Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:57:49 (8100)

2001-05-18 11:57:49# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tók í rauninni af mér ómakið. Það er þetta nákvæmlega sem við höfum verið að halda fram að pólitískar ástæður liggja að baki því að hér er rekið öflugt útibúanet um land allt, að arðsemissjónarmiðin ein stýra ekki för. Við erum að leggja áherslu á þjónustuþátt bankanna.

Ég veit ekki til þess að neinum banka hafi verið bannað að reisa útibú þar sem hann óskar eftir því. (VE: Ekki rétt.) Hins vegar er sú hætta fyrir hendi að þegar bankarnir hafa verið seldir og arðsemissjónarmiðin ein ráða för að útibúum verði lokað.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson svarar því einu þegar ég spyr hann annars vegar um fyrirheit ríkisstjórnarinnar sem á greinilega að svíkja ef þær yfirlýsingar hæstv. samgrh. eru réttar að fráleitt sé að selja bankana á sem hæstu verði fyrir hönd ríkissjóðs, ef það er rétt þá svarar hv. þm. því einu að bankana eigi að selja á eðlilegu verði. Þá er spurningin: Út frá hvaða sjónarhóli er það skilgreint? Á forsendum hvers er það skilgreint? Á forsendum stórfyrirtækja, stórra fjármagnseigenda eða á forsendum almennings í landinu, á forsendum eigandans, á forsendum okkar? Við erum fulltrúar þjóðarinnar í þessu efni. Ég lýsi furðu minni á því ábyrgðarleysi sem hér kemur fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og þess meiri hluta sem hún styðst við á Alþingi.