Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:38:10 (8151)

2001-05-18 17:38:10# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir málefnalega umræðu og fyrir vinnu við þetta frv. sem er vissulega tímamót. Það eru alltaf tímamót þegar sett eru ný vaxtalög í landinu. Auðvitað er ég eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa talað inni á því að vextir eru háir og allt of háir á Íslandi. Þetta frv. gengur því miður ekki út á að lækka vexti almennt, en það er rétt að frv. veitir ákveðið svigrúm sem maður vonast til að geti orðið til að bæta kjör þeirra sem standa þannig að vígi að geta náð samningum við bankana, hagstæðari samningum en hefur verið.

Vegna spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá ég legg frv. þannig fram sem það lítur út og þá þarf ég kannski ekki að svara þeim spuringum hvort ég styðji viðkomandi ákvæði því ég geri það með því að leggja frv. fram, en hv. þm. taldi að það væri ástæða til þess að spyrja mig um álit mitt á 6. gr.

Síðan er það ákvæði, sem getur vissulega orkað tvímælis í sambandi við frv. og við fórum í gegnum þá umræðu í ráðuneytinu, hvað varðar hið séríslenska fyrirbæri sem svo var nefnt, verðtrygginguna. Ég treysti mér ekki til að leggja til að hún verði afnumin og eins og þingmenn gera sér grein fyrir er þetta frv. undirbúið áður en þau tíðindi gerðust fyrir nokkrum dögum að gengið veiktist og ýmsar afleiðingar komu í ljós í framhaldi af því.

Þetta er í sjálfu sér samt umræða sem er eðlilegt að fari fram. Ég skil mjög vel að hv. þm. vilji ræða hvort ástæða sé til núna að afnema þetta ákvæði og setja okkur þá inn í umhverfi sem þekkist hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Engu að síður er þetta fyrirbæri orðið nokkuð greypt inn í þjóðarsál okkar að mínu mati og eins og við vitum --- það kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni --- hafa vextir verið lægri á verðtryggðum lánum en óverðtryggðum og munar þar einhverjum prósentustigum. Ég held að sú reynsla segi okkur kannski að rétt sé að viðhalda þessu fyrirbæri og þessum aðferðum sem eru lögbundnar. Þess vegna er það sem frv. er lagt þannig fram að við viðhöldum ákvæði um verðtryggingu skuldbindinga.

Ég veit ekki hvort ég á að fara svo mjög út í umræðu frekar. Þetta eru aðalatriðin sem komu fram í umræðunni og ég er ánægð með það. Mér heyrist hv. þm. telja frv. vera til bóta, verði það að lögum, og það er þess vegna sem það er lagt fram. En ég get alveg tekið undir að við vitum ekki nákvæmlega á þessu stigi hvernig mál muni þróast í framhaldi af þessari lagasetningu hvað varðar vaxtatöku en engin ástæða er til annars en vera bjartsýnn og trúa því að verði frv. að lögum muni það leiða af sér betri kjör í flestum eða einhverjum tilfella.