Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:11:15 (8167)

2001-05-18 18:11:15# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það er í sjálfu sér eðlilegt að dráttarvextir séu hærri en aðrir vextir og óeðlilegt að það sé á annan veg. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talar um lán sem geti borgað sig fyrir lánakandann að láta dankast, fara yfir á dráttarvexti, í stað þess að endurnýja það með tilheyrandi lántökugjöldum.

Vandinn er bara sá að það á við bæði um dráttarvextina sem aðra vexti að kostnaðurinn er of mikill. Vextir eru allt of háir. Mér finnst ekki óeðlilegt að leitað sé leiða með reglum og lögum til að halda þeim innan ákveðinna marka. Ég veit að þetta samrýmist ekki frjálshyggjustefnu ríkisstjórnarinnar og mönnum finnst alveg þetta jafnvel alveg hræðilegur hlutur að segja, þ.e. að ætla að hafa áhrif á markaðinn eins og menn gerðu áður með okurlögunum frá 1960. Ég veit það. Mér finnst það hins vegar vera nánast ránsfengur sem fjármálastofnanir hafa af fólki með þessum okurvöxtum.

Hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan að það væri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að halda vaxtakostnaði háum, væntanlega með það fyrir augum að slá á þenslu, koma í veg fyrir eftirspurn eftir lánum. Ég vakti hins vegar athygli á því í ræðu minni áðan að iðulega á fólk, einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki, ekki annarra kosta völ en að leita eftir lánsfjármagni. Þannig er að þegar viðkomandi snúa sér til lánastofnana eru vextir þar mjög einsleitir. Þeir eru mjög á einn veg. Samræmi er í þeim vöxtum sem þar er sboðið upp á.

Þegar við lítum á einstaklingana og fjölskyldurnar sem ég staðhæfi að eigi ekki annarra kosta völ en að leita inn í þetta rándýra kerfi þá horfi ég t.d. á húsnæðiskerfið sem við höfum smíðað og búið við. Hvernig skyldi það vera? Hvernig skyldi húsnæðiskerfið vera? Húsnæðiskerfið er þannig að það hefur allt meira og minna verið markaðsvætt. Fólk fær húsbréfalán til að fjármagna íbúðir sínar. Hve mikið fær fólk að láni? Jú, það fær 65%, 75% ef verið er að kaupa í fyrsta sinn, ef ég man rétt, og ef fólk á kost á viðbótarlánum getur það farið upp í 90%.

[18:15]

90% af hverju? Og 65% af hverju? Jú, af íbúðarverðinu en þó með hámarki. Það er hámark á lánveitingum í húsnæðiskerfinu. Hvert skyldi þetta hámark vera? Ef ég man rétt er það um 10 millj. Hvað þýðir það? Það þýðir að einstaklingur getur fengið húsbréf upp á 6,5 millj. Húsbréfalánin geta numið 6,5 millj. Hverjir eru vextir á þeim lánum? Þeir eru ívið lægri en gerist á markaði. Eru þeir ekki 5,1% ofan á verðtryggingu? Það eru verðtryggð lán með 5,1%. Þau hafa reyndar rokkað til. Ávöxtunarkrafan hefur verið breytileg vegna þess að eftirspurnin eftir þessum bréfum á markaði hefur verið mismunandi og þegar hún hefur verið lítil hefur ávöxtunarkrafan aukist verulega með tilheyrandi auknum byrðum á lántakandann. En eftir standa þá þær milljónir sem einstaklingurinn verður að leita eftir út á markaðinn. Ef hagur hans er mjög bágur getur hann átt kost á viðbótarláni og farið upp í 90%, 90% að hámarki af 10 millj. Viðbótarlánin eru ekki á lægri vöxtum en almennu húbréfalánin þannig að þar erum við líka að tala um allverulegan vaxtakostnað. En þetta er hátíð hjá hinu þegar einstaklingurinn þarf að leita til bankans, til fjármálastofnananna. Þá erum við að tala um miklu hærri vaxtakostnað. Það er það fólk sem er að taka þessi lán á almennum vaxtakjörum í bönkunum sem er sumt hvert að lenda inni í dráttarvaxtagildrunni. Þetta fólk er ekki eins og hverjir aðrir viðskiptavinir í búð sem geta síðan sjálfum sér um kennt þegar þeir kaupa of mikið. Iðulega erum við að tala um fólk sem er að reyna að fjármagna þakið yfir höfuðið á sér og fjölskyldu sinni. Til varnar þessu fólki þyrfti fólk að eiga eins og eitt stykki ríkisstjórn og sæmilega þenkjandi stjórnarmeirihluta á Alþingi sem setur þær reglur að bankarnir og fjármálastofnanir megi ekki og geti ekki níðst á þessu fólki vegna þess að þetta fólk á engra kosta völ. Ég hefði haldið að þetta hefði verið eitt aðaláhyggjuefnið, ekki aðeins verkalýðshreyfingar heldur samtaka atvinnurekenda líka að vaxtakostnaður, að fjármagnskostnaður sé úr hófi fram. Ef við búum lengi við það ástand að raunávöxtun fjármagns er mjög mikil þýðir það í reynd að verðmæti, að fjármagn, peningar eru fluttir frá heimilum og frá atvinnurekstri yfir í fjármagnið og yfir til fjármagnseigenda og ef þetta gerist í langan tíma er voðinn vís. Mér finnst alltaf mjög undarlegt að talsmenn atvinnurekenda í Samtökum atvinnulífsins og annarra samtaka skuli ekki hafa áhyggjur af þessu og þeim finnist einhver goðgá að setja einhverjar reglur, að setja eitthvert hámark, að sjá til þess að eitthvert lágmarksvelsæmi sé ríkjandi. Mér finnst það mjög undarlegt.

Við heyrðum hæstv. viðskrh. lýsa því yfir áðan að það væri beinlínis stefna ríkisstjórnarinnar að hafa vaxtastigið tiltölulega hátt. Ég vænti þess og geri ráð fyrir því að það sé gert á þeirri forsendu að slá á þenslu, að reyna að hamla gegn útlánum í bankakerfinu, en reyndin er sú að með þessari stefnu eru heimilin og fyrirtækin sett í mikinn vanda, enda er það að gerast núna að fréttir berast af auknum útlánatöpum í bankakerfinu. Ein ástæðan er sú að þau eru að sligast undan þessum háa vaxtakostnaði. Gegn honum eigum við að beita okkur af alefli og ekki hika við að beita lagavaldi ef þess gerist þörf.