Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 13:00:47 (8106)

2001-05-18 13:00:47# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[13:00]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessa ræðu sem ég hlustaði á að langmestu leyti. Mér þótti mjög athyglisvert þegar hv. þm. fjallaði um kommúnismann og áhuga sinn á blönduðu hagkerfi. Nú hefur hv. þm. helst verið grunaður um að vilja blanda helst til sterkt. Ef umsvif ríkisins og áhrif þess í hagkerfinu eru ginið og einkaaðilarnir og almenningur er blandið, tónikið, þá veit hv. þm. hvernig fer. Ef blandan er of sterk, of mikið af ríkisafskiptum, of mikið af höftum og boðum og bönnum, eins og gjarnan er þegar ekki er vel blandað, þá fer það nú ekki vel. Að öðru leyti hef ég í sjálfu sér ekki neitt við hið pólitíska mat hv. þm. á sjálfum sér að athuga.

Annað sem ég vildi koma inn á er að hv. þm. ræddi mikið um að ekki væri hægt að selja eignarhlutinn í bönkunum vegna þess að fjármagnsmarkaðurinn væri ekki fullkominn. Hv. þm. taldi sig hafa lesið býsna mikið í þessum fræðum, sem ég efast ekki um, en þá hefur hv. þm. án efa líka lesið að það er ekki við því að búast að nokkur markaður sé fullkominn, enda hefur fjármagnsmarkaðurinn líka verið að þróast mjög hratt á undanförnum árum og miklar framfarir orðið þar. Sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum er hluti af þeirri þróun og fjármagnsmarkaðurinn mun standa sterkari eftir þessa sölu, eftir þessa einkavæðingu, en hann gerir núna.