Virðisaukaskattur

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:21:41 (8128)

2001-05-18 15:21:41# 126. lþ. 128.9 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil vara við því að gengið sé svo hratt hér í afgreiðslu mála að ekki gefist einu sinni svigrúm til þess að mæla fyrir brtt. Ég vek athygli á því að hér koma í einum rykk ein tíu, tólf mál frá efh.- og viðskn. Við sum hver þurfum við að gera athugasemdir og mæla fyrir breytingartillögum þannig að ég bið forseta að ganga aðeins hægar hér til verka.

(Forseti (ÍGP): Út af orðum hv. þm. biðst forseti afsökunar á því hve hratt hann fór yfir þessi mál.)

Það er meðtekið, herra forseti.

Við höfum leyft okkur að flytja breytingartillögur við þetta mál. Efni frv. er að heimilt er að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003.

Um þennan þátt frv., herra forseti, er góð samstaða og var góð samstaða í efh.- og viðskn. enda er hér um mál að ræða sem byggir á öryggis- og umhverfissjónarmiðum og miðar að því að auðvelda rekstraraðilum hópferðabifreiða og sérleyfishöfum að endurnýja hópferðabifreiðaflota sinn.

Herra forseti. Um það var nokkuð rætt í meðferð þessa máls hvort dagsetning væri eðlileg varðandi gildistökuna. Um er að ræða að þeir fá virðisaukaskattinn endurgreiddan sem hafa keypt eða leigt hópferðabifreiðar á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003. Félag hópferðaleyfishafa hefur lagt mikla áherslu á að gildistíminn verði 1. janúar árið 2000, en ekki 1. september árið 2000 þannig að þarna munar einum átta mánuðum.

Við létum kanna um hve háar fjárhæðir væri að ræða ef efh.- og viðskn. opnaði fyrir það að þeir sem hefðu keypt á bilinu 1. janúar til 1. september 2000 féllu líka undir þessar endurgreiðslur. Um var að ræða ný ökutæki sem voru tíu talsins og notuð ökutæki sem voru 24 talsins. Ef ég man rétt var kostnaðurinn við að endurgreiða virðisaukaskatt af þessum hópferðabifreiðum 40--50 millj. kr.

Við teljum rétt og eðlilegt að verða við þeirri ósk Félags hópferðaleyfishafa að þeir sem hafa keypt bifreiðar á þessu tímabili falli líka undir þessi ákvæði. Út á það gengur brtt. okkar. Þá brtt. flyt ég ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Kristjáni L. Möller.

Í annan stað er flytur sú sem hér stendur brtt. ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Ögmundi Jónassyni. Samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir er endurgreiðsluheimildin bundin við hópferðabifreiðar fyrir 18 farþega eða fleiri sem nýskráðir eru á tímabilinu og búnir eru EURO2 aflvélum eða sambærilegum aflvélum.

Síðan kemur ákvæði um það að heimildin taki ekki til almenningsvagna.

Tillaga okkar gengur út á að þessi heimild nái líka til almenningsvagna og teljum við, herra forseti, að það falli ekki síst líka undir umhverfissjónarmið að endurgreiðslur séu heimilaðar vegna almenningsvagna. Það gæti þá hugsanlega dregið frekar úr notkun, herra forseti, á einkabílum. Við vitum hvernig umferðarþunginn er orðinn t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta gæfi væntanlega möguleika á því að lækka fargjöldin í almenningsvagnana.

Hér er alls ekki um stórar fjárhæðir að ræða, herra forseti. Um tiltölulega fáa almenningsvagna er að ræða sem keyptir höfðu verið á þessu tímabili. Nýskráningar 1999 voru 12. Árið 2000 voru þær fjórar. Það breytir því ekki stóru í fjárhæðum að láta almenningsvagnana falla undir ákvæði frv. Út á það gengur þessi brtt., herra forseti, sem ég mæli fyrir og flutt er af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Ögmundi Jónassyni og þeirri sem hér stendur.