Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 16:53:53 (8147)

2001-05-18 16:53:53# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nefndarálit með fyrirvara og svo gerir einnig hv. þm. Ögmundur Jónasson sem mun væntanlega hér á eftir líka gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls. Frv. fjallar um nýja löggjöf um vexti og verðtryggingu. Ég hygg að í það heila tekið sé frv. frekar til bóta en hitt. Þær viðmiðanir sem lagt er til í frv. að notaðar verði varðandi almenna vexti eru um margt eðlilegri en þær eru nú.

Breytingin felur í sér að í stað þess að Seðlabankinn reikni út og birti meðalvexti banka og sparisjóða, sem aðilar geti notað í viðskiptum sín á milli, verði Seðlabanka falið að birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra útlána viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, þ.e. þeim vöxtum sem lánastofnanir bjóða lánþegum sem þeir telja trausta. Síðan er hægt að semja um frávik frá þessum vöxtum eftir aðstæðum hverju sinni.

Viðmið við meðalvexti er gallað fyrirkomulag og erfitt fyrir Seðlabanka að velja vogir til að reikna út meðalvexti eftir því sem kjörvaxtakerfi banka og sparisjóða hefur orðið fjölbreyttara. En við útreikning á þessum meðalvöxtum eru notaðir allir vextir af skuldabréfalánum banka og sparisjóða, lánum á lágum vöxtum til traustra aðila með góða tryggingu og lánum á háum vöxtum til aðila með lakari tryggingar og síðan ýmsir vaxtaflokkar þar á milli. Þessir meðalvextir hafa síðan verið notaðir í samningum manna á milli utan bankakerfisins.

Vissulega er erfitt að átta sig á því, herra forseti, hvaða áhrif þessar breyttu viðmiðanir hafa því þó Seðlabankinn birti samkvæmt ákvæðum frv. lægstu vexti nýrra útlána viðskiptabanka, þá er heimilt að semja um frávik og vissulega getur í beitingu þeirra frávika hallað verulega á einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki sem ekki standa fjárhagslega eins traustum fótum eins og aðrir. Það er við því að búast, herra forseti, að verið sé að opna fyrir meira frjálsræði í dráttarvöxtum en verið hefur svo dæmi sé tekið, þá gagnist það meira stórum aðilum en einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Herra forseti. Vaxtaokrið hér á landi hefur gengið raunverulega úr öllu hófi á síðustu mánuðum og missirum og auðvitað hefur það bitnað mest og verst á þeim sem við erfiðustu aðstæðurnar búa. Meðalávöxtun nýrra almennra útlána hefur hækkað frá janúar 1999 til febrúarloka á þessu ári úr hvorki meira né minna en rúmum 13% í 19,1% eða um rúm 6% og átt sinn þátt í að keyra upp skuldir heimila og fyrirtækja sem orðnar eru gífurlega miklar. Fróðlegt verður að sjá hvernig markaðurinn og bankakerfið bregst við þessum nýju viðmiðunum og hvaða áhrif þær hafa en raunverulega mætti enginn á fund nefndarinnar sem treysti sér til þess að hafa skoðun á því hvort ákvæði frv., t.d. varðandi dráttarvextina, leiddu til þess að dráttarvextir yrðu lægri eða hærri.

Ég tel líka ástæðu, herra forseti, að velta fyrir sér við þessa umræðu kjörvaxtakerfi bankanna sem eru almennt reiknaðir út með álagi ofan á grunnkjörvexti einstakra banka eins og þeir eru birtir af Seðlabankanum á hverjum tíma. Ég hef t.d. fyrir framan mig kjörvaxtaflokka Búnaðarbanka Íslands en þar er um 10 flokka að ræða og er lægsti flokkurinn um 0,5% álag sem er þá væntanlega fyrir traustustu viðskiptavinina en síðan er álagið allt upp í 5% fyrir þá sem verst standa og bankarnir meta sem ótraustari viðskiptavini með lélegri ábyrgð eða tryggingu. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst það gífurlega mikill vaxtamunur sem þeir betur settu búa við og þeir sem verr standa þurfa að greiða ef það getur verið um 4,5% vaxtamunur á kjörum bankanna til lántakenda eftir því hvort þeir eru metnir traustsins verðir af bankanum eða ekki. Ég spyr hæstv. viðskrh., herra forseti, að því hvað henni, hæstv. ráðherranum, finnst um þann mikla mun sem er á kjörum þeirra sem eru metnir traustustu viðskiptavinirnir og þeir sem eru metnir lakari þegar um er að ræða 4,5% vaxtamun á þessum kjörvaxtaflokkum þannig að það er ekki sama Jón eða séra Jón sem fær lán í banka. Út af fyrir sig væri fróðlegt að vita hvernig þessum ákvæðum hefur verið beitt en samkvæmt upplýsingum frá samtökum banka og verðbréfafyrirtækja kom í ljós við lauslega athugun í einum bankanum um að notkun þeirra dreifist nokkuð jafnt þannig að um það bil helmingur lána er í lægri flokkunum og helmingur í þeim hærri.

[17:00]

Mér finnst umhugsunarvert, herra forseti, hvort ekki ætti að setja efri og neðri mörk á þessa kjörvaxtaflokka þannig að bankarnir geti ekki svínað svona á þeim sem verr standa en aðrir fjárhagslega. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún að setja ætti slík efri og neðri mörk á þessa kjörvaxtaflokka eða telur hún að bankarnir eigi bara að hafa óheft svigrúm og frjálsræði í því að hafa slíkan gífurlegan vaxtamun á kjörvaxtaflokkum? Mér finnst þeir óeðlilega háir. Að þeir sem verr standa í þjóðfélaginu og þurfa að taka lán þurfi að borga allt að 5% hærri vexti en þeir sem betur standa í þjóðfélaginu. Ég sé ekki hvað getur réttlætt slíkan gífurlegan mun. Vera má að eðlilegt sé að hafa einhvern mun þarna á, en svona mikill munur getur varla verið réttlætanlegur ekki síst þar sem ég geri ráð fyrir að bankarnir kalli yfirleitt eftir sæmilegum tryggingum á bak við útlán sín.

Ég minni á það, herra forseti, að fyrir nokkrum árum komu fram upplýsingar um útlánatöp í bankakerfinu og þau voru mjög mikil hjá fyrirtækjum, herra forseti. Mig minnir að á fimm ára tímabili, ég var að lesa það rétt áðan, hefðu það verið um 14 milljarðar kr. en vanskilin t.d. hjá Íbúðarlánasjóði eru ekki nema brot af því sem er sá sjóður sem einstaklingar leita helst í. Vanskil þar voru ekki nema nokkur hundruð millj. á þessu fimm ára tímabili meðan þau voru um 14 milljarðar hjá fyrirtækjum. Ég spyr, herra forseti, ráðherrann að því hvað henni finnist um þann mun sem er á þessum kjörvaxtaflokkum.

Í frv. er lagt til að í stað þess að Seðlabanki ákveði einhliða dráttarvexti af öllum peningakröfum verði aðilum heimilt í lánasamningum að semja um dráttarvexti upp að vissu marki. Eins og ég sagði er alveg óljóst hvaða áhrif þetta vaxtafrelsi hefur á vaxtakjörin en ákvæði í frv. eigi að hvetja aðila á markaðnum til að semja um vexti sín á milli. Þetta gildir ekki um neytendalán, en að öðru leyti gildir þetta í viðskiptum. Ég hygg að í reynd muni þetta vaxtafrelsi, sem ýmsir umsagnaraðilar gagnrýndu að vísu að væri of takmarkað, gagnast fjárfestum og betur stæðum lántakendum sem eru í góðri aðstöðu til að semja niður dráttarvexti en nota ekki almennar viðmiðanir um vexti sem lánastofnanir bjóða þegar. Það er alveg ljóst að þetta vaxtafrelsi mun fyrst og fremst nýtast betur stöddum fjárfestum.

Herra forseti. Í 6. gr. frv. er kveðið á um heimild til þess að semja um tiltekinn fastan hundraðshluta sem vanefndaálag ofan á ákveðinn grunn dráttarvaxta sem tekur mið af vöxtum algengra skammtímalána. Miðað við ákvæði frv. eru þessi vikmörk í dag að lægstu dráttarvextirnir geta orðið 17,9% miðað við ákvæði frv. og hæstu dráttarvextir 25,9%, en dráttarvextir eru í dag 23,5%. Hvort þeir hækki við þessa breytingu, herra forseti, upp í 25,9 eða lækki eitthvað niður í áttina að þessum 17,9% mörkum treysti enginn sér til að hafa skoðun á, hvorki Seðlabankinn né aðrir sem komu á fund nefndarinnar.

Það er sama, herra forseti, um dráttarvextina og 7% hækkun á meðalávöxtun nýrra almennra útlána. Þeir hafa hækkað frá janúar 1999 til febrúar í ár um nærri 8%, hvorki meira né minna, herra forseti, sem dráttarvextirnir hafa hækkað og dráttarvextirnir eru vissulega þungir í kjörum þeirra sem þurfa að taka lán og oft svívirðilega háar stærðir sem dráttarvextirnir eru sem hlutfall af höfuðstól láns. Það er auðvitað ekkert annað en okur á skuldugum heimilum og fyrirtækjum og erfitt að sjá hvað réttlætir slík okurkjör. En ákvæði um vexti af skaðabótakröfum eru til bóta, en vextir á þær kröfur hafa verið allt of lágir og var undir það tekið af flestum umsagnaraðilum.

Það sem ég vil líka gera að umræðuefni hér er í fyrsta lagi 6. gr. sem ég hef þegar gert og ég tel eðlilegt að sitja hjá við þá grein. Mér finnst allt of mikil óvissa í þessu og meðan kjörvaxtaflokkarnir eru með þeim hætti að það eru fyrst og fremst betur settu aðilarnir sem geta samið um og haft not af þessu ákvæði til þess að lækka dráttarvaxtatöku, þá sé ég ekki ástæðu til þess að styðja það ákvæði.

Varðandi 15. gr. verður Seðlabankanum heimilt en ekki skylt að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Ég tel, herra forseti, að ástæða sé til að ætla að þetta geti ýtt undir verðtrygginguna áfram frekar en dregið úr henni þegar aðeins er um að ræða heimild en ekki skyldu til að ákveða lágmarkstíma verðtryggingar innstæðna og lána. Það er því veiking hjá þeim sem vilja horfa til þess að við komumst út úr þessari verðtryggingu líkt og aðrar þjóðir hafa gert. Við erum eitt fárra ríkja sem búum við verðtryggingu, herra forseti, en milli 85 og 90% af t.d. langtímaskuldbindingum eða skuldbindingum heimila til lengri tíma eru bundnar á klafa verðtryggingar.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, að menn hafa í lengri tíma talað um að þegar við værum búin að búa við stöðugleika í einhvern tíma væri hægt að feta sig ákveðið og öruggt og með öruggum skrefum út úr þessari verðtryggingu, en hérna er ákvæði í frv., herra forseti, sem virðist festa okkur í áfram á klafa verðtryggingarinnar frekar en losa okkur út úr henni. Það mætti halda, herra forseti, að þessi ríkisstjórn --- og ég spyr hæstv. ráðherra að því, ef formaður efh.- og viðskn. hættir að trufla ráðherrann, hvort ríkisstjórnin hafi enga trú á efnahagsstefnu sinni og stöðugleikanum þegar á borði okkar birtist í frv. ákvæði sem frekar festir í sessi verðtrygginguna en hitt. Ég spyr ráðherrann hvort engar breytingar séu á döfinni hjá ríkisstjórninni að því er varðar verðtryggingarstefnu stjórnvalda. Við höfum búið við stöðugleika, því er a.m.k. haldið fram, á undanförnum árum þannig að maður hefði talið ástæðu til að finna ákvæði sem leiddi okkur frekar í átt til þess að fara út úr verðtryggingunni eins og aðrar þjóðir hafa gert. Þess vegna verður maður, herra forseti, að draga þá ályktun að ríkisstjórnin hafi enga trú á stöðugleikanum, hvað þá að framhald verði á honum, herra forseti, þegar er að finna ákvæði sem festir okkur áfram á klafa verðtryggingarinnar. Um það vil ég spyrja, herra forseti.

Ég tók eftir því að Neytendasamtökin gera einmitt athugasemdir við verðtryggingarákvæðin og segja í sinni umsögn, með leyfi forseta:

,,Neytendasamtökin hafa ítrekað lýst sig andvíg verðtryggingu á fjárskuldbindingum og telja raunar undarlegt að verðtrygging sé leyfð á slíkum skuldbindingum á meðan bannað er að verðtryggja ýmsar aðrar mikilvægar fjárskuldbindingar eins og laun.``

Það er einmitt það sem fólki finnst ekki ganga upp þegar sífellt er verið að halda í verðtrygginguna varðandi skuldir heimilanna meðan öðru er kippt úr sambandi. Er þar skemmst að minnast t.d. tengingar lífeyrisgreiðslna við laun, að ríkisstjórnin vílaði ekkert fyrir sér, herra forseti, á fyrstu dögum valdasetu sinnar 1995 að kippa lífeyrisgreiðslunum úr tengslum við launavísitölu. En það sem er verðtryggt áfram eru fyrst og fremst skuldir heimilanna eða skuldir almennt og ég spyr hæstv. ráðherra að því, herra forseti, hvort engin endurskoðun sé á ferðinni varðandi verðtryggingarstefnu stjórnvalda. --- Áfram segja Neytendasamtökin:

,,Eðlilegt er að vextir tryggi eðlilegar tekjur á gjöld vegna fjárskuldbindinga eins og raunar í öllum löndum, a.m.k. í okkar heimshluta. Ekki verður séð hvað skapar Íslandi þá sérstöðu að nota þurfi slíkar reglur hér en ekki í öðrum löndum.``

Síðan taka þau mörg dæmi um hversu fráleitt þetta er, herra forseti, sem margir hafa heyrt áður, að til að mynda eigi margir neytendur erfitt með að skilja að ef uppskerubrestur verður á kaffi í Brasilíu hækki skuldir heimilanna á Íslandi. Þeir kalla það samsæri gegn neytendum að hafa þetta með þessu móti.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Út af fyrir sig væri hægt að hafa langt mál um vaxtastefnuna, vaxtaokrið sem heimilin í landinu hafa búið við á umliðnum árum, hvernig dráttarvextirnir hafa leikið illa mörg heimilin í landinu, þessir himinháu dráttarvextir sem hafa verið 23--24% á umliðnum mánuðum og missirum. Það er engin trygging fyrir því, herra forseti, að við séum að fara út í einhverjar breytingar sem eru hagstæðar fyrir einstaklinga, heimilin í landinu eða fyrirtæki, a.m.k. þau smærri miðað við þær breytingar sem hér er verið að gera á vaxtalögunum eða þessu frv. til laga um vexti og verðtryggingu. Þess vegna hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara, herra forseti. Það er fyrst og fremst 6. gr. og 15. gr. sem ég geri athugasemdir við og mun ekki ljá fylgi mitt, en að öðru leyti hygg ég, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að í það heila tekið megi segja að málið sé frekar til bóta en hitt þó að það hafi þessa annmarka.