Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:55:38 (8159)

2001-05-18 17:55:38# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. talaði um ránsfeng bankanna, þá er það einkennilegt, miðað við það ef svo er, að bankarnir skuli ekki skila meiri hagnaði en raun ber vitni. En sannleikurinn er sá að hagnaður bankanna er alls ekki viðunandi, ekki nægilegur að mínu mati.

En svo er það eitt sem við höfum kannski ekki rætt um hér og er í sjálfu sér eðlilegt vegna þess að það tengist ekki beint þessu frv. að það er náttúrlega hinn mikli vaxtamunur sem er hér á Íslandi sem þýðir að það er allt of mikill kostnaður í bankakerfinu. Það er von mín m.a. með því að selja bankana eigi sér stað ákveðin hagræðing sem þýði að vaxtamunur muni lækka og þar með vextir, bæði til neytenda og fyrirtækja.