Viðskiptabankar og sparisjóðir

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:13:17 (8125)

2001-05-18 15:13:17# 126. lþ. 128.5 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð um það frv. sem hér er tekið á dagskrá um sparisjóðina, mál nr. 567, um viðskiptabanka og sparisjóði. Ég vil halda því til haga þegar þetta mál er komið á þetta stig í afgreiðslu þingsins að við í minni hlutanum, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og sú sem hér stendur, fluttum sérstakt nál. við 2. umr. og nokkrar brtt. sem lutu að skattalegri meðferð á stofnverði hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda og hjá sjálfseignarstofnunum sem stofnaðar verði þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag, það var dregið til baka við þá umræðu og dregið til baka til 3. umr. Það var gert, herra forseti, vegna þess að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. taldi rétt að skoða þær brtt. sem við í minni hlutanum lögðum fram í því máli í ljósi umsagnar sem fram hafði komið hjá ríkisskattstjóra.

Aftur á móti var við 2. umr. málsins felld tillaga sem við fluttum þess efnis að taka út úr frv. ákvæði um að sparisjóðirnir ættu að vera undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti en ríkisskattstjóri hafði gert alvarlegar athugasemdir í umsögn sinni við það ákvæði.

Herra forseti. Sú tillaga var felld við 2. umr. en tillögurnar sem lutu eins og ég segi að skattalegri meðferð á stofnverði hlutabréfa í hendi stofnfjáreigenda og hjá sjálfseignarstofnunum, drógum við til baka til 3. umr. og efh.- og viðskn. fjallaði um þær brtt.

Efh.- og viðskn. hefur gert þær tillögur að sínum og flutt um þær sérstakt frv. sem er breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þær eru efnislega samhljóða þeim brtt. sem við drógum til baka við 3. umr. Þær tillögur sem birtast í öðru frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt laga vissulega skattalega meðferð á þessu máli, sem ríkisskattstjóri hefur gagnrýnt mjög, þó að ekki sé gengið alla leið í því efni. Því fagna ég að komið hefur verið til móts við sjónarmið okkar með þeim hætti og því flytjum við ekki þær brtt. sem við kölluðum aftur við 2. umr. nú við 3. umr. málsins þar sem þær eru settar í lagabúning í öðru frv. sem liggur fyrir þinginu.