Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:50:55 (8156)

2001-05-18 17:50:55# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. viðskrh. sagði að það þetta frv. setti ekki þak á vextina eða ýtti þeim a.m.k. ekki niður frá því sem þeir eru núna og það væri miður. En ef það er miður, hvers vegna í ósköpunum beitir hæstv. viðskrh. sér þá ekki fyrir frv. sem tekur á þeim vanda sem hæstv. ráðherra viðurkennir að sé fyrir hendi?

Dráttarvextir eru núna 23,5% en samkvæmt frv. væri heimilt að fara með þá upp í 25,9%, sem eru 259 þús. kr., sem bönkum og lánastofnunum yrðu greiddar fyrir hverja milljón sem tekin er að láni. Nú vita menn hve margar milljónir menn þurfa að taka að láni til að kaupa íbúð svo dæmi sé tekið. Þess eru mjög mörg dæmi að einstaklingar á lágum launum, sem búa við bágborin kjör, hafa þurft að taka bankalán, lent í vanskilum og þar af leiðandi á dráttarvöxtum sem eru 23,5% í dag og meiri hlutinn á Alþingi er að fara að samþykkja frv. með lagagrein sem færir þetta þak upp í 25,9%. Ef hæstv. ráðherra finnst þetta miður, hvers vegna í ósköpunum ekki að breyta lagagreininni og kveða á um bann við okri af þessu tagi?