Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 13:05:04 (8108)

2001-05-18 13:05:04# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[13:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða aðeins við hv. þm. um útibúanetið. Á árum áður sóttu bankarnir mjög á um að opna útibú sem víðast. Aðstæður voru þannig á fjármagnsmarkaðnum að það varð að komast sem næst fólkinu til að ná í innlánin. Síðan voru útlánin skömmtuð eins og hv. þm. veit.

Nú eru aðstæður einfaldlega aðrar. Nú skiptir máli að bankanetið sé sem hagkvæmast, bæði fyrir þá sem eiga peninga hjá bönkunum og eins fyrir þá sem fá þá að láni. Tökum t.d. bara mitt kjördæmi, Norðurl. v. þar sem eru tveir bankar á Siglufirði, einn á Hofsósi, einn í Varmahlíð, þrír á Króknum, þrír á Skagaströnd, tveir á Blönduósi og einn á Hvammstanga. Hátt á annað hundrað manns vinnur við það í þessu kjördæmi að flytja peningana frá þeim sem eiga þá til þeirra sem taka þá að láni og veita þeim þjónustu.

Ég segi bara að þetta þarf auðvitað að vera sem hagkvæmast. Það er ekkert náttúrulögmál að það þurfi nákvæmlega jafnmargir að vinna við þetta og gera í dag. Þeir gætu hugsanlega verið færri og hugsanlega verið fleiri, allt eftir því hvað er hagkvæmt. Ef hægt er að komast af með færri þá kemur það fram sem ódýrari lán, fyrir þá sem eru að taka lán, eða sem hærri innlánsvextir, fyrir þá sem eiga þar peninga. Auðvitað þarf að gæta hagkvæmni í þessu eins og öðru. Það er ekki neitt náttúrulögmál að hafa kerfið uppbyggt eins og nú er. Það hlýtur að vera hægt að haga þessu eftir aðstæðum og ég hef ekki trú á því, í þeirri stöðu sem við erum nú, að það fari eftir því hvort banki er ríkisbanki eða hvort ríkið á meiri hluta í einhverjum banka eða hvað, hvernig þessu er fyrir komið.