Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:33:50 (8150)

2001-05-18 17:33:50# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Ég vil hnykkja á nokkrum þeim mikilvægu álitamálum og spurningum sem hv. þm. Karl V. Matthíasson drap á um verðtrygginguna og áhrif hennar, ekki eingöngu á efnahagsumhverfið heldur hreinlega á þjóðarsálina. Ég vil hnykkja á þeirri spurningu sem fram kom hjá hv. þm. í þá veru hvort hæstv. viðskrh. líti ekki á það sem mjög mikilvæg skilaboð hjá stjórnvöldum, hjá ríkisstjórn og öðrum þeim sem um efnahagsmál véla í samfélagi okkar, að þeir opinberu aðilar sem fara með stjórn mála trúi sjálfir á stöðugleikann, treysti sjálfir því að verðbólgunni verði haldið í skefjum, að verðlag haldist stöðugt og þar með sé hin gamla ástæða fyrir verðtryggingunni, þ.e. vörn sparifjáreigenda til þess að innstæður þeirra rýrni ekki í bönkum eins og var á óðaverðbólguárum fyrri tíðar, ekki lengur til staðar.

Ég minnist þess að hæstv. fyrrum fjmrh., Friðrik Sophusson, gumaði gjarnan af því í þessum ræðustól á síðasta áratug, raunar bæði fyrri og síðari hluta hans, á þeim átta eða níu árum sem hann sat í stóli fjmrh., að menn væru kerfisbundið lið fyrir lið að vinna sig út úr þessari verðtryggingarhugsun og þessari verðtryggingarviðmiðun. Ég tek eftir því að í þessu frv. ber því miður ekki á þeirri umsögn. Ég mun því árétta þá spurningu sem hefur raunar verið sett fram af fyrri ræðumönnum en ég vil leggja ríka áherslu á hvort hæstv. ráðherra sé mér ekki sammála um að mikilvægt sé að senda út skilaboð til samfélagsins og ekki síst --- ég undirstrika, ekki síst --- á þeim tímum þegar margir sérfræðingar telja að við séum nú að fara inn í efnahagslega dýfu. Nú halda margir fram að það sé óvissa, stórar spurningar sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum og allt um kring er þessi draugur fortíðar, verðbólgan, umlykjandi. Einmitt við þær aðstæður er svo mikilvægt að stjórnvöld segi: Nei, við ætlum að varðveita stöðugleikann hvað sem það kostar.

Þetta er líka spurning um trúverðugleika ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Er það ekki oddviti hennar, hæstv. forsrh., sem fer mikinn og biður fólk um að halda ró sinni, stöðugleikinn sé ekki í neinni hættu? Því spyr ég: Hvers vegna bólar ekki á skrefum í þá átt að menn gíri sig út úr þessu séríslenska fyrirbæri, þessu alséríslenska fyrirbæri sem verðtrygging inn- og útlána í raun er? Ég held að það sé mikilvægt einmitt á þessum tíma í efnahagsástandi þjóðarinnar þar sem góðæri er tímabundið að baki. Við erum í ákveðinni aðlögun og skiptir miklu um næstu skref hvort við rennum inn í hina erfiðu djúpu dýfu eða hvort okkur takist að halda sjó, hvaða skilaboð það eru sem stjórnvöld ætluðu að senda þjóðfélaginu og þegnum landsins. Að því spyr ég.