Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:23:46 (8170)

2001-05-18 18:23:46# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki bönkunum í hag ef viðskiptavinirnir eru í greiðsluvandræðum. Þvert á móti er það vísasti vegurinn til að tapa á bankarekstri að það komi fyrir að kúnnarnir lendi í vandræðum og geti ekki staðið í skilum. Þess vegna hafa bankarnir verið að reyna að fá fólk inn áður en það lendir í vandræðum með því að hvetja fólk til þess að koma inn í greiðsluþjónustu. Það er alltaf þannig að ef fólk kemur fyrr en seinna, um leið og eitthvað byrjar að bjáta á, um leið og forsendur breytast, um leið og aðstæður breytast í þeirra fjármálum, eitthvað kemur upp á, er betra fyrir fólk að koma sem allra fyrst og tala við bankann sinn.

Ég nefni þá breytingu sem hefur orðið í bankakerfinu þegar allir þjónustufulltrúarnir eru komnir. Þegar fólk kemur inn í banka í dag eru sárafáir sem eru að telja peninga. Það hefur stórminnkað. En mörg borð eru setin af þjónustufulltrúum sem fólk kemur til og ekki þarf lengur að standa í biðröðum hjá bankastjórum til þess að fá smálán. Þetta er orðið miklu þægilegra og bankarnir eru farnir að veita miklu betri þjónustu og farnir að vinna miklu betur með heimilunum til að leysa vandamál áður en þau verða allt of mikil. Bankarnir brenndu sig fyrir nokkrum árum, á erfiðleikatímanum í kringum 1990, á því að vinna ekki með fólki. Þess vegna er þetta komið og þeir hafa sem betur fer lært og eru farnir að gera mjög góða hluti einmitt á þessu sviði.