Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:02:52 (8162)

2001-05-18 18:02:52# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:02]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski er fullmikið í lagt að ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari því beint út hvort hugsanlega og hvaða aðstæður kunna að leiða til þess að hægt sé að afnema verðtrygginguna. Því er ástæðulaust að elta ólar frekar við það. Hæstv. ráðherra svaraði því eins vel og hún gat. Hins vegar liggur alveg fyrir að því er varðar ábyrgðarmennina að samkomulagið sem gert var á sínum tíma er þannig úr garði gert að það er algerlega háð vilja lánastofnananna því að þeir eru framkvæmdaraðilar að þessum samningum.

Það liggur líka fyrir að menn náðu engan veginn þeim markmiðum sem að var stefnt með þeim samningum og það liggur einnig fyrir að ef menn ætla að ná einhverjum árangri, ef menn hafa vilja til þess að ná raunverulegum árangri, þá verður það ekki gert nema með löggjöf. Það er alveg kristalstært. Því þykir mér mjög miður --- ég get ekki túlkað orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo --- að hæstv. ráðherra sjái ekki ástæðu til þess á þessu þingi að lögfesta reglur um ábyrgðarmenn, hæstv. ráðherra vilji fara aftur í gamla farið sem ekki gafst vel og hefur þegar verið reynt. Ég verð að lýsa því yfir, virðulegur forseti, að mér þykir miður að hæstv. ráðherra vilji ekki standa að því að lögfesta reglur um ábyrgðarmenn.