Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:07:55 (8165)

2001-05-18 18:07:55# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg nákvæmlega eins og hv. þm. segir er raunvaxtakostnaður lántakenda af verðtryggðum lánum lægri en af óverðtryggðum, þ.e. ef bæði vaxtagreiðslurnar og verðbólguuppfærslan er tekin með í reikninginn. Þess vegna er nákvæmlega ekkert vit í því út frá hagsmunum lántakenda að leggja verðtrygginguna niður vegna þess að það eru hagstæðari lán þegar til lengri tíma er litið, sérstaklega langtímalán.

Seinna atriðið sem ég vildi gjarnan fá hv. þm. til að tjá sig betur um er þetta: Finnst hv. þm. eðlilegt að skuldari sé í þeirri stöðu að hagstætt sé fyrir hann að draga að greiða af láni, að draga að greiða af skuldbindingum sínum og borga dráttarvexti frekar en t.d. að taka nýtt lán og endurnýja það? Ég nefni það sem dæmi vegna þess að ef hv. þm. stendur frammi fyrir því t.d. að greiða ekki segjum bara af hálfrar milljón kr. skuld heldur borga dráttarvexti af henni versus það að fara út í Búnaðarbanka, Landsbanka eða Íslandsbanka og taka slíka hálfa millj. kr. að láni á venjulegum óverðtryggðum vöxtum í átta mánuði, þá er hagstæðara að nota dráttarvextina vegna þess að raunverulegur fjármagnskostnaður af óverðtrygðu 500 þús. kr. láni í átta mánuði er yfir 31% meðan dráttarvextirnir mundu vera þetta 23--24%.