Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 23:42:34 (8061)

2001-05-17 23:42:34# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[23:42]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fátt nýtt kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. Það hefur legið fyrir að hann og flokkur hans eru á móti einkavæðingu, vilja að sem flest fyrirtæki séu rekin af ríkinu og á ábyrgð ríkisins og gera sér ekki grein fyrir þeirri stöðnun sem slíkt fyrirkomulag hefur fyrir efnahagslífið og yfirleitt framvinduna í þjóðfélaginu þó mörg dæmi séu um það. Þess vegna má segja að ræða hans sé eðlileg út frá forsendum hans. Við getum líka sagt að eðlilegt sé t.d., svona til samanburðar undir miðnættið, hvernig ræða hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvíks Bergvinssonar, var áðan þegar hann rakti í fjölmörgum orðum, ég man ekki hvort það tók 40 mínútur að fara með þá runu, hvers vegna Alþfl. vildi alls ekki selja Símann í heilu lagi. Hann undraðist m.a. á því að ég skyldi á sínum tíma hafa sagt --- það var 1992 --- að ég mundi í fyrirsjáanlegri framtíð sjá fyrir mér að helmingurinn af Símanum yrði seldur. Þá var ég auðvitað að egna fyrir kratana því að þeir voru á móti því að selja Símann og á móti því að selja ríkisbankana, hvort tveggja. Ég man eftir mjög einörðum yfirlýsingum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar um þessi efni hér yfir í Landssímahúsi.

Að þessu leyti stendur Samfylkingin sem sameiningartákn vinstri aflanna að þessir tveir flokkar eru eins og áður á móti frjálsum viðskiptum, á móti einkavæðingu og á móti því að láta markaðinn vera allsráðandi í þjóðfélaginu sem auðvitað er sá kostur sem við sjálfstæðismenn þykjumst hafa sýnt sönnur fyrir að sé sá besti.