Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:56:00 (8099)

2001-05-18 11:56:00# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spákaupmenn kaupa og selja. Þeir kaupa þegar þeir telja að verðið sé lágt og þeir selja þegar þeir telja að verðið sé hátt. Ríkissjóður er að sjálfsögðu ekki í hlutverki spákaupmanns í sambandi við þessa sölu. Ríkissjóður er að selja þessar eignir og reyna að fá eðlilegt markaðsverð fyrir þær. Þegar sölunni er lokið væri æskilegast að báðir teldu sig hafa hagnast á sölunni. Ég spyr hv. þm.: Er hann á móti því að kaupendur hagnist á þessari sölu?

Annað atriði sem ég vildi koma inn á. Hv. þm. er búinn að býsnast yfir útibúaneti bankanna. En hv. þm. rifjar það ekki upp að útibúanet bankanna var byggt upp algerlega á pólitískum forsendum á sínum tíma. Bankar fengu ekki að stofna útibú nema með sérstöku leyfi ráðherra. Hverjir skyldu hafa fengið þessi leyfi ráðherra til þess að stofna útibú aðrir en ríkisbankarnir? Fróðlegt væri að hv. þm. gerði grein fyrir því fyrst hann var að býsnast svo rækilega yfir slakri þjónustu einkabanka úti um land. Útibúanet bankanna var byggt upp á þeim tíma þegar miklar hömlur voru á fjármagnsmarkaðnum, þegar vöxtum var haldið niðri, raunvextir voru neikvæðir og þegar bankar leituðust við að byggja upp of dýrt útibúanet til að ná í innlán. Það væri athyglisvert og gott ef hv. þm. vildi kynna sér þessa sögu áður en hann fer að býsnast yfir því hverjir stofnuðu útibú hvar.