Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:35:49 (8116)

2001-05-18 14:35:49# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir það með hv. þm. að það svar sem henni berst nú við fyrirspurn er ófullkomið. Ég bara get ekkert að því gert. Það er bara þannig. Eins og hv. þm. veit þá búum við ekki við sömu aðstæður og áður var, þ.e. áður en ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög. Fjármálafyrirtækjum ber ekki skylda til að svara fyrirspurn eins og þessari og það er erfitt að gera við því. Hins vegar er svo sem í þessu svari líka að sjá að t.d. vanskil við Íbúðalánasjóð eru minni en þau hafa verið stundum áður þannig að ekki er nú allt svart. En svarið er ekki fullkomið.

Þegar hv. þm. talar um yfirgang framkvæmdarvaldsins í þessu sambandi og að ráðherrar skýli sér á bak við hlutafélagalög þá er ég óskaplega ósátt við það orðalag, að skýla sér á bak við lög, af því að ég tel að annaðhvort fari maður að lögum eða ekki. Ég tel mig vera að fara að lögum þegar ég segi að þessum fyrirtækjum beri ekki skylda til að svara fyrirspurninni. Svona lít ég nú á þetta mál, hv. þm.

Um ummæli eins af nefndarmönnum í einkavæðingarnefnd þá heyrði ég þau ekki. En hef haft spurnir af því að þar hafi því verið haldið fram að það bæri að bíða með sölu á Búnaðarbankanum. Ég hef skrifað einkavæðingarnefnd og óskað eftir tillögum um það hvernig farið skuli í sölu. Mér hefur ekki borist formlegt svar og meðan ég fæ ekki svör með þeim hætti frá einkavæðingarnefnd tel ég ekki ástæðu til þess að tjá mig um það sem haft er eftir mönnum í fjölmiðlum.