Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:17:34 (8096)

2001-05-18 11:17:34# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér er verið að ræða mál sem hefur mikla þýðingu nánast hvernig sem á það er litið. Verðmæti bankanna sem stendur til að selja var í byrjun árs metið á yfir 40 milljarða kr. Þar af er eignarhlutur ríkisins um 30 milljarðar en bankar eru ekki aðeins verðmæt eign heldur eru þeir náttúrlega fyrst og fremst fjármála- og þjónustustofnanir við almenning og efnahagslíf. Ábyrgð Alþingis er því mikil þegar ákvarðanir í þessu efni eru teknar, bæði í efnahagslegu tilliti en einnig hvað varðar þjónustu við almenning og atvinnulíf að hún sé tryggð á sem bestan hátt.

Á Íslandi búum við við þingræðisskipulag. Alþingi er kjörið í lýðræðislegum kosningum og við þann meiri hluta sem myndast á Alþingi styðst síðan framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin. Mörg okkar viljum styrkja þetta form, styrkja völd og áhrif Alþingis bæði sem eftirlits- og aðhaldsaðila og sem sjálfstæðrar löggjafarsamkundu.

Oft er því haldið fram að Alþingi eða öllu heldur stjórnarmeirihlutinn sé of háður framkvæmdarvaldinu. Á þessu er eflaust allur gangur og menn mega vissulega ekki gleyma því að umræða á Alþingi og störf alþingismanna eru ekki öll sýnileg. Þau fara ekki fram í þessum sal. Þau fara einnig fram í nefndum og þau fara fram í þingflokkum. Þar eru iðulega hin pólitísku álitamál gerð upp og efast ég ekkert um að jafnvel í stjórnarflokkunum komi oft fram gagnrýni og ágreiningur sem fer ekki hátt utan veggja fundarherbergjanna. E.t.v. er þetta óskhyggja af minni hálfu að stjórnarmeirihlutinn láti ekki leiða sig gagnrýnislaust eins og oft virðist vera, jafnvel í málum sem ætla má að ágreiningur hafi verið um. Þar vísa ég í hitamál þessa þings, síðast banns sem sett er á verkfall sjómanna og afnám samningsréttar þeirra í langan tíma, ég vísa til öryrkjadómsins og frv. ríkisstjórnarinnar, ég vísa til Landssímamálsins og ég vísa nú til þess máls sem hér er til umræðu, sala á hlut ríkisins í bönkunum.

Hér fór fram gær ágæt og ítarleg umræða um sölu Landssímans. E.t.v. tek ég of djúpt í árinni þegar ég segi að hún hafi verið ágæt. Ítarleg var hún af hálfu sumra þingmanna en með mjög misjöfnu sniði var hún þó. Annars vegar voru menn úr stjórnarandstöðu að reyna að knýja fram svör og rök fyrir því að Síminn yrði seldur á markað en í reynd var því einu svarað að það væru pólitísk markmið ríkisstjórnarinnar að selja Landssímann á sama hátt og er nú rætt um að selja hlut ríkisins í bönkunum af pólitískum ástæðum. En pólitíkin byggist á þeirri trú að markaðurinn og frjáls samkeppni færi notandanum bæði betri þjónustu og einnig ódýrari, þ.e. þegar samkeppni er fyrir hendi. En efasemdir manna hér í salnum, á Alþingi og í þjóðfélaginu lúta einmitt að því að svo muni ekki verða heldur verði um að ræða einokun, samkeppni verði ekki fyrir hendi og neytandinn muni þar af leiðandi ekki njóta góðs af þessum ráðstöfunum. Út á þetta hefur gagnrýni stjórnarandstöðunnar byggst og viljað búa svo hnútana að ekki verði farið út í þessa ráðagerð, a.m.k. að svo komnu. Menn hafa vakið athygli á því hve miklum arði eignir þjóðarinnar hafa skilað henni í tilviki Landssímans, 20 þús. millj. á síðustu 10 árum og enn er stofnunin aflögufær, skilaði í hagnað á síðasta ári 6.500 millj. fyrir afskriftir og fjármagnsliði og ég endurtek að enn er stofnunin aflögufær. Síðan hefur komið í ljós að menn gera sér fyllilega grein fyrir því að einkavæðing þessarar starfsemi gæti leitt til rýrari þjónustu, einkum á landsbyggðinni. Í álitsgerðum stjórnarmeirihlutans er sérstaklega fjallað um hvernig ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið getur beitt sér í verkefnum sem eru óarðbær. Þau verða látin skattgreiðandanum eftir en gullmolinn verður tekinn frá þjóðinni.

Í framhaldinu hafa menn lýst áhyggjum og dapurleika yfir því að búa við ríkisstjórn sem stendur sig eins illa í hagsmunagæslu fyrir almenning. Hvorki ætlar hún að tryggja eignir hennar né að tryggja að þjónustan verði sem best verður á kosið. Þetta verður allt í himnalagi segja menn hins vegar og halda því fram að lokun pósthúsa á landsbyggðinni leiði til öflugri póstþjónustu. Því var haldið fram í gær og menn virða að vettugi undirskriftalista 200--300 Skagfirðinga sem andæfa slíku og hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar stígur í pontu og segir að sjálfsögðu að þetta sé öllum fyrir bestu og þegar allt komi til alls batni þjónustan við að loka þessum úibúum. Þetta er innihald þeirrar umræðu sem hefur farið fram.

Ég leiddi áðan að því getum að það væri ríkisstjórnin sem réði för í þingsalnum að of miklu leyti, sá meiri hluti sem hún styðst við láti ekki nóg í sér heyra þó svo kunni vel að vera að fram fari gagnrýnni umræða á þingflokksfundunum. En e.t.v. er þetta óskhyggja af minni hálfu.

Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að miklar kröfur eru um það í þjóðfélaginu að eignir þjóðarinnar verði seldar. Þær kröfur koma frá fjármagnseigendum, þær koma frá stórfyrirtækjum, þær koma frá Verslunarráðinu og þær koma frá samtökum atvinnulífsins en almenningur hefur hins vegar ekki verið spurður og við á Alþingi eigum að tala máli fólks utan veggja Alþingis. Þar eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um þessi efni en þó er hægt að gera þá frumkröfu og grundvallarkröfu að menn færi a.m.k. góð rök fyrir máli sínu.

Ríkisstjórnin skipaði sérstaka einkavæðingarnefnd til að leggja línurnar um einkavæðinguna og það sem hún segir á jafnt við um bankana sem aðrar stofnanir sem eru einkavæddar. Ég hef áður gert grein fyrir þeim grundvallarreglum sem einkavæðingarnefndin hefur sett fram og ríkisstjórnin hefur kokgleypt og kom mér ekki á óvart að Sjálfstfl. mundi gera það. Það vakti heldur meiri furðu að Framsfl. skuli hafa skrifað upp á liðina sjö alla saman. Þar er því einfaldlega haldið fram að aukin samkeppni muni auka skilvirkni í þjóðfélaginu og að markaðsöflin séu alla jafnan betri trygging fyrir skynsamlegri nýtingu framleiðsluþáttanna en ríkisafskipti. Bent hefur verið á að allur gangur er á þessu. Engin trygging er fyrir því þótt starfsemi sé markaðsvædd og hún sett á markað að markaðsöflin starfi á grundvelli samkeppninnar. Það gerðist ekki í Kaliforníu svo dæmi sé tekið og ég hef vitnað í álitsgerðir hagfræðinga sem hafa talað um markaðsöflin sem þar voru að verki, að þeim hafi verið ... (VE: Voru það ekki einhverjir demókratar sem klúðruðu þessu í Kaliforníu? Það er allt í lagi hjá Bush í Texas.) Það er allt í lagi hjá Bush í Texas, einhverjir demókratar sem klúðruðu málum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að ég hef aldrei verið upptekinn af því hvað flokkar kalla sig. Ég spyr um þá stefnu sem þeir fylgja hvaða nafni sem þeir kalla sig. Ég efast ekkert um að demókratar í Bandaríkjunum hafi iðulega fylgt hægri sinnaðri stefnu og ég gagnrýni hana ekkert síður en þegar repúblikanar eiga í hlut.

En það sem þessir hagfræðingar vísuðu í var misbeiting markaðsaflanna, The Exercise of Market Power, svo ég vísi í enska skilgreiningu þeirra á því sem gerðist í Kaliforniu. Þar myndaðist einokunarvald sem var síðan misbeitt á markaðnum. Þetta er ein grundvallarástæðan fyrir því að við vörum við þessari miklu einkavæðingu ríkisstjórnarinnar og það á við jafnt um Símann sem bankana. Við höfum varað við því að án skýrra ákvæða í lögum sem tryggi dreifða eignaraðild sé sú hætta fyrir hendi að sömu aðilar og eru að safna á sínar hendur fjármunum og völdum í viðskipta- og efnahagslífi muni einnig komast yfir þessar fjármálastofnanir. Þetta er ekki ólíklegt að muni gerast. Við þessu höfum við varað þannig að þessi fyrsta staðhæfing sem sett er fram fyrir hönd Sjálfstfl. og Framsfl. um ágæti markaðshyggjunnar stenst ekki sem alhæfing.

[11:30]

Í öðru lagi er talað um að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum og reynslan sýni að meiri faglegar kröfur séu gerðar til stjórnenda og þeir fái meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðingu. Við höfum varað við því að torvelda aðkomu aðila sem bera mismunandi sjónarmið inn í þessar stofnanir. Þannig var þetta í ríkisbönkunum. Þar komu að aðilar úr öllu hinu pólitíska litrófi en ekki aðeins merktir einum lit, ekki aðeins sjálfstæðismenn eða frjálshyggjumenn, hvort sem þá er að finna í Sjálfstfl. eða öðrum stjórnmálaflokkum.

Síðan tala menn um mikilvægi þess að efla hlutabréfamarkað, að öflugur innlendur hlutabréfamarkaður sé mjög þýðingarmikill fyrir alla efnahagsstarfsemi og að slá megi á þenslu með því að hvetja almenning til þátttöku í atvinnurekstri með hlutafjárkaupum. Þetta tel ég ekki standast heldur, að hlutafélagsformið sé í öllum tilvikum hagstætt og gott fyrir efnahagslífið. Það hafa verið leidd rök að því, m.a. í Bandaríkjunum, að óheppilegt sé að starfsemi sem þarf að vera til staðar öllum stundum byggi á hlutabréfaeign. Það er nefnilega mikill munur á því þegar fyrirtæki eru í eigu þeirra sem eru rótfastir á staðnum og hinu þegar eigandinn hugsar aðeins um arðinn, er fjarri starfseminni og færir eignarhlut sinn eftir því hvernig vindarnir blása. Þá getur það hent að fyrirtæki og stofnanir sem lenda í erfiðleikum verði skildar eftir á köldum klaka, að eigendurnir, gróðafíklarnir, forði sér þegar á móti blæs og skilji stofnunina eftir í sárum. Af þessum eiga þessi rök ekki heldur við.

Síðan er talað um að bæta stöðu ríkissjóðs, að með sölu á hlutabréfum ríkisins sé unnt að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni. Þetta er náttúrlega skammtímasjónarmið. Það er rétt, að á meðan verið er að selja og peningarnir, andvirðið, rennur í ríkissjóð þá kemur það ríkissjóði að notum en það er skammgóður vermir. Staðreyndin er sú að þegar menn losa sig við eignir sem skila ríkissjóði miklum tekjum þá er þetta nokkuð undarleg hagfræði. MacMillan, fyrrv. forsætisráðherra Breta, talaði um að menn ættu ekki að selja fjölskyldusilfrið og vísaði þá í stefnu Margrétar Thatcher.

Talað er um að bæta hag neytenda, að með þeirri hagræðingu sem hljótist af einkavæðingu séu líkur á því að samkeppni á markaði aukist sem skili sér í bættum hag neytenda. En þá þarf samkeppni að vera fyrir hendi. Það efast menn um að gerist og um það hefur einnig verið rætt í bankamálunum. Þegar við skoðum útibúakort landsins, hvar þau er að finna, þá er það staðreynd að ríkisbankarnir eru með útibú um landið allt en Íslandsbanki hefur aðeins verið með útibú á fjölmennari stöðum. Ég held að ástæðan sé sú að enn eimi eftir af þessari þjónustuhugsun í ríkisbönkunum, að þeim beri að sjá landsmönnum öllum fyrir þjónustu.

Einnig er talað um að einkavæðingin og salan styrki stöðu starfsmanna, að einkavædd fyrirtæki hafi meiri möguleika en ríkisfyrirtæki til að greiða góðu starfsfólki há laun, m.a. með árangurstengdum launakerfum ásamt því að tryggja atvinnu til langframa. Það er reyndar svo að árangurstengd launakerfi hafa verið innleidd hjá hinu opinbera í nokkuð ríkum mæli en ekki alltaf með mjög góðum árangri. Slík launakerfi hafa ekki alltaf skilað meiri árangri en þau hafa án efa fært mörgum góðum starfsmönnum kjarabætur. Vandinn er sá að hinir sem ekki eru skilgreindir góðir, á forsendum forstjóranna, hafa borið skarðan hlut frá borði. Að mínu mati er það um of þrátt fyrir góðan vilja stéttarfélaganna að bæta hag þeirra og berjast fyrir því.

Í síðasta lagi er talað um að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr hagsmunum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu og framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir. Þetta er náttúrlega alveg fráleitt vegna þess að sérhagsmunahópurinn sem kemur til með að ráða öllu eru fjármagnseigendur. Þeim er þjónað í einu og öllu en fólkið látið sitja á hakanum, nema þeir sem eru arðvænlegir neytendur. Þess vegna verður þjónustustofnunum lokað þar sem þjónustan er ekki arðvænleg. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir lokun útibúa póstsins á landsbyggðinni. Ég efast því miður ekki um að hið sama kunni að henda varðandi útibú bankanna, að einhverjum þeirra verði lokað. Enda mættu talsmenn Byggðastofnunar á vettvang þegar þessi umræða hófst og ræddu um möguleika á lánastarfsemi af hálfu þeirrar stofnunar, eftir að bankarnir hefðu verið einkavæddir. Þeir töldu að þá mundi myndast tómarúm sem þyrfti að fylla. Þetta eru bara staðreyndir málsins.

Ég hafna algerlega þeim sjónarmiðum sem þarna eru sett fram og tel þau engan veginn standast rökræðu. Fátt hefur hins vegar verið um svör. Ég vil ræða tvo þætti sérstaklega. Annars vegar starfsmannamálin og hins vegar verðgildi bankanna.

Hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir sagði við 2. umr. þessa máls að hún væri mjög áhugasöm um starfsmannamál. (MS: Efastu um það?) Já, ég efast stórlega um að sá áhugi sé raunverulegur. Ég vísa þar t.d. í réttindabaráttu starfsmanna Byggðastofnunar og annarra stofnana sem hafa verið fluttar út á land, þar sem starfsmenn hafa þurft að berjast blóðugri baráttu fyrir grundvallarréttindum sínum. Það er staðreynd. Þegar Samband íslenskra bankamanna óskar eftir því að ekki verði ráðist í þessar breytingar fyrr en gengið hafi verið frá ýmsum þáttum sem tengjast starfsmannamálunum þá er því algerlega hafnað. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt fram brtt. við þetta frv. Þar er gert ráð fyrir því að fulltrúar starfsmanna fái aðild í stjórn þessara bankastofnana. Einnig því er hafnað. Hæstv. viðskrh. sagðist ekki munu samþykkja það en lýsti því yfir, nánast í sama orði, að hún væri afskaplega áhugasöm um starfsmannamál. Þetta lýsir ekki raunverulegum áhuga, því miður.

Annað atriði sem ég vildi nefna sérstaklega er verðgildi bankanna. Þegar þessi stefna ríkisstjórnarinnar var upphaflega kynnt og fyrstu frumvörpin samkvæmt henni sett fram þá voru birt í greinargerð með frumvörpunum loforð eða fyrirheit um að bankarnir yrðu ekki seldir nema tryggt væri að gott verð fengist fyrir þá. Út frá því var gengið í þessum greinargerðum, sem ég finn ekki í augnablikinu.

Samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar og ráðherra treysta menn sér ekki til að segja nákvæmlega til um hvenær ríkisbankarnir verði seldir að öðru leyti en því að það skuli gert á kjörtímabilinu, að á næstu tveimur árum verði hlutur ríkisins í bönkunum seldur. En hvert er verðgildi bankanna núna? Verðgildi bankanna í byrjun árs var metið á 43,3 milljarða kr. Síðan hefur það gerst, á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru frá áramótum, að þeir hafa hrapað verulega í verði. Samkvæmt síðustu upplýsingum er verð bankanna núna metið á 38,3 milljarða kr. Þeir eru komnir niður í 38,3 milljarða kr. og hafa þannig rýrnað að verðgildi um 5 milljarða kr., þ.e. um 11%. Þá er von að fólk spyrji: Ætlar ríkisstjórnin að selja hlut sinn í bönkunum við þessar aðstæður? Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á mjög ábyrgðarlausri yfirlýsingu sem hér var sett fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í umræðu um einkavæðingu í gær --- eða hvort það var fyrr að hæstv. samgrh. lét eftirfarandi ummæli falla. Samgrh. sagði á Alþingi, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður getur ekki komið fram eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínu út á sem hæstu verði á kostnað almennings sem kaupir þær í góðri trú. Það verð sem nú er á eignarhlutum í símafélögum gefur fjárfestum raunhæfa von um að fjárfesting í öflugum og vel reknum félögum geti skilað góðum arði. Þetta er mikilvæg forsenda vel heppnaðrar einkavæðingar ...``

Herra forseti. Er ekki ástæða til þess að ríkisstjórnin og þeir ráðherrar sem leyfa sér að láta svona orð falla geri nánar grein fyrir sjónarmiðum sínum? Hvernig rímar þetta við fyrirheit ríkisstjórnarinnar varðandi sölu á hlut ríkisins í bönkunum, þar sem því var heitið að því aðeins yrðu þeir seldir að tryggt væri að hagstætt verð fengist fyrir þá á markaði? Nú er að koma í ljós að bankarnir hrapa í verði, þeir eiga í erfiðleikum. Í blöðum í dag er talað um útlánatöp. Engu að síður er ríkisstjórnin, þessi ríkisstjórn sem hefur aðeins eitt auga í miðju enni og er aldrei reiðubúin að sjá tvær hliðar á neinu máli, staðráðin í að keyra þetta mál í gegn. Þrátt fyrir þær aðstæður sem upp eru komnar, þrátt fyrir að bankarnir hafi rýrnað í verði um 11% frá árabótum, um 5 þús. millj. kr. þá á eftir sem áður að keyra þetta í gegn. Hvers vegna? Hæstv. samgrh. lýsti því fyrir okkur. Það er verið að þjóna fjármagnseigendum fyrst og fremst. Það er gert á kostnað þjóðarinnar, á kostnað almennings.

Ég lýsi því yfir að ég sætti mig ekki við að gengið verði frá þessum málum fyrr en hæstv. samgrh. eða hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar gerir Alþingi grein fyrir þessum orðum og skýri þessi ummæli, skýri þetta ábyrgðarleysi sem mér virðist vera augljóst, að hér er einfaldlega verið að ganga erinda fjárfesta. Það er verið að ganga erinda fjármagnseigenda og stórfyrirtækja sem gína yfir þessum eignum. Það er staðreyndin.

Í gær var spurt: Já, en eru þetta ekki góðir kostir, t.d. fyrir lífeyrissjóði? Eru þetta ekki góðir fjárfestingarkostir fyrir lífeyrissjóði? Þeirri fyrirspurn var beint til mín af því að ég hef komið að málum í starfi verkalýðshreyfingar. Á ekki verkalýðshreyfingin aðild að lífeyrissjóðum? Eru þetta ekki hagsmunir hennar? Jú, þarna kunna að bjóðast góðir fjárfestingarkostir. Um það höfum við rætt. Út á það hefur málflutningur okkar gengið. En fyrst og fremst er þetta góður kostur fyrir núverandi eiganda, fyrir íslensku þjóðina. Við viljum ógjarnan að hún sé svipt þessum eignum sínum. Með málflutningi okkar höfum við reynt að sýna fram á hvílíkt glapræði það er.

Við höfum einnig reynt að sýna fram á að það fyrirkomulag sem menn sjá fyrir sér, fyrirheitna landið með hinni miklu samkeppni, er ekki til. Sú staða er ekki fyrir hendi. Við skyldum hugsanlega ræða þetta á öðrum forsendum, ef menn gætu sýnt fram á að reynsla annarra þjóða, á Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Long Island og Kaliforníu, þar sem reynslan af einkavæddri einokunarstarfsemi er slæm, ætti ekki við hér á landi. Ef menn geta sýnt okkur fram á að sá lærdómur sem við höfum dregið af reynslu þessara þjóða muni ekki eiga við á Íslandi þá skulum við ræða þau rök og fara yfir málið.

[11:45]

(VE: Er einokun í bankarekstri?) Er einokun í bankarekstri? Það er veruleg ástæða að ætla að þeir sem hafa undirtökin í efnahagslífi á Íslandi muni einnig gera það í þessari starfsemi. Mjög miklar líkur eru á því. Smásöluverslunin er komin 70% í hendur á einum aðila. Gera menn sér grein fyrir því? Halda menn að slíkt hið sama geti ekki gerst í fjármálastofnunum? Er ekki alltaf verið að tala um hina margrómuðu hagræðingu? Í hverju felst hún? Hún felst í að einfalda alla starfsemi, sameina, steypa saman. Er það líklegt til að leiða til aukinnar samkeppni? Ég held ekki. Það er ekki ólíklegt að hitt gerist að völdin yfir fjármálalífinu færist á færri hendur en nú er. Á því eru mjög sterkar líkur.

Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur lögðum fram tillögu á Alþingi um dreifða eignaraðild í fjármálafyrirtækjum. Við gerðum okkur grein fyrir því að þau sjónarmið sem við höldum á loft fyrir hönd þjóðarinnar og reynum að standa í fæturna gagnvart þessu einkavæðingarfári væri því miður minnihlutasjónarmið hér þótt ég sé sannfærður um að það er meirihlutasjónarmið í samfélaginu almennt.

Í tillögum okkar er gert ráð fyrir því að í fjármálastofnunum á borð við ríkisbankana, ef þær yrðu seldar, færi eignarhlutur aldrei yfir tiltekið mark, 8% nefndum við. Tekið var vel í þessar tillögur bæði af hálfu hæstv. forsrh., Morgunblaðið taldi þær allrar athygli verðar í leiðara og málinu var vísað til efh.- og viðskn. en þar var það fellt. Samtök atvinnulífsins voru ekki hrifin. Samtök fjárfesta voru ekki ýkja hrifin og síðan voru einhverjir búnir að finna það út að sennilega yrðu þeir reiðir í Brussel líka. Rannsóknarrétturinn mundi sennilega komast í málið og telja þetta óeðlileg afskipti af lögmálinu. Þetta mundi brjóta í bága við markaðslögmálið og boðorð Evrópusambandsins, það væri bannað að gera þetta. Við hefðum bara einfaldlega ekki heimild, Brussel mundi ekki leyfa þetta. Málið var því miður látið lognast út af. Nú síðar á dagskránni er annað mál sem heitir Eftirlit með fjármálastofnunum. (Gripið fram í: ... virkum eignarhlut í fjármálastofnunum.) Eftirlit með virkum eignarhlut í fjármálastofnunum. Þetta er sú leið sem menn eru að fara í tengslum við einkavæðinguna, þ.e. einkavæða sjálfa starfsemina og blása síðan út eftirlitsstofnanirnar, blása út eftirlits-sovétin og fjölga reglugerðunum, lögunum og eftirlitsaðilunum. Það á að fjölga í öllum þessum stofnunum við þetta, þær blása allar út. Það verður mjög skemmtilegt að taka þátt í þeirri umræðu á eftir um þetta eftirlit og þá rannsókn sem á að fara fram á eigendum fyrirtækja og stjórnendum. Ég er reyndar á því frv. með fyrirvara. Ég vil þó leggja mitt af mörkum til að stuðla að því að reglur séu virtar og reynt að hafa skikk á hlutunum þótt ég hefði kosið allt aðrar leiðir. Í fyrsta lagi hefði ég viljað forðast að einkavæða þessar eignir okkar. Í annan stað hefði ég viljað láta reyna á löggjöf um dreifða eignaraðild. Þetta er hins vegar sú lending sem mér finnst langsísti kosturinn, en kostur er það þó við þessar aðstæður.

Ég ætla ekki að hafa þessa umfjöllun mína öllu lengri. Ég get sem betur fer fjallað um þetta mál í annarri ræðu. Þá mun ég m.a. taka ýmsa aðra þætti sem snerta einkavæðingu bankanna og þeirrar stefnu sem er fylgt hér af alveg ótrúlegri þröngsýni af hálfu ríkisstjórnarinnar en hún er náttúrlega studd mjög dyggilega af þeim aðilum í þjóðfélaginu sem gæta hags fjármagnseigenda og stórfyrirtækjanna. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því.