Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:48:20 (8119)

2001-05-18 14:48:20# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með útskrift af því sem hæstv. samgrh. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég tel heldur ekki sjálfsagt að harma, líkt og formaður Samfylkingarinnar, að hafa ekki nú þegar selt íslenskum almenningi hlut í Símanum á verði sem einungis hefði getað lækkað.``

Það vill svo til að ég er svolítið sammála hæstv. ráðherra með þetta. Það er líka gagnrýnivert, t.d. hafa stjórnvöld í Svíþjóð verið gagnrýnd fyrir það, að selja almenningi í ríkisfyrirtækjum þegar verðið er hæst, fyrir verð sem getur ekki annað en lækkað. En auðvitað er eðli markaðarins það að við vitum aldrei á hvaða leið hann er. Þannig mun það áreiðanlega verða áfram.

Mér finnst líka skipta máli, ef við tölum um Landssímann þó hann sé ekki til umfjöllunar núna, hvernig til tekst við uppbyggingu dreifinetsins og þjónustunnar við landsbyggðina. Ég gæti í sambandi við það fyrirtæki hugsað mér að eitthvað minna fengist fyrir fyrirtækið ef við hefðum það í hendi að þeim atriðum og þeim kröfum yrði fullnægt. Stjórnarflokkarnir hafa, eins og hv. þm. veit, komið sér saman um mjög metnaðarfullar áætlanir í því sambandi.

Í sambandi við bankana, sem nú eru til umfjöllunar, hef ég haldið því fram og ekki skipt um skoðun hvað það varðar að við eigum að leitast við að fá sem hæst verð fyrir bankana, enda er það ákvæði sem kemur fram í stjórnarsáttmála og það hefur ekkert breyst.