Virðisaukaskattur

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:27:33 (8129)

2001-05-18 15:27:33# 126. lþ. 128.9 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Ég hef skrifað undir nál. en með fyrirvara þó. Frumvarpið gengur út að heimila endurgreiðslu þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni, hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu á hópferðabifreiðum. Síðan eru þær skilgreindar. En tekið er sérstaklega fram að þessi undanþága skuli ekki ganga til almenningsvagna.

Hópferðabifreiðar eru víða á landinu hluti af almenningssamgöngukerfinu. Sum þeirra fyrirtækja sem sinna þessu verkefni standa á brauðfótum og vissulega er ástæða til að styðja þau eftir megni. Hins vegar er það alltaf álitamál þegar verið er að gera sértækar ráðstafanir af þessu tagi. Staðreyndin er vitaskuld sú að ef við horfum til atvinnurekstursins í heild sinni þá væri víða ástæða til slíks inngrips. Ég hef því í sjálfu sér ákveðnar efasemdir um þessa aðferð.

Hitt finnst mér sérstaklega slæmt og jafnvel ámælisvert, að almennignsvagnar skuli undanþegnir þessu ákvæði, þessu undanþáguákvæði í lögunum, því ef nauðsyn er á einhverju þá er það að styrkja almenningssamgöngurnar. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt mikla áherslu á það í okkar málflutningi að efla almenningssamgöngur og stöndum þess vegna að brtt. sem gerir ráð fyrir því að þessi undanþáguheimild taki einnig til almenningsvagna.

Ég stend að brtt. um það efni ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur.

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gera grein fyrir þessum tveimur áherslum, annars vegar ákveðnum efasemdum um að grípa til þessara sértæku ráðstafana, þótt ég leggist ekki gegn þeim. En fyrst á annað borð farið er út á þá braut finnst mér eðlilegra að þessi undanþáguheimild sé víðtækari og taki einnig til almenningsvagna.