Viðskiptabankar og sparisjóðir

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 16:41:22 (8144)

2001-05-18 16:41:22# 126. lþ. 128.11 fundur 523. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (verðtryggðar eignir og skuldir) frv. 82/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og tillögu til breytingar frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.

Nefndin fjallaði um málið, sendi það til umsagnar og fékk menn á sinn fund svo sem getið er í þskj. 1337.

Nefndin gerir tillögu til breytinga á frv. Ástæðan er sú að í meðferð málsins kom fram að Fjármálaeftirlitið hefur ekki sett neinar reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda svo sem rætt er um í þessu frv. og hyggst heldur ekki gera það á næstunni.

Um það var rætt hvernig fyrirkomulag þessara mála ætti að vera. Niðurstaða þeirra umræðna varð sú hjá meiri hluta nefndarinnar að leggja til að ákvæðið um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda kæmi inn í venjulega almenna áhættustýringu í bankakerfinu. Þetta þýðir að bankar skulu hafa áhættustýringarkerfi sem Fjármálaeftirlitið fylgist með og gefur út leiðbeinandi reglur um. Það var talið nægilegt af Fjármálaeftirlitinu að verðtryggingaráhættan eins og aðrir áhættuþættir í rekstri banka færu undir og í þetta áhættustýringarkerfi sem almennt gildir fyrir rekstur bankanna. Við núverandi aðstæður er þess vegna ekki grundvöllur fyrir sérstökum reglum um þetta efni.

Þetta mál var rætt allmikið í nefndinni og tekið fyrir í raun eftir að búið var að afgreiða það vegna sérstaks bréfs sem kom um málið frá Seðlabanka Íslands. Engu að síður varð niðurstaðan að halda sig við þessa tillögu til breytinga.

Virðulegi forseti. Að samþykktri brtt. á þskj. 1337 leggur meiri hluti nefndarinnar til að málið verði samþykkt.