Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:22:17 (8169)

2001-05-18 18:22:17# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tekur undir þau sjónarmið sem ég er að leggja áherslu á um vaxtaokrið hafi keyrt úr hófi fram. Þar virðumst við vera sammála.

Hitt kann vel að vera að vel hafi tekist til í sumum tilvikum í sameiginlegum aðgerðum banka varðandi greiðsluþjónustu og samræmt átak sem gert hefur verið af hálfu bankanna og annarra lánastofnana, lífeyrissjóða og annarra til að greiða úr fyrir einstaklingum. En yfirleitt er það svo að það hefur verið að greiða úr vanda fólks eftir að það hefur verið keyrt niður á hnén með óhóflegu vaxtaokri. Auðvitað er það ekkert annað en vaxtaokur þegar krafist er 23,5% raunávöxtunar eins og gert er núna með dráttarvöxtum í bankanum. Það eru 235 þús. kr. á hverju ári fyrir 1 millj. sem eru teknar upp úr vasa einstaklingsins og í mjög mörgum tilvikum er um að ræða tekjulítið fólk sem er engan veginn aflögufært.