Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:59:52 (8101)

2001-05-18 11:59:52# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:59]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er ákaflega heimskuleg ákvörðun af hálfu hæstv. ríksstjórnar að ætla að selja bankana núna. Þegar ég segi þetta styðst ég við þá yfirlýsingu sem kom fram í stjórnarsáttmála Framsfl. og Sjálfstfl. í upphafi þessa kjörtímabils. Þar var lögð ákveðin forsenda til grundvallar sölu ríkisfyrirtækja. Hún fól í sér að hámarka ætti virði eignarinnar sem seld er frá ríkinu. Með öðrum orðum, samkvæmt því átti að tímasetja söluna þannig að hún mundi færa sem mest í ríkissjóð. Að því leyti til hefur hv. þm. bent réttilega á að með því að selja núna eftir mestu lækkanir sem hafa orðið á hlutabréfamarkaðnum getur ríkisstjórnin varla verið að gera annað en færa bankana úr eigu ríkisins yfir á markaðinn til vildarvina sinna þar með ákaflega lágu verði. Það er það sem er að gerast.

Ef það er rétt sem hefur komið fram af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar að innan skamms muni markaðarnir taka við sér þá er þetta ekkert annað en stórfelld eignatilfærsla, og gildir bæði um bankana og Landssímann.

Ég er líka sammála hv. þm. um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild og ég hef lýst yfir stuðningi mínum við það hlutfall sem hann reifaði áðan, 8%, það hafa reyndar fleiri gert. Þetta er það sjónarmið sem hæstv. forsrh. fylgdi líka en eitthvað virðist vera að flökta stefnan hjá þeim ágæta manni þannig að hann hefur skyndilega flöktað frá þessu og er kominn eitthvað allt annað. En mig langar til að spyrja hv. þm. vegna þess að eins og hann benti á þá er rannsóknastofnun úti í heimi sem telur þetta líklega ekki samræmast Evrópskra efnahagssvæðinu, hvað finnst honum um þá aðferð sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa farið að reyna að takmarka hámark á atvæðisrétti eignarhluta.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir hv. þm. á að andsvör eru til að veita andsvör en ekki til að halda ræður en hv. þm. kom reyndar aðeins inn á það í lok andsvarsins.)

Ég var að lýsa yfir ánægju minni með málflutning hv. þm.

(Forseti (GuðjG): Það telst nú vart andsvar.)