Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:53:43 (8158)

2001-05-18 17:53:43# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þarna fengum við það. Við lifum þannig tíma að frelsi eigi að ríkja á þessum markaði. Hér kemur fulltrúi ríkisstjórnarinnar og réttlætir það sem ég vil kalla ránsfeng bankanna. Oft og tíðum er verið að taka peninga af fátæku fólki sem á engra kosta völ og átti engra annarra kosta völ en að taka þessar lánsskuldbindingar á herðar og á engra annarra kosta völ en greiða þetta okur því að því er stillt upp við vegg af hálfu bankanna. Ég heyrði ekki betur en hæstv. viðskrh. talaði með fyrirlitningu um okurlögin sem áður voru og tilheyra liðinni tíð.

Þegar rætt er um frelsi, að við lifum þannig tíma að frelsið ríki, þá er það hlutverk okkar í löggjafarsamkundunni að setja samfélaginu leikreglur í þessum efnum. Það er okkar að sjá til þess að þær leikreglur, þau lög sem við búum við séu réttlát. Þegar við verðum vitni að öðru eins ranglæti og vaxtaokrið ber með sér ber okkur að sjálfsögðu að taka á því. En svörin frá hæstv. viðskrh. eru á þennan veg: Það er frelsi og við verðum að taka því sem að höndum ber.