Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 12:04:22 (8103)

2001-05-18 12:04:22# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[12:04]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðjast afsökunar á því ef það telst til sérstakra synda að koma hér upp og styðja hv. þm. Vinstri grænna í málflutningi sínum. Mér hefur oft fundist það þannig að þá hafi skort stuðning í þessum sölum. Það er reyndar ekki bara af gæsku míns hjarta að ég kem og styð þá heldur fannst mér það vera rétt sem hv. þm. sagði.

Ég vildi líka rifja það upp fyrir hv. þm. Ögmundi Jónassyni, af því að hann hefur fært sterk rök að því að tímasetningin sé röng, að þegar við sátum saman í efh.- og viðskn. til að fjalla um þetta mál, þá kom þangað fulltrúi fjárfesta. Niðurstaða hans var sú að ef fyrirætlan ríkisstjórnarinnar gengi eftir, að demba öllu þessu magni hlutafjár út á markaðinn, og ef ekki kæmu erlendir fjárfestar til þess að kaupa stóra hluti, sem er alls endis óvíst á þessari stundu, þá gæti það leitt til þess sem þessi maður, sem gegnir líka dósentsstöðu við Háskóla Íslands, kallaði ,,shock effect`` á hlutabréfamarkaðnum.

Með öðrum orðum: Ríkisstjórninni er svo mikið í mun að koma þessum hlutum á sem lægstu verði og sem hraðast út á markaðinn að framboðið er líklegt til þess að leiða til lækkunar á öðrum hlutabréfum á markaðnum. Þetta gæti spillt fyrir því að aðrir hluthafar fái fyrir sína eign það sem markaðurinn býður upp á, áður en ríkið grípur með þessum hætti inn í markaðinn.

Sömuleiðis, herra forseti, vil ég rifja upp fyrir hv. þm. og sætir furðu að hann skuli hafa gleymt að geta þess í ræðu sinni, að í greinargerð Þjóðhagsstofnunar er varað við því að þetta mikla framboð á hlutafé af hálfu ríkisins geti orðið til þess að einkafyrirtæki ættu erfitt með að afla sér fjár á markaðnum. Það, herra forseti, skýrir t.d. af hverju Íslandssími flýtir sér af svo mikilli skyndingu að komast á markað. Hann vill verða á undan vegna þess að kaupkrafturinn á markaðnum er svo lítill í dag og ríkið er að sjúga hann upp.

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að Samfylkingin tali fallega um Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð en telur að það eigi að gerast undir öðrum formerkjum en í formi andsvara.)