Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:12:37 (8094)

2001-05-18 11:12:37# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel í ljósi svars hv. þm. að í rauninni sé ekki þörf á þessari tillögu. Það liggur að sjálfsögðu fyrir að til þess að geta náð árangri í rekstri þessara banka þarf að koma þannig fram gagnvart starfsfólki að því finnist að það sé hluti af bankanum og vilji vera með í því að ná árangri í bönkunum.

Það er hlutverk stjórnendanna að sjá til þess að fólk sem er í störfum sem eru kannski að hverfa eigi kost á endurmenntun og starfsfólkið fái að þróast með þeirri tækni og þeim breytingum sem eru að verða í þessari starfsemi. Það getur enginn ráðherra stjórnað starfsmannamálum í Landsbankanum eða Búnaðarbankanum þrátt fyrir að fara með eignarhlut ríkissjóðs í þeim bönkum.

Annað mál er það, sem kemur einnig fram í tillögu hv. þm., að leita eigi samþykkis Seðlabankans við sölu hlutabréfa. Það er bara ekkert á valdi Seðlabankans og ekki á verksviði Seðlabankans að veita samþykki sitt fyrir sölu á fyrirtækjum. Það er að vísu á valdi Seðlabankans að geta ráðið ýmsum tímasetningum á stórum útboðum. Það er í seðlabankalögunum og hann þarf engar sérstakar heimildir til þess í þessu frv. Ég tel því að þetta sé algerlega óþarft.

Einkavæðingarnefnd mun að sjálfsögðu leita til þessara aðila um mat á stöðunni hvort sem um er að ræða stöðuna í efnahagsmálunum eða á fjármálamarkaðnum og enga brtt. þarf til þess að menn vinni vinnu sína eins og eðlilegt er.