Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:17:52 (8127)

2001-05-18 15:17:52# 126. lþ. 128.6 fundur 669. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bifreiðar til ökukennslu o.fl.) frv. 56/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Breytingartillöguna sem formaður efh.- og viðskn. hefur mælt fyrir, um að ökuskólar geti jafnframt notið lækkunar samkvæmt ákvæðum frv., styðjum við að sjálfsögðu. Hún er flutt af efh.- og viðskn. En þetta frv. felur í sér að lagt er til að vörugjald af bifreiðum til ökukennslu lækki til samræmis við vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga og bílaleigubifreiða. Það tel ég sjálfsagt og eðlilegt mál. Maður verður að ætla að þegar veittar eru skattaívilnanir af leigubifreiðum til fólksflutninga, bílaleigubílum og til bílum til ökukennslu, að það muni leiða til þess að gjald sem tekið er vegna ökukennslu lækki. Það er mjög hátt og verður að ætla að þetta muni leiða beint til þess að þeir sem eru í þeim atvinnurekstri hafi möguleika á að lækka gjaldtöku fyrir ökukennsluna.

Hitt er annað mál að ég er nokkuð ósátt við gildistökuna. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki stórmál. Hér er verið að breyta gildistökuákvæðinu frá því sem gert var ráð fyrir í frv. Frumvarpið átti að taka strax gildi. En það tefst til 1. júlí vegna þeirra breytinga sem efh.- og viðskn. mælir hér með. Ég skil þetta vel varðandi ökuskólana, geri mér fullkomna grein fyrir því að það þarf aðeins svigrúm til þess að útbúa reglur í samræmi við þetta ákvæði. Ég hefði haldið að hægt hefði verið að taka önnur ákvæði þeim tökum að þau tæki gildi strax. En þetta ákvæði, eins og það er sett fram, nær bæði til ökuskólanna og eins til þess að lækka vörugjald af bifreiðum til ökukennslu og vörugjalds af leigubifreiðum til fólksflutninga og bílaleigubifreiðum. Það er miður. En málið er komið svona inn í þingið og ekkert er við því að gera. Ég taldi þó rétt að þær athugasemdir sem við gerðum í nefndinni við þetta atriði komi fram hér í umræðunni.