Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 12:02:21 (8102)

2001-05-18 12:02:21# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst allar tillögur sem lúta að því að tryggja dreifða eignaraðild og koma í veg fyrir að fáir stórir aðilar nái tökum á þessum stofnunum þess verðar að skoða þær.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að það sem fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú er í mótsögn við þau fyrirheit sem gefin voru. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.``

Þetta er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maílok árið 1999. Þetta stangast algerlega á við það sem nú kemur fram hjá fulltrúa ríkisstjórnarinnar, hæstv. samgrh. sem varar við spákaupmennsku og segir fráleitt að koma þessum ríkiseignum út á sem hæstu verði. Mér finnst við ekki getað sagt skilið við þessa umræðu fyrr en ríkisstjórnin hefur gert hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni. Í þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra finnst mér koma fram alveg ótrúlegt ábyrgðarleysi. Ég spyr: Skrifar öll ríkisstjórnin upp á þetta? Skrifar allur Sjálfstfl. upp á þetta? Skrifar allur Framsfl. upp á þetta? Er hann samþykkur því að ríkiseignir verði seldar á gjafa\-prís? Ég spyr. Við munum ekki ljúka umræðunni, hvorki um bankana né um Símann, fyrr en við höfum fengið skýrari svör í þessu efni.