að efh.- og viðskn. gæfi umsögn um málið en því var hafnað. Enda virðist það ekki vera meginmál. Meginmálið virðist vera að selja því að rök langflestra sem komu fyrir samgn. voru andvíg þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar og töldu að það ætti að vinna hana með öðrum hætti af ýmsum ástæðum sem þeir þá tilgreindu.

Herra forseti. Ég vildi ítreka þá tillögu sem ég gerði grein fyrir í upphafi þegar ég mælti fyrir áliti 2. minni hluta samgn. og hefur ekkert komið fram í þessum umræðum sem hvetur mig til þess að breyta um skoðun, miklu frekar hitt að allt hefur leitt að því að þetta sé afar óundirbúið mál og reyndar, eins og nú liggur fyrir, til tjóns fyrir land og þjóð. Þess vegna ítreka ég að frv. um sölu ríkissjóðs á hlutafé Landssíma Íslands hf. var lagt mjög seint fram eða rúmum mánuði eftir að almennur frestur til framlagningar nýrra þingmála var liðinn. Um er að ræða umfangsmikið og flókið mál sem krefst ítarlegrar umræðu og yfirvegunar í æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi. Samgn. hefur ekki á þeim stutta tíma sem henni var gefinn til verksins tekist að fara fullnægjandi yfir málið. Mikil hætta verður að teljast á því að hagsmunum landsbyggðarinnar verði fórnað verði af umræddri sölu Landssímans. Hvorki samkeppnislegar né tæknilegar forsendur eru til staðar til að umrædd sala geti átt sér stað. Rétt er að reka Landssímann hf. áfram sem opinbert þjónustufyrirtæki og beita styrk fyrirtækisins til áframhaldandi uppbyggingar fjarskiptakerfisins og til að tryggja öllum landsmönnum góða þjónustu án tillits til búsetu.

Samkvæmt framansögðu, herra forseti, legg ég til við Alþingi að það vísi þessu máli frá og taki fyrir næsta mál á dagskrá.