Málefni smábáta og starfsáætlun þingsins

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:05:30 (8079)

2001-05-18 10:05:30# 126. lþ. 128.91 fundur 563#B málefni smábáta og starfsáætlun þingsins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru tvö skyld mál sem ég vil taka upp við forseta undir þessum lið, um störf þingsins. Það fyrra er að vekja athygli á þeirri staðreynd sem er væntanlega flestum ljós að upp er runninn sá ágæti dagur 18. maí anno domini 2001. Á þeim degi stóð til að ljúka störfum þingsins. Engu að síður háttar svo til að 61 mál er á dagskrá þess fundar sem nú er hafinn og ekki mjög skipulega má segja að verki staðið að ýmsu leyti, herra forseti. Við þingmenn verðum ekki mikið varir við það að hér sé komið skipulag á hlutina og menn séu eitthvað farnir að sjá til lands. Ætli það sé því of djúpt í árinni tekið að segja að heldur óbjörgulega horfi um það að starfsáætlun virðulegs forseta standist þetta árið og við ljúkum störfum á eðlilegum tíma undir kvöldið eins og ætla hefði mátt miðað við starfsáætlun. Ég tel því, herra forseti, full efni til að leggja spurningar fyrir forseta hvað það varðar. Hvers er að vænta um þinghaldið á næstu klukkutímum? Hvenær reiknar hæstv. forseti með að geta fundað með þingflokksformönnum og gefið út einhverjar línur um það að hverju er stefnt? Eiga menn að reikna með því að vera hér næstu viku og þarnæstu viku jafnvel eða fram að Jónsmessu eins og hent hefur?

Líka er nauðsynlegt, herra forseti, að það komi fram ef hæstv. ríkisstjórn hefur ekki náð að koma sér saman um mál sem hafa áhrif á þinghaldið, eins og það hvort fresta eigi enn þeirri kvótasetningu meðafla smábáta sem gert var í fyrra og nokkuð ljóst er að meiri hluti er fyrir á þinginu.

Ég vil einnig, herra forseti, biðja hæstv. forseta að vekja athygli ákveðinna ráðuneyta á því eða hæstv. ráðherra að fyrir liggja skriflegar fyrirspurnir, fyrirspurnir með beiðni um skriflegt svar. Þannig hef ég lagt fyrirspurnir fyrir bæði hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands, sem mun heita Davíð Oddsson, og eins fyrir hæstv. utanrrh. þar sem óskað er skriflegra svara við einföldum spurningum. Ég óska eftir því að þingið veki athygli viðkomandi ráðherra á því að enn er beðið svara við þessum fyrirspurnum.