Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:56:27 (8123)

2001-05-18 14:56:27# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er komið að lokum í umræðum um stofnun hlutafélags um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, þ.e. breytingum sem fela í sér að heimilt sé að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Hér hefur verið ítarlega gerð grein fyrir því að þær efnahagslegu forsendur sem einkavæðingarnefnd leggur fram fyrir einkavæðingu og sölu á þessum hlutabréfum eru alls ekki fyrir hendi heldur er hér fyrst og fremst um pólitíska aðgerð að ræða. Það er í sjálfu sér, herra forseti, umhugsunarefni þegar sú pólitíska sýn, einkavæðingin, hvort sem er á almannaþjónustu eða annarri grunnþjónustu, er orðin að trúarbrögðum og stefnu. Þá er vá fyrir dyrum.

Ég óttast, herra forseti, að heimildin sem hér er verið að veita ríkisstjórninni til að selja hlutafé ríkissjóðs í þessum bönkum komi til með, þegar fram líða stundir, að þjappa saman allri þjónustu á þessu sviði og draga úr þjónustu úti á landi í nafni svokallaðrar hagræðingar. Ég óttast, herra forseti, að hagræðingin sem á að ná fram með sölu á þessum bönkum muni bitna fyrst og fremst á landsbyggðinni.

Ég óttast, herra forseti, að sú samfélagslega ábyrgð sem bankar og peningastofnanir hafa sýnt víða í dreifðari byggðum landsins, sem er hluti af nágrannaþjónustu sem þar er mikilvæg, muni dvína. Það nægir að vitna til ummæla núv. stjórnarformanns Byggðastofnunar, sem ætti starfs síns og ábyrgðar vegna að hafa velt þessu fyrir sér. Í viðtali við hann þann 11. mars sl. þar sem fjallað er um sölu bankanna og hvernig skuli verja andvirðinu leggur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson áherslu á að andvirði bankanna renni til þess að styrkja Byggðastofnun og efla hana á sviði lánamála fyrir landsbyggðina. Ég vitna í viðtalið við hann, með leyfi forseta:

,,Þessi breyting er til komin vegna þess að bankarnir hafa breytt sinni afstöðu gagnvart atvinnulífi á landsbyggðinni. Meta greinilega eignir og önnur verðmæti lægra en áður og treysta sér ekki til að lána fé til nauðsynlegrar atvinnustarfsemi.``

Þarna vísar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson til þess að bankar hafa gert allt aðrar kröfur um veð úti á landi en hér á suðvesturhorninu. Síðan segir í viðtalinu:

,,Samkeppni í útlánum á bankamarkaði er lítil úti á landi en mikil á höfuðborgarsvæðinu, segir Kristinn, og þetta eykur þrýstinginn á Byggðastofnun. Og framboð á fjármálastofnunum, sem vilja sinna landsbyggðinni og byggja þar upp atvinnulíf ásamt fólkinu sem þar býr, er allt of lítið. Kristinn vill auka getu Byggðastofnunar til að lána. Meðal annars verði stofnunin látin njóta þess þegar ríkisbankarnir verða seldir.``

Að síðustu er tilvitnun í hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, stjórnarformann Byggðastofnunar, með leyfi forseta:

,,Ég tel að það eigi að hugleiða það að hluti af söluandvirði bankanna renni inni í Byggðastofnun sem höfuðstóll, sem verði bakhjarl fyrir lánveitingar.``

Það er alveg klárt, herra forseti, að stjórnarformaður Byggðastofnunar hefur velt þessum hlutum rækilega fyrir sér og óttast framhaldið. Hann óttast hvað muni gerast og er þarna með síðustu hálmstráin, að leggja til að hluti af því fé sem kæmi inn fyrir sölu á þessum bönkum renni til Byggðastofnunar til að byggi hana upp sem lánastofnun fyrir atvinnulíf úti á landi.

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér mótfallinn þessari sýn. Ég tel að bankarnir hafi með þéttu útibúaneti úti um allt land og góðu starfsfólki sett sig inn í aðstæður á viðkomandi svæðum og þekki þar best til. Þeir hefðu þess vegna, ef þeir hefðu haft það hlutverk og aukið svigrúm, verið betur færir um að meta lánsfjárþörf, fjármögnun og þátttöku í atvinnulífi, byggð og búsetu, en að ný stofnun tæki að sér þessa starfsemi.

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel að sem stendur sé ekki rétti tíminn til að selja ríkisbanka. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda í byggðamálum um allt land. Við stöndum líka frammi fyrir því að það er ekki góður markaður fyrir hlutafé og þess vegna eru ekki líkur á að fram undan sé góður tími til að fá hámarksverð fyrir þessar stofnanir.

Herra forseti. Ég hlýt að ítreka að ég óttast að þessi aðgerð sem til stendur að heimila ríkisstjórninni að grípa til muni leiða til skertrar þjónustu víða um land.