Sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 16:16:56 (8139)

2001-05-18 16:16:56# 126. lþ. 128.10 fundur 626. mál: #A sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða# frv. 53/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því að langar umræður mundu spinnast um þetta litla mál. Jörðin Arnheiðarstaðir var upphaflega gefin í guðsþakkaskyni, þ.e. til fátækraframfærslu í Fljótsdalshreppi. Droplaugarstaðir voru byggðir út úr jörðinni Arnheiðarstöðum eins og fram kemur á þingskjalinu.

Sveitarstjórnir hafa sýslað með kristfjárjarðir síðan einhvern tíma á 19. öld. Ég hef ekki lagst í nákvæma söguskoðun en kirkjan hefur lítið eða ekkert skipt sér af þessum jörðum í seinni tíð.

Árið 1953 heimilaði Alþingi sölu á þremur jörðum í Fljótsdal. Einungis ein þeirra var seld þá, þ.e. Geitagerði, en heimildin féll úr gildi varðandi Arnheiðarstaði og Droplaugarstaði. Bændurnir á þessum jörðum eiga mannvirki og ræktun, þ.e. að mestu leyti eiga þeir það verðmæti sem er þarna til staðar. Nú óska ábúendur eftir því að kaupa. Það mun a.m.k. vera þannig um Droplaugarstaði að þar hefur bóndinn áform um að fjárfesta í mannvirkjum til ferðaþjónustu svo framarlega sem hann eignist jörðina og geti þá veðsett hana og þess háttar en hann mun ekki hafa áhuga á því eða treysta sér í þá fjárfestingu nema hann fái jörðina keypta. Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps óskaði heimildar til að selja þessar jarðir. Mér fannst eðlilegt að verða við þeirri beiðni og þess vegna er þetta frv. flutt. Skilyrt er að andvirðinu verði varið í samræmi við upphaflegan tilgang, þ.e. til félagslegra verkefna í Fljótsdalshreppi.

Nú hefur verið spurt eftir því hvernig eftirliti félmrn. með ráðstöfun andvirðis slíkra jarða hafi verið varið á fyrri tíð. Þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt frv. um kristfjárjarðir. Ég held að ekki séu nema örfáar kristfjárjarðir eftir í landinu. Ég hef ekki tölu á þeim en þær eru fáar og ég veit ekki til þess að neitt eftirlit hafi verið haft á ráðstöfun andvirðis síðan ég kom í félmrn. enda mun það vera nokkuð langt síðan síðast var flutt frv. um kristfjárjarðir. Það hefur ekki verið gert í minni tíð svo að mig reki minni til. Hins vegar var það gert milli 1960 og 1970. Þá var flutt frv. um sölu tveggja kristfjárjarða í heimabyggð minni, Hamars í Svínavatnshreppi og Meðalheims í Torfalækjarhreppi. Þá var hér starfsmaður í þinginu, Halldóra B. Björnsson, systir Sveinbjarnar allsherjargoða, og framúrskarandi vel hagmælt eins og þau systkini önnur og henni varð þetta að yrkisefni:

  • Í Húnavatnssýslunni viðreisnin góðbændur gisti,
  • þeir græddu sumir, hjá öðrum taprekstur var.
  • Nú vilja þeir efnaðri kaupa jarðir af Kristi
  • og kunna ekki við að hafa hann sveitfastan þar.
  • Ég held að Kristur sé enn þá með okkur þarna fyrir norðan og treysti því að hann hafi ekki yfirgefið okkur þó að þessar jarðir hafi verið seldar. Þess vegna vil ég ekki bregða fæti fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Droplaugarstöðum eða leggja stein í götu þess að viðkomandi bændur eignist þessar tvær jarðir.