Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:01:27 (8161)

2001-05-18 18:01:27# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þm. um ábyrgðarmennina, það frv. sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu, þá erum við í viðskrn. að vinna að því að endurbæta þann samning sem gerður var við lánastofnanir og sem Neytendasamtökin koma einnig að og vona ég að það verði til þess að ákveðin lausn náist sem allir geta bærilega sætt sig við. En ég get ekki greint frekar frá því á þessu stigi og tel að betra sé að gera það í hv. nefnd.

Síðan var spurt við hvaða aðstæður væri hægt að hugsa sér að afnema verðtryggingu. Ég treysti mér ekki til þess að kveða nákvæmlega upp úr með það. Þetta er mál sem við munum eflaust taka upp aftur áður en langt um líður. Ég er í sjálfu sér opin fyrir því að endurskoða þá afstöðu mína að gera þarna á breytingar þó að ég telji að rétti tíminn sé ekki núna.