Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:44:44 (8153)

2001-05-18 17:44:44# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það og hef oft ætlað mér að koma því á framfæri við hv. þm. Samfylkingarinnar að samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins eru nánast öll fyrirtæki á Íslandi lítil eða meðalstór. Mér heyrist oft í málflutningi þeirra að þeir telji að það sé einhver lítill hluti íslenskra fyrirtækja sem falli undir þessa skilgreiningu. (Gripið fram í.) En þetta er nú reyndar svona.

Ég tel að bankarnir þurfi að hafa ákveðna möguleika til að semja um vexti og ekki sé hjá því komist að þeir taki tillit til lántakandans, hversu öflugur hann er og hversu líklegur hann er til þess að standa í skilum. Þetta eru eins og hver önnur viðskipti og þá hljóta þessi atriði að vera aðalatriði málsins.

Hins vegar, eins og hv. þm. veit, eru neytendalánin undanskilin hvað varðar samninga. Ástæða þess er einfaldlega sú að neytandinn er talinn vera veikari aðili í þeim samningum og þess vegna sé ekki hægt að láta þetta ná til hins almenna neytanda.

Ég verð að segja að ég er verðtryggingarsinni og ég er ekki tilbúin til þess núna að stíga það skref að hætta við verðtryggingu. (JóhS: Það var ekki spurningin.) Jú, jú, það var spurningin. (Gripið fram í.) Já, já, en þegar ég segi að ég sé verðtryggingarsinni er ég alveg tilbúin að stíga það skref sem þar er kveðið á um.