Málefni smábáta og starfsáætlun þingsins

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:08:48 (8081)

2001-05-18 10:08:48# 126. lþ. 128.91 fundur 563#B málefni smábáta og starfsáætlun þingsins# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:08]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Eins og kom fram áðan er 61 mál á dagskránni og má búast við því að einhver mál eigi eftir að koma á dagskrá. Það mál sem nefnt var í upphafi, þ.e. hvort ætti að láta kvótann ganga yfir smábátana í haust, hefur ekki komið fram. Ég á sæti í sjútvn. og þar inni liggur frv. sem gerir ráð fyrir frestun með sama hætti og gert var í fyrrahaust. Þetta frv. hefur verið rætt á einum fundi og fengnir voru hagsmunaaðilar á fundinn til að ræða málið en síðan hefur ekkert í því gerst á fundum sjútvn.

Ég á líka sæti í endurskoðunarnefndinni um stjórn fiskveiða. Hún hefur ekki verið kölluð saman. Ekki hefur verið gerð tilraun til að kalla hana saman að undanförnu. Nokkrar tilraunir voru gerðar fyrir nokkrum vikum til að kalla saman fund í þeirri nefnd en ævinlega var þeim fundum síðan frestað og að vísu nýr boðaður og aftur frestað og engir fundir hafa verið boðaðir í þeirri nefnd. Ég á því ekki von á því að þar skili menn tillögum alveg á næstunni í þessu máli. Ég býst við því að hér séu menn að hugsa til eitthvað lengra þinghalds, eitthvað fram á sumarið miðað við þann hraða sem er á undirbúningi þessara mála. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi kannski gert ráðstafanir miðað við það að þingið lyki störfum á þessum tíma þannig að full ástæða er til þess að spyrja hæstv. forseta: Við hverju mega hv. þm. búast? Þurfa þeir kannski að breyta hugmyndum sínum um sumarfrí og annað til að geta verið eitthvað fram eftir við það að koma málum ríkisstjórnarinnar í höfn sem á eftir að afgreiða héðan?