Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:08:41 (8092)

2001-05-18 11:08:41# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þeirri brtt. sem hér liggur frammi vildi ég gjarnan fá að spyrja hv. þm. aðeins. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. telji að ríkið eða eigendur Landsbankans og Búnaðarbankans hafi verið að blekkja hluthafa í skráningarlýsingu þegar verið var að auka hlutaféð í Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Nú liggur alveg fyrir að stefnan hefur verið sú að reka þessa banka á mjög hagkvæman hátt og hagræða í rekstri þeirra eins og þurft hefur verið til að bankarnir skiluðu arði og þeir væru reknir á sömu forsendum og önnur fyrirtæki hvað það snertir. Ég sé því ekki að nein breyting verði á stöðu starfsmanna frá því að ríkið hafi meirihlutaaðild í bankanum yfir í að ríkið verði minnihlutaaðili í bankanum. Ég tel að helsta breytingin sem hafi hugsanlega orðið á stöðu starfsmanna hafi verið þegar bankanum var breytt í hlutafélag.

En þá vek ég athygli á því að áður en bankanum var breytt í hlutafélag voru miklu viðameiri uppsagnir og fækkun á fólki, sérstaklega í Landsbankanum heldur en nokkurn tíma eftir að bankanum var breytt í hlutafélag. Ég hygg að hv. þm. viti vel um það. Þess vegna spyr ég: Telur hv. þm. að einhverjar blekkingar hafi verið á ferðinni í skráningarlýsingunni þegar bankarnir fóru á hlutabréfamarkaðinn?